13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir undirtektir hennar undir þetta mál. En áður en gengið verður til atkv., vil ég drepa á nokkur atriði í brtt. hv. n., sem ég tel, að geti orkað tvímælis. Það, sem vakti fyrir okkur flm. að binda þessa skrifstofu við ákveðinn stað, eða Hvanneyri, var það, að þar sem hér er um tvíþætt starf að ræða, að vinna úr gögnum og í öðru lagi að afla þeirra, þá myndi meiri trygging fyrir því, að skrifstofa þessi stæði í lifandi sambandi við bændurna sjálfa, ef hún væri sett í samband við búnaðarskólana. En það verður að teljast mjög þýðingarmikið atriði, að hægt verði að fá skýrslurnar sem viðast að af landinu. Aftur á móti lítum við svo á, að með því að setja skrifstofu þessa í samband við einhverja stofnun t. d. hér í Reykjavík, þá myndi meiri hætta á því, að hún kæmist ekki í eins gott samband við nýja krafta, sem árlega bætast við í sveitunum, en það eru hinir ungu og upprennandi menn, sem koma frá bændaskólunum. Gæti sakir þessa verið hætta á því, að skrifstofan fengi færri búreikninga en ella. Bændaskólamennirnir væru líka sjálfkjörnir brautryðjendur á þessu sviði, hver í sínu héraði. Samkv. því, sem ég nú hefi tekið fram, þá var það með ráðnum hug, að við settum þetta ákvæði inn 5 frv. sem tryggingu fyrir því, að fá sem flesta og bezta búreikninga handa skrifstofunni. Þá er það vitað, að það eru töluverðir erfiðleikar á því að ná í þessa búreikninga, enda hefir það verið svo, að Búnaðarfél. Ísl. hefir greitt smáfjárhæð fyrir þá nú að undanförnu. Ég verð því að draga það í efa, hvort þetta er heppileg breyting.

Þá hefir n. sett hámarksákvæði um kostnaðinn. Við það er ekkert út af fyrir sig að athuga. Ég býst við, að stofnuninni muni nægja þessi upphæð, a. m. k. fyrst um sinn. Þó ber það að athuga, að nú er verið að vinna að nýjum búreikningaformum, sem eiga að vera einfaldari en þau eldri. Það hefir að sjálfsögðu kostnað í fór með sér. Mig minnir t. d., að hin eldri búreikningaform Búnaðarfél. kostuðu hátt á annað þús. króna.

Þá leggur n. til að fella burt 5 gr. frv. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert við það að athuga, þótt viðurlög séu sett við því, ef opinberar stofnanir vanrækja að senda búreikningaskrifstofunni reikninga og skýrslur, sem þeim er skylt að senda, sé þetta trassað af bændaskólunum eða öðrum, finn ég ekkert á móti því, að þeir séu látnir sæta viðurlögum fyrir drátt sinn. Annars er þetta ekki neitt meiri háttar atriði, og mun ég því geta fellt mig við, hvernig um það fer, enda þótt ég telji, að það orki tvímælis að fella ákvæðið niður.