06.12.1935
Efri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. þessa máls, að ég væri fyllilega andstæður frv., bæði vegna ónógs og óforsvaranlegs undirbúnings heima í héraði og einnig vegna þeirrar ósanngirni, sem kemur fram gagnvart Engihlíðarhreppi, ef frv. verður að lögum eins og það er nú. En þó ég sé andstæður frv., vildi ég samt, ef það á endilega fram að ganga, gera tilraun til að gera á því breyt. til bóta, og þess vegna höfum við hv. 2. þm. S.- M. flutt hér brtt. á þskj. 703. Brtt. gengur í þá átt, að nánar sé ákveðið í sjálfu frv., hverjar bætur Engihlíðarhreppur skuli fá frá Blönduóshreppi, ef sameiningin nær fram að ganga.

Það er vitað, að hér er a. m. k. um svo mikinn tekjumissi að ræða fyrir Engihlíðarhrepp, að það mun nema talsvert á 2. þús. kr., að frádregnum þeim gjöldum, sem Engihlíðarhrepp ber samkv. lögum. Þegar svipta á einn hrepp svo miklu af tekjum sínum, er hér mun nema um helmingi allra tekna, sem hreppurinn hefir haft, þá virðist ekki úr vegi að ákveða sem nákvæmlegast, hvaða bætur hreppurinn eigi að fá fyrir þennan tekjumissi. því höfum við lagt til, að greiddar verði bætur, og skulu þær bætur reiknaðar þannig, að þær gefi með 5% vöxtum þær tekjur, er Engihlíðarhreppur hefir að meðaltali síðustu fimm ár haft árlega af þessum hreppshluta, að frádregnum þeim gjöldum, er hann hefir borið hans vegna.

Það var vikið að því við 2. umr., að einhverjir menn úr hreppsnefnd Engihlíðarhrepps myndu kannske láta sér lynda þessa skerðingu á tekjum hreppsins, ef á móti kæmu fullar bætur. En ég þykist hafa fulla heimild fyrir, að hreppsnefndin telur ekki fullar bætur nema svo sé ákveðið sem hér er lagt til í brtt. Ég get jafnvel hugsað mér, að Engihlíðarhreppur vilji ekki með góðu sætta sig við, að höfuðstóllinn miðist við hærra en 4% vexti, en hér höfum við farið meðalveginn og lagt til að útreikna bæturnar miðað við 5%. — Ég vil vænta, að hv. þm., jafnvel þeir, sem annars fylgja frv., gangi svo langt í sanngirnisáttina, að þeir veiti brtt. atkv. sitt.