08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Frsm. (Emil Jónsson):

Um þá ósk hv. þm. G.K., að umr. um þetta mál verði frestað, vil ég taka það fram, að ég hefi sízt í móti því, að hv. þm. Barð., sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, geti upplýst þetta mál frekar en orðið er. En ég hygg þó, að í þessari umsögn sýslum. Gullbringu- og Kjósarsýslu og bréfi frá hreppsnefnd Garðahrepps, sem hvorttveggja liggur hér fyrir, sé upptalið flest af því, sem viðkomandi sýslunefnd og hreppsnefnd hafa fram að færa í þessu máli. Vildi ég því mælast til þess, að hv. þm. G.-K. gæti fallizt á það, eftir að hafa kynnt sér þessi skjól frá hreppsnefnd og sýslunefnd, að málið verði þá tekið upp aftur til meðferðar svo fljótt sem hægt er. því að þó að hann telji, að málinu sé ekki stofnað í neina hættu með því að draga það á langinn, þá veit maður, að það er þröngur og erfiður gangur fyrir mál gegnum þingið. Ég vildi ákaflega gjarnan, að mál þetta dagaði ekki uppi nú á þessu þingi, því að þörf Hafnfirðinga er svo brýn og aðkallandi í þessu efni. Þm. af öllum þingflokkum, hverjir í sínu lagi, báru fyrir 2 árum fram frv. um þetta efni á Alþ., svo að ég hygg ekki ofmælt, þó að ég segi, að þetta mál hafi innan allra þingflokkanna eitthvert fylgi.

Ég vil leggja áherzlu á það, ef máli þessu, sem komið er hér fram vegna brýnnar nauðsynjar, verður frestað nú, að ekki verði dregið lengur að taka það upp aftur en brýn þörf er á. Annars hygg ég, að flestar upplýsingar, sem héraðsbúar hafa fram að færa í málinu, séu skjalfestar í gögnum þeim, sem hv. þm. G.-K. hefir fyrir framan sig.