03.12.1935
Sameinað þing: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1936

Þorsteinn Briem:

Þetta þing, sem nú stendur yfir, var sett 15. febr. (nú er 3. des., það eru því 10 mánuðir síðan það hófst). Það var um 50 daga að verki í fyrra vetur.

Í haust hóf fjvn. störf 25. sept., síðan eru 70 dagar. Fjvn. hefir því haft frv. til fjárl. til meðferðar í allt að 17 vikum, og þingið í heild hefir setið í allt að 110 dögum.

Fram að þessu kjörtímabili hefir það vart komið fyrir, að aðalfjárveitinganefnd þingsins hafi setið lengur en 6 vikur á rökstólum, og meðalþingtími hefir verið talinn um 90 dagar.

Nú eru þingmenn fleiri en nokkru sinni fyrr. Það er því vitað, að þetta þing, sem setið hefir svo lengi með svo marga menn og lék sér að því að senda sjálft sig heim og baka þjóðinni tvöfaldan þingfararkostnað, verður dýrasta þing, sem háð hefir verið hér.

En þingið setur met í fleiru en langri setu og kostnaðarsömu þinghaldi.

Það ætlar að afgr. fjárl. með miklu hærri gjöldum en áður hefir þekkzt, yfir 15 millj., og það leggur meiri drápsklyfjar, skatta og tolla á þjóðina en áður hefir nokkru sinni átt sér stað.

Allt er þetta gert þegar atvinnuvegirnir eru hvað mest aðþrengdir.

Nú loks eftir 17 vikur skilar fjvn. áliti sínu og stjórnarliðið slöngvar samdægurs á eldhúsumræðum, svo það er enginn vegur fyrir okkur Bændafl.menn að kynna okkur það til gagnrýni frammi fyrir þjóðinni.

Eitt sest þó undir eins: Gjöld fjárl. eftir till. n. eru rúmar 14,7 millj., og við það á að bæta a. m. k. 300 þús., því að annars yrðu vegabætur stórum minni en áður.

Þrátt fyrir þessi geysiháu fjárlög er enginn eyrir ætlaður til kjötverðjöfnunarsjóðs, en gjöldin til verklegra framkvæmda skv. 16. gr. lækkuð um 300 þús., þar á meðal til Bf. Ísl., verkfærkaupasjóðs, búfjárræktar o. s. frv.

Ótalin með gjöldum eru þó stór fjárútlát, sem stjórnarliðið ætlar að samþ. á þessu þingi. — Atvinnubótastyrkurinn er 1/2 millj.

Fjvn. ráðgerir milljónarfjórðungs aukningu á tollum, þ. e. hækkun benzínskattsins úr 4 aurum í 8 aura.

Svo kemur stjórnarliðið og bætir enn við álögurnar sem nemur allt að milljón. Um 1 millj. og 200 þús. kr. á því að hækka álögurnar.

Það er venja, að þegar fjárl. koma úr nefnd, þá eigi stjórnarandstæðingar kost á að tala um þau mál eða framkvæmdir, er þeir vilja gagnrýna hjá ríkjandi stjórn.

Þetta er nú orðið nær eini rétturinn, sem andstæðingar núv. stjórnar hafa enn.

Því að hjá núv. stj. gildir yfirleitt sú regla, að hve gott mál eða hve þarfa tillögu, sem stjórnarandstæðingur flytur, þá er hún annaðhvort drepin eða stungið undir stól, án þess að nokkur rök komist að.

Minnir þetta hátterni meira á háttalag Fascista og Nazista og Kommúnista og annara ofbeldisflokka en þinghald í lýðræðislöndum.

Utan þings er það hið harðasta, að menn í opinberri þjónustu a. m. k. megi áhættulaust tala eða koma fram í andstöðuflokki núverandi stjórnar.

Þingmenn hafa þó enn rétt til að tala og gagnrýna gerðir stjórnarinnar. Munum við Bændafl.menn nota réttinn eftir því sem tíminn leyfir. Og þá er af mörgu að taka og fleiru en tími vinnst til að drepa á í stundarræðu.

