19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

167. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Þó að hv. 1. þm. Eyf. segði, að ég hefði ekki komið með neitt nýtt atriði í þessu máli, þá þurfa mín rök ekki að hafa verið neitt minni fyrir það. Þó að ég hafi minnzt á það áður, að það þyrfti að styrkja bæjarfélögin, og hafi hugsað mér þá leið til þess að gera það, að taka af kreppulánasjóði það, sem afgangs yrði, þá geta það verið jafnveigamikil rök fyrir það. Ég álíti það veigamikið, ef hægt væri af því, sem afgangs yrði úr kreppulánasjóði, að koma bæjarfélögunum á réttan kjöl.

Hv. 1. þm. Eyf. færði þau rök fyrir þessu máli, sem í fljótu bragði virðast styðja vel hans málstað, að kreppulánasjóður hafi verið stofnaður til þess að greiða fyrir skuldauppgerð bænda. Þetta er náttúrlega alveg rétt hjá hv. þm. Það var hugsuð ákveðin leið, sem sé að gefa bændum kost á að fá hagstæð lán til að borga gamlar skuldir, og jafnvel fá eftirgjafir hjá verzlunum, kaupfélögum og lánsstofnunum. Ég hugsa, þó ég hafi þar ekki neinar tölur á reiðum höndum, að það hafi skipt stórum fjárhæðum, sem þannig hafi verið látið falla niður, og bað, sem lagt var fram af því opinbera í þessu skyni, var, ef ég man rétt, 11 millj. kr., sem gefnar voru út í bréfum, sem gátu gengið sem peningar til þess að greiða skuldir, sem stofnaðar voru fyrir þann tíma, sem segir í l. um kreppulánasjóð. Ég neita því ekki, að landbúnaðurinn hafi verið illa stæður og mikil þörf á að hjálpa honum, en með því að taka á sig þessar skuldbindingar, hafði ríkið vitanlega erfiðari aðstöðu til þess að hjálpa sjávarútveginum, enda var löggjöfin þar ekki frek á fjárveitingunni. Ég sé ekki annað en að farið hafi verið nákvæmlega eftir því sem fyrir var lagt í l. um kreppulánasjóð, skuldir hafa verið gerðar upp og bændum hafa verið veitt hagstæð lán og miklar eftirgjafir á skuldum fyrir atbeina þess opinbera. En það var mörkuð ákveðin stefna í þessum l., þar sem ætlazt var til, að þetta væru ekki gjafir frá ríkinu, heldur lán, sem kæmu aftur. Að forminu til var gert ráð fyrir þessu, þó að í hugum margra ríki meðvitundin um, að það mundi fara nokkuð eftir ástæðum, hvað inn kæmi aftur, og nú heyrist mér hljóðið í mönnum það, að þeir búist við því, að allmikið af þessu muni aldrei koma inn aftur. Mér sýnist sem sagt, að kreppulánasjóður hafi innt sérstakt hlutverk af hendi, en með því, sem nú er stungið upp á með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé alveg komið inn á nýtt svið, með því ekki einungis að lána mönnum fé, heldur gefa þeim, sem orðið hafa hart úti vegna skuldaskila í kreppulánasjóði, 1/2 millj. kr. í bréfum. Þetta er, eins og ég sagði, alveg ný stefna. Í l. var ekki ætlazt til þess, að mönnum væri gefið; þeir áttu að borga lánin með mjög góðum kjörum. En hér er talað um að gefa 500 þús. kr. í bréfum, til þess að létta af þessum skuldum. það má náttúrlega segja, að það sé í þágu þeirra, sem fengið hafa lán úr kreppulánasjóði, en hér er tekin upp ný stefna. Og svo er að því að gæta, að ef það verður svo, að ríkið þarf að greiða mikið af bréfum úr kreppulánasjóði, vegna þess að menn greiða ekki lán sín, þá þýðir það, að þegar dregin eru út bréf, þá verður ríkissjóður að hafa handbæra peninga til þess að greiða handhöfum þeirra. En til þess að taka þetta fé verður að leita í kaupstaðina eftir peningum. Það er vitanlegt, að meginhlutinn af tekjum ríkissjóðs er tekinn við sjávarsíðuna. En það má ekki fyrir því gera lítið úr hlutverki bænda í þjóðfélaginu. Samt ber að líta á þetta, og væri ekki ósanngjarnt, að kaupstaðirnir hefðu stuðning af þessari löggjöf, ef þarf að leita til þeirra til að greiða í framtíðinni það, sem vangreitt er af lánum úr kreppulánasjóði. Þannig renna sterkar stoðir undir það að styðja kaupstaðina líka, ef taka á upp nýja stefnu í þessum málum, að leggja fram til kaups nokkurn hluta af skuldbindingum ábyrgðarmanna og fella ábyrgð þeirra niður. Það er ný stefna, sem ekki er eftir upphaflegum tilgangi laganna.

Nú sagði hv. 2. þm. Rang., að um helming þeirra skulda, sem niður hafa verið felldar í kreppulánasjóði, hafi lántakendurnir tekið á sig nokkrum dögum eftir að þeir fengu lánin. Nú gerir þetta frv. ráð fyrir að bara ábyrgðarmönnum verði veitt þessi lán, en þá verða að fara fram ný skipti, er ábyrgðarmenn taka aftur við skuldunum, sem lántakendur hafa tekið á sig nokkrum dögum eftir að þeir fengu lánin, eftir orðum hv. 2. þm. Rang.

Ég lasta alls ekki þá tilhneigingu hjá mönnum, þó þeir vilji bjarga kunningjum sínum og vinum, með því að taka þetta á sig, þegar svona er ástatt, eins og hv. 2. þm. Rang. lýsti, og má vel vera rétt.

En af þeim rökum, að hér er tekin upp ný stefna og af því útlit er fyrir, að ríkisjóður verði að taka að sér stærri ábyrgðir af bréfum ár kreppulánasjóði en menn hafa gert sér hugmynd um, og mikið af þessu fé verður eflaust að sækja í vasa fólks við sjávarsíðuna, þá renna sterkar stoðir undir það, að bæjarfélögin vilji koma sínum fjármálum í gott horf.

Og þá að síðustu: Ég las nánar 3. gr. frv. og sé, að þar er ætlazt til, að ákvæðin um framlag úr sjóðnum nái jafnt til þeirra krafna, sem til eru orðnar fyrir gildistöku laganna, og þeirra, er síðar kunna að verða til. Mér skilst, að það orðalag geti varla staðizt, því að allur rökstuðningur frv. hnígur að því að greiða eða semja um greiðslu á kröfum, sem þegar eru til orðnar. En svo virðist sem greinin geri ráð fyrir, að menn geti fengið framlag úr sjóðnum vegna krafna, sem síðar eru til orðnar en l. eru sett, og geti þá átt við ábyrgðarskuldir, sem síðar yrðu til hjá mönnum, en sú er þó ekki hugmyndin eftir eldri tilgangi laganna.