Það væri ástæða til að tala nánar um einræðisbrölt stjórnarflokksins. Hvernig allt er pínt fram, sem þeim sjálfum kemur vel, hversu sterk rök sem færð eru gegn því. Og hvernig varla nokkur till. er tekin til greina, ef hún er borin fram af andstæðing. Svo að menn hafa jafnvel orðið að fara þá leið, til að koma fram góðu máli, að fá einhvern úr stjórnarflokknum til að flytja það, og gefa honum af því heiðurinn, til þess að því væri ekki vísað á bug.

Það væri ástæða til að tala langt mál um hlutdrægni stjórnarinnar. Hvernig menn hafa verið þrautvaldir úr stjórnarinnar eigin flokkum í stöður og æti og að nýjum og nýjum jötuplássum hjá ríkissjóðnum og annarsstaðar, þar sem stj. hefir haft aðstöðu til. Hvernig hlaðið hefir verið bitling ofan á bitling, nefnd á nefnd ofan. Og hvernig starfsmannafjöldanum hefir verið hlaðið undir nefndirnar til þess að gera störfin fyrir þær, því auðvitað mega þessir nefndarmenn sjálfir ekki reyna of mikið á sig.

Það væri ástæða til þess að tala um, hvernig kostnaðinum af sumum þessum nefndum hefir verið laumað yfir á sjálfa atvinnuvegina, svo að kostnaðurinn kemur ekki á sínum tíma fram í landsreikningum. Svo að þessi þrautpínda og sligaða framleiðsla landsmanna verður ofan á allt annað að borga þetta, og það jafnvel þótt sumar þessar nefndir eða hinn ráðandi meiri hluti í þeim hafi ekki unnið framleiðslunni gagn, heldur jafnvel ógagn.

Það væri sannarlega ástæða til að tala um þetta, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefir sýnt mestan dugnað í. En það er að koma sem mestum mannfjölda af sínum flokksmönnum og fylgifiskum að jötunni.

Það væri líka ástæða til að tala um, hvernig stjórnin hefir aflað fjárins í þessa bitlingahít. Ég tala ekki um skattana og tollana, þessa 11/2—2 millj., sem stj. fékk til viðbótar við það, sem var áður. Sú skatta- og tollaaukning, sem þá var samþ., þótt þung væri, var gefandi góðri ríkisstj., sem hefði borið framleiðsluna og atvinnuvegi landsmanna fyrir brjósti og stutt þá á allan hátt.

Ég á við það, hvernig ein heimsins mesta ólyfjan, brennivínið og annað áfengi, hefir verið látið flæða í stríðum straumum út yfir landið til þess að fá fé í ríkissjóð. Það væri ástæða til að tala um það, hvernig áfengissalan í höndum ríkisstj. hefir verið látin allt að því ferfaldast sumstaðar á landinu, eða þar, sem menn hafa fengizt til að kaupa, á sama tíma, sem gjaldeyrisvandræðin hafa verið svo hörmuleg, að ekki hefir verið hjá því komizt að neita mörgum um innflutning brýnna nauðsynja, svo sem byggingarefnis. Og á sama tíma sem innflutningsnefnd hefir látið menn á þessu sumri bíða með mannaða síldarbátana hér við Faxaflóa, einmitt þegar flóinn var fullur af síld. — Bíða aðgerðarlausa í atvinnuleysinu, ekki í nokkra daga, heldur í mánuð eftir innflutningsleyfum á nokkrum netaslöngum, sem þeir áttu þegar komnar hér í pakkhúsin, en fengu ekki leyfi til að taka, til þess að ausa með þeim upp síldinni, sem þá stóð í nærri 50 kr. tunnan.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. mun taka í ríkissjóð á þessu ári um 11/2 millj. kr. í ágóða fyrir brennivín og annað áfengi.

En það væri þá ástæða til að tala um, hvers vegna eiturlyf, eins og brennivín og tóbak, eru rétthærri í augum hæstv. ríkisstj. en þakjárnið yfir hlöðu bóndans, eða netin sjómannsins.

Það væri vissulega ástæða til að tala um þetta og margt fleira í fari hæstv. ríkisstj.

En ég má ekki dvelja við það, af því að annað skiptir þó enn meiru fyrir heildina.

Og það er lífsspursmálið sjálft. Það er afkoma atvinnuveganna, sem allt annað hlýtur að grundvallast á.

Það er næst heilsunni fyrir hvern mann í þessu landi, að hann hafi atvinnu. Og enginn getur fengið atvinnu eða lífsbjargræði til lengdar, já jafnvel ekki hálaunuðustu bitlingagoggarnir, nema atvinnuvegirnir geti borið sig.

Því að bjargræði allra landsmanna verður að koma og getur ekki annarsstaðar frá komið en frá atvinnuvegunum.

Atvinnuvegirnir og afkoma þeirra er því lífsspursmál allra. Lífsspursmálið, sem allt veltur á.

Að sjómaðurinn geti komizt á fleytu til að afla og aðrir að vinna að afla hans. Og að bóndinn geti haft bjargræði og arð af búi sínu. Það er þungamiðjan í öllu, því að þaðan fá allir aðrir líka sitt bjargræði, þegar rakið er til rótar. verkamenn, iðnaðarmenn, launamenn og hæstv. ríkisstj. sjálf og allt hennar heimili.

Ég mun þess vegna ekki gagnrýna allt hið ámælisverða í fari stj. í öðrum greinum, heldur tala um aðalatvinnuvegina og framkomu stj. gagnvart þeim.

Bændafl. vill stuðla að viðgangi allra atvinnuvega í landinu. Hann vill vernda og efla iðnaðinn, enda getur hann með margvíslegu móti stutt hina atvinnuvegina. Hann vill styðja að því, að sjávarútvegurinn fái borið sig. Og hann vill bera fyrir brjósti hag sjávarútvegsbænda, eins og landbænda, svo að hvað geti stutt annað.

Um framkomu stj. gagnvart sjávarútveginum skal ég taka fram, að útvegsmálaráðh. H. G., hefir í einu verulegu atriði tekið kröfur framleiðenda til greina, og með bráðabirgðalögum bætt úr því glapræði, sem hann og stjórnarflokkurinn gerði gagnvart sölusamtökum ísl. fiskframleiðenda.

En landbúnaðarráðh. hefir ekki fylgt því dæmi útvegsmálaraðherrans, að líta á óskir framleiðendanna og bæta ráð sitt. Þess vegna mun ég aðallega tala um landbúnaðinn og framkomu stj. gagnvart honum.

Fyrrv. stj. hafði þar undirbúið mikið verk í hendur núv. stj. Hún hafði gert ráðstafanir, sem höfðu það í för með sér, að eldri lausaskuldir bænda léttust um nær 7 millj. og vextir bænda af lausaskuldum lækkuðu um þriðjung til helming.

Hún hafði hækkað almenna vexti í landinu verulega. Og hún hafði með vaxtatillagi lækkað vexti bænda af fasteignalánum niður í 41/2%. En þessa vexti hækkaði núv. stj. aftur upp í 5%.

Fyrrv. stj. hafði sýnt vilja sinn á að lækka framleiðslukostnaðinn, m. a. með nær 1/2 millj. kr. styrk til frystihúsa fyrir kjöt. Og hún hafði látið undirbúa löggjöf til umbóta á afurðasölunni innanlands, til að reyna að tryggja það, að bændur fengju framleiðsluverð fyrir afurðir sínar.

Þessi frv. um afurðasöluna voru tilbúin við stjórnarskiptin. Frv. um kjötsöluna var alveg tilbúið. En mjólkurfrv. átti aðeins eftir lítilfjörlega lögfræðilega athugun.

Þessi frv. fyrrv. stj. tók landbúnaðarráðh. og gaf út sem bráðabirgðalög.

En hann þurfti áður að spilla þeim. Mjólkursölufrv. breytti hann á margvíslega lund, og stórum til hins verra.

En í kjötsölufrv. fyrrv. stjórnar breytti hann aðeins 2 orðum, þ. e. tók einn fulltrúa bændanna úr kjötverðlagsnefnd, en setti fulltrúa frá kaupstaðabúum í staðinn.

Þar með var höfuðtilgangi laganna stórum spillt. því að þar með voru fulltrúar bændanna sjálfra komnir í minni hluta í kjötverðlagsnefnd, og áhrif þeirra um verðlag og annað brotin á bak aftur.

Vitanlega hafa þessi spjöll á frv. verið knúð fram af sósíalistum. En þessi undirlægjuháttur ráðh. var með öllu óþarfur, því að afurðasölufrumvörpin bæði höfðu meirihlutafylgi á þingi, þó að sósíalistar hefðu snúizt allir á móti málinu.

Og hann var því aumlegri sem ráðh. vissi, að norskir bændur hafa eintóma bændafulltrúa í sinni kjötverðlagsnefnd. En ráðh. þóttist geta boðið ísl. bændum réttleysi í stað fulls réttar hjá norskum bændum.

En þrátt fyrir þessi spjöll á frv. hafa þó kjötsölulögin gert gagn, a. m. k. fyrsta árið. Og var það m. a. því að þakka, að fyrsta árið gat ráðh. þó valið hæfan formann.

Þó var innanlandsverðið víðast lítið eða ekkert hærra en sem kauphækkun nam, svo bændur voru litlu nær fyrir því að fá framleiðsluverð til þess að búin gætu borið sig.

En svo var, hér á fyrsta verðlagssvæði, verðið dregið niður strax eftir sláturtíð, með því að neitað var um næga verðhækkun fyrir geymslu- og frystingarkostnaði og vaxtatapi, frá því að bændum var borgað kjötið út.

En sá kostnaður nemur, skv. margra ára reynslu Sf. Sl. hér í Rvík, 20 aur. á kgr., miðað við verð á I. fl. kjöti. Fyrir þessum kostnaði fékkst engin verðhækkun fram til 15. nóv. Þá fékkst loks 7 aura hækkun upp í þennan 20 aura kostnað. Og var því 13 aura tap á sölu hvers kgr., sem selt var frá 15. nóv. til 15. jan.

Þá fékkst loks 8 aura viðbótarhækkun fyrir þessum kostnaði, svo að eftir það, frá miðjum jan. og langt fram á sumar, varð að selja kjötið með 5 aura tapi á kgr.

Í þetta tap hvarf svo t. d. hjá Sf. Sl. öll gæruuppbótin, um 24 aura á kíló, eða um 30 þúsundir, og auk þess fast að sömu upphæð af ágóða félagsins, eftir því sem einn stjórnarnefndarmaður í Sf. Sl. upplýsti hér á þingi fyrir fáum vikum.

Svo að allmikið kemur nú til frádráttar þeim gróða, sem stjórnarflokkurinn var að guma af hér austur í sýslunum í fyrra haust.

Í vor samþykkti fulltrúafundur eins samvinnufélags, sem nær yfir 5 sýslur hér í námunda, harða ályktun um þessa og aðra framkvæmd kjötsölulaganna.

Brá þeim og heldur en ekki í brún, er þeir sáu, að ágóði félagsins, sem varið er til uppbótar á afurðirnar, hafði lækkað um 66 þúsundir frá því árið áður fyrir þessar aðferðir.

En auk þess skaðast þetta samvinnufélag stórlega á 26000 kgr. af kjötbirgðum frá f. á. nú í haust.

Stj. má því ögn draga úr guminu af gróða austanbændanna í fyrra. Því að hér var lævíslega tekið aftur mikið af þeim gróða, sem þessir bændur gátu annars haft af kjötsölulögunum.

Um framkvæmd kjötsölulaganna á þessu ári er vitað, að útborgað verð til bænda, sem nota aðalmarkaðinn innanlands, hefir lækkað. Og gremst þeim það eðlilega, að nær samtímis því, sem útflutt freðkjöt hækkar að sögn um 25%, þá lækkar verðið á innanlandsmarkaðinum.

Því að tilgangur kjötlaganna var að hækka verðið innanlands, til þess að bæta upp útflutta kjötið.

Það lítur því út fyrir, að munurinn til hins verra á framkvæmd laganna nú í ár frá í fyrra. ætli að verða í réttu hlutfalli við mannamuninn, sem nú er orðinn í formannssætinu í kjötverðlagsnefnd.

En þessi mistök, sem því miður hafa orðið í framkvæmd kjötlaganna, svo og ýmiskonar stirðbusaskapur við bændur, sem hafa erfiða aðstöðu, er vitanlega fyrst og fremst því að kenna, að fulltrúar bænda hafa ekki yfirráðin í kjötverðlagsnefnd, eins og B.fl. ætlaðist til.

Þetta var reynt að lagfæra á þingi, og þess hefir verið krafizt þrásinnis síðan, bæði um kjötlögin og mjólkurlögin. En landbúnaðarráðh. hefir þverskallazt við.

Landbúnaðarráðh. ætti því að fara að dæmi sósíalistans í stj., þegar hann beygði sig fyrir kröfum fiskframleiðendanna, og beygja nú líka odd af oflæti og verða við kröfum bænda um full yfirráð yfir framkvæmd afurðasölulaganna.

Þá væri hann maður að meiri og gæti unnið landbúnaðinum stórgagn með því einu að vera ekki sjálfur, gegnum fulltrúa sinn, að vasast í framkvæmd þessara þörfu laga, sem bændur vita betur, hvernig á að framkvæma, en hann.

Þá kem ég að mjólkurlögunum. Höfuðtilgangur mjólkurlaganna — þ. e. a. s. það, sem fyrir bændum vakti með því að óska þeirrar lagasetningar, — var einkum falinn í þessum 3 atriðum:

1. Að hindra verðfall mjólkurinnar vegna óeðlilegrar samkeppni á mjólkurmarkaðinum og koma á sanngjörnum verðjöfnuði milli sölumjólkur og vinnslumjólkur.

2. Að lækka sölu- og dreifingarkostnaðinn, svo framleiðendur gætu fengið hærra nettóverð.

3. Að koma á betri verkaskiptingu mjólkurvinnslunnar, þannig að mjólkurbúin skiptu með sér verkum um framleiðslu mjólkurvörutegunda til sparnaðar á vinnu, vélum og húsum, og til meiri tryggingar um vörugæðin.

Að þessu þrennu áttu mjólkurlögin einkum að miða, samkv. óskum bænda. Er það lofsverður tilgangur og kemur þessi tilgangur fram í lögunum.

En lögin sjálf eru vitanlega eins og skinn, sem má toga á tvo vegu. Lögin setja höfuðreglurnar. En allt er undir því komið, hvernig þeim reglum er fylgt í framkvæmd. Þess vegna er framkvæmd laganna það, sem allt veltur á. Og þar sem ríkisstj. hefir vald á meiri hluta beggja þeirra nefnda, sem um framkvæmd laganna fjalla, og hefir þar oft gripið fram í, þá ber stj. ábyrgð á framkvæmd laganna og árangri þeirra.

Fyrsta atriðið, að hindra verðfall vegna óeðlilegrar samkeppni, er tvíþætt.

Enginn mjólkurframleiðandi getur nú komið á verðfalli með því að bjóða mjólkina niður. En það, sem bændum var réttilega bannað, það gerði stj. sjálf. Hennar fyrsta ganga í framkvæmd mjólkurlaganna var að koma á verðfallinu, sem hindra átti, lækka mjólkina niður um 2 aura á lítra í mjólkurbúð. Þessi lækkun var þvinguð á bændur áður en lögin kæmu til framkvæmda að öðru leyti og áður en þeir gátu að nokkru leyti notið þeirra hagsmuna, sem lögin áttu að veita þeim.

Þessi lækkun var því algerlega pólitísk, til þess gerð að þóknast sósíalistaforingjunum, sem vildu geta flaggað með þessa lækkun. Ég segi flagga, því að annar gat varla talizt vinningurinn frá þeirra sjónarmiði.

Meðalheimili hér í bæ mun kaupa 2—3 lítra daglega. — Hver 2 aura lækkun nemur þá 4—6 aurum hjá meðalfjölskyldu á dag. Og er það a. m. k. algerlega hverfandi móti nýja stjórnartollinum.

Þeim, sem nú eru að hækka tolla á nauðsynjum almennings, getur því ekki vaxið sú upphæð í augum fyrir neytandans hönd.

En framleiðendur eru svo margfalt færri en neytendur, að fyrir framleiðandann horfir þetta öðruvísi við.

Hér í nærsveitum er það ekki talinn stór mjólkurframleiðandi, sem selur 50 lítra á dag. Hver 2 aura hækkun munar bóndann þá 1 kr. á dag. 365 kr. á ári, eða ársvöxtum af 9100 kr. skuld til Kreppulánasjóðs. Þessari upphæð, sem gerði mörgum skuldugum bónda mögulegt að standa í skilum, var hann sviptur að tilhlutun hæstv. ríkisstj.

Bændur á sölusvæðinu mega því minnast þessarar fyrstu göngu landbúnaðarráðh., að koma verðfallinu á framleiðslu þeirra.

Ég ætla ekki að svo stöddu að fara út í það, sem sum mjólkurbúin deila á mjólkursölunefnd fyrir, að dreginn hafi verið fram hlutur eins bús á kostnað annara í meðferð verðjöfnunarsjóðs, eða ráðstöfun nokkurs hluta verðjöfnunargjaldsins. Mér eða öðrum gefst ef til vill tækifæri til þess síðar.

Ég skal víkja að öðrum þætti málsins. Annar höfuðtilgangur mjólkurlaganna var að draga úr sölu- og dreifingarkostnaðinum.

Það skal strax tekið fram, að gerilsneyðingarkostnaðurinn hefir lækkað. Við það að sölumjólkin er gerilsneydd á einum stað hefir gerilsneyðingin orðið ódýrari og lækkað um 2 aura, úr 5 niður í 3 aura á lítra.

En þennan kostnað hefði mátt lækka meira, ef mjólkursölunefnd hefði haft hyggindi til að taka tilboði M. R. um að gerilsneyða mjólkina fyrir kostnaðarverð, undir fullu eftirliti, svo sem nú er komið á daginn.

Mjólkursölunefnd hafa því verið mjög mislagðar hendur um að taka ekki þessu tilboði. Og er það því óskiljanlegra, þar sem hún hafði svo sterka stoð í 7. gr. mjólkurlaganna, einmitt um þennan kostnaðarlið, þar sem ráðh. getur sett hámarksverð á gerilsneyðinguna.

En hvað er þá um sölu- og dreifingarkostnaðinn? Hefir hann ekki lækkað stórlega í höndum samsölunnar eins og til var ætlazt?

Eftir því, sem enn er fram komið, hefir þessi kostnaður ekki lækkað, heldur hækkað um 2/3 eyris á hvern lítra í höndum samsölunnar.

Við árslok 1934, eða nokkru áður en samsalan hófst, var sölu- og dreifingarkostnaður M. R. þessi:

Sölugjald í búðum 4 aura, akstur 1 eyrir, skrifstofukostnaður (sbr. framkomið tilboð M. R.) 1/3 eyris., eða samtals 51/3 eyris á lítra.

En hvað er þessi sölu- og dreifingarkostnaður nú í höndum Samsölunnar?

Fyrir þessum kostnaði tekur samsalan 6 aura af hverjum lítra, eða 2/3 eyris hærra en þessi kostnaður nam, þegar hún tók til starfa. Er þetta því óskiljanlegra, þar sem salan er nú nál. öll á einni hendi og ætti því að vera allmiklu ódýrari en á meðan hún var á margra höndum áður.

Hvort samsalan skilar nokkru af þessu sölugjaldi aftur til bænda, er óvíst. Spurzt var fyrir um þetta á fulltrúafundi nýlega, en engu svarað og engin von gefin. Og ekki er það líklegt eftir þeim reikningi, sem samsalan sendi frá sér í vor, þar sem hún varð þá að grípa til óvenjulegrar reikningsfærslu, til þess að sölukostnaðarútkoman yrði ekki enn hörmulegri.

Það má því segja, að þessi annar höfuðtilgangur mjólkursölulaganna hafi hrapalega mistekizt fyrir óheppilega framkvæmd.

Þetta er því óafsakanlegra, þar sem þess mun hafa verið kostur að fá einn kostnaðarliðinn lækkaðan þegar í upphafi um helming: Það var hægt þegar í upphafi að fá margar eða flestar brauðsölur hér í bænum til þess að taka að sér mjólkursöluna fyrir 2 aura á lítra í stað 4 aura áður. Þessum kjörum var að vísu tekið hjá nokkrum einstökum brauðbúðum, en næstum eingöngu brauðúðum Alþýðubrauðgerðarinnar. En á móti átti mjólkursamsalan sjálf að braska með mjólkurbúðir og taka þar til sölu brauð Alþýðubrauðgerðarinnar.

Á þessum sölubúðum samsölunnar sjálfrar hlýtur tapið að vera, og svo á hinum óhemju háa skrifstofukostnaði. Annars gæti sölu- og dreifingarkostnaður ekki orðið hærri en hann var þegar samsalan byrjaði.

Vegna þessara eigin búða samsölunnar hefir því þessi kostnaður orðið 2 aurum hærri en ella á hvern lítra. En það munar á allri sölunni á annað hundrað þúsund kr. á ári.

Það er óskiljanlegt, hvers vegna þessum sparnaði var hafnað.

Hafði ekki bóndinn, sem selur frá búi sínu 50 lítra á dag, neina þörf fyrir þann hátt á 4. hundrað króna ársgróða, sem með því hefði unnizt?

Hafði hann minni þörfina á að fá þarna nægilegt fé í vexti af 9100 kr. kreppulánasjóðsláni — fyrir það, að ríkisstjórnin var áður búin að svipta hann sömu upphæð með því að lækka mjólkina?

Ríkisstj. leit a. m. k. svo á, að annar aðili hefði þessa fjár meiri þörf.

Hvaða aðili var það?

Það voru sósíalistar! Þeir sáu sér tvo leiki á borði að auka brauðsöluna. Fyrst að draga fólk að búðum sínum með því að fá nær einir allra brauðbúða mjólkursöluna. Og þar næst með því að láta mjólkursamsöluna setja upp aðrar búðir og taka þangað brauð Alþýðubrauðgerðarinnar.

Þannig væru bændur sviptir arði í þágu þessa flokksfyrirtækis, sem orð leikur á að mjólki drjúgum í flokkssjóð.

Vegna flokkshagsmuna sósíalista var því meðalmjólkurbóndi sviptur hátt á 4. hundrað kr. árstekjum með mjólkurlækkuninni. Og síðan var hann á þennan hátt einnig sviptur aftur sömu tekjuupphæð, eða samtals á 8. hundrað króna árstekjum, — aðeins með þessum tveim hrapallegu mistökum í framkvæmd laganna.

Nú liggur fyrir tilboð frá bökurum um að taka að sér mjólkursöluna fyrir 2 aura á lítra og frá Mjólkurfél. Rvíkur um að taka að sér akstur og skrifstofukostnað fyrir 11/3 eyris á lítra, eða allan sölu- og dreifingarkostnaðinn með skrifstofuhaldi fyrir 31/3 eyris á lítra samtals.

En fyrir þetta heldur samsalan eftir 6 aurum af hverjum mjólkurlítra bóndans.

Hér er þá um 22/3 eyris sparnað að ræða á hverjum lítra, eða um 150 þús. kr. samtals, frá því sem nú er.

Allir fulltrúar mjólkurframleiðenda, milli 20 og 311, hafa samþ. að nota þessa sparnaðarmöguleika, nema 3 menn, og eru 2 þeirra á launum mjólkursamsölunnar.

Maður skyldi ætla, að ríkisstj. styddi nú fast að slíkum sparnaði, sem hefði í för með sér nær 500 króna gróða frá því, sem nú er, fyrir hvern meðalbónda.

Maður skyldi ætla, að ríkisstj. fagnaði þeim 150 þús. kr. gróða, sem þetta nemur fyrir hlutaðeigandi byggðarlög.

En hvað skeður?

Eitt stjórnarblaðið svarar með svívirðingum um þá menn, sem að þessum tilboðum standa. Og stöðugt hittir maður bændur hér úr nálægum byggðarlögum og Borgarfjarðar- og Mýrasýslum, sem eru með öndina í hálsinum yfir því, hvort ríkisstj. ætli að meina þeim að fá þessar þúsundir eða ekki.

Þeir spyrja:

Er ekki nóg, að búið sé á þessum eina lið að svipta okkur á annað hundrað þúsund kr. frá því samsalan byrjaði og til þessa dags? Ætlar stj. aðeins á þessum eina lið að svipta okkur árlega 150 þús. áfram?

Og þeir gera meira en að tæpa á því, að dýr muni þessi ríkisstj. bændastéttinni allri, ef bændur í fáum byggðarlögum verða aðeins á þessum eina lið að bíða slíkt fjárhagstjón.

Þeir tala ekki allfáir á líka lund og Framsóknarflokksbóndi einn hér skammt undan mælti fyrir nokkru:

„Svo er að okkur búið um meðferð afurðasölunnar, að jafnvel þolinmæði okkar bændanna er þrotin“.

Ég hefi nú drepið á, hve hörmulega hefir tekizt að ná 1. og 2. höfuðtilgangi mjólkurlaganna, að hindra verðfallið og að lækka sölu- og dreifingarkostnaðinn.

Ég kem þá að hinum 3. höfuðtilgangi mjólkurlaganna: að koma á verkaskiptingu milli mjólkurbúanna um framleiðslu hverrar mjólkurvörutegundar. Geta slíku skipulagi fylgt margir kostir, og ættu þeir að vera öllum mönnum auðsæir.

Vísir til þessu skipulags var að nokkru leyti kominn á af sjálfu sér áður en mjólkurlögin voru sett. Þannig hafði eitt búið, mjólkurbú Borgfirðinga, algerlegu tekið að sér mjólkurniðursuðuna. Einnig hafði það komið sér upp húsrými og nægum og ágætum tækjum til þess að gera skyr og smjör úr allri sinni afgangsmjólk frá niðursuðunni, sem verður að vera takmörkuð vegna sölunnar.

Hinsvegar hafði M. B. ekki þurft að kosta neinu til húsa eða véla til ostagerðar, með því að eftirspurn var mjög mikil eftir skyrinu frá því búi, og hin búin höfðu bæði hús og fullkomin tæki til ostagerðar úr sinni mjólk.

Þetta var hagkvæm verkaskipting fyrir alla aðila. Og sjálfsagt að reyna að koma enn fullkomnara skipulagi á þetta. Það sparaði að nokkru leyti húsrúm og bæði dýrar vélar og vinnu, og jafnvel að nokkru fagmannahald, að hvert bú ynni þannig 1 eða 2 vörutegundir úr mjólkinni, eftir skipulagðri verkaskiptingu, í stað þess að öll búin á sölusvæðinu væru að hvotla með tilbúning allra þessara vörutegunda, sem úr mjólkinni eru unnar. Því að það er augljóst, að með því þarf hvert bú meira húsrúm, fleiri vélar og meira starfsfólk og kunnáttumenn.

Stórframleiðslu á fám stöðum verður í öllum verksmiðjuiðnaði ódýrari en smáframleiðsla á mörgum stöðum. Þess vegna var mjólkursölunefnd gefið víðtækt vald til eftirlits með því, að gætt væri fyllstu hagsýni í rekstri búanna, og lögð við há viðurlög sbr. 9. gr. laganna.

Hvernig hefir svo stj. eða meiri hluti mjólkursölunefndar í hennar umboði gætt þessa skipulagsatriðis?

Hún hefir gætt þessa skipulagsatriðis þannig, að hún hefir farið nákvæmlega þveröfugt að við það, sem lögin ætlast til.

Í stað þess að styðja og halda áfram þeirri verkaskiptingu, sem þegar hafði komizt á af sjálfu sér í þessu efni, þá hefir hún keyrt þetta skipulag aftur á bak. Og það með yfirgangi og ofbeldi!

Þannig er M. B., sem hafði öll fyllstu tæki til skyrgerðar úr sinni mjólk og þótti framleiðsla ágæta og mjög eftirsótta voru, þröngvað til að koma sér upp dýrri húsviðbót til ostagerðar.

En annað mjólkurbú, sem hafði öll fullkomnustu tæki til ostagerðar fyrir alla sína mjólk. lagði aftur í mikinn kostnað við útbúnað til skyrgerðar.

Afleiðingin er, að borga þarf fernskonar útbúnað í stað tvennskonar, eða heildarkostnaður verður þarna tvöfaldur og starfskostnaður meiri í hlutfalli við afkast en ella.

En afleiðingin er ekki öll sögð:

Á fyrra búinu, því, sem er þröngvað til að búa til ostana, hafði náðst mikil leikni í skyrgerð, svo varan var eftirsótt. En síðara búinu, því sem bætti við sig skyrgerðinni, stýrði útlendingur, sem skorti leikni í íslenzkri skyrgerð. Enda hefir eftirspurnin verið eftir því. Svo að þó bannað sé að selja sumt af Borgfirðingaskyrinu fyrri en það er orðið súrt, þá hafa menn viljað súra skyrið heldur. Með því að þröngva Borgfirðingum og Mýramönnum til að auka hús sín og banna þeim að selja sumt af skyri sínu fyrr en það er orðið súrt, hefir mjólkursölunefndin unnið það eitt, að spilla skyrmarkaði hér í bænum. En fyrir mjólkurframleiðendur skiptir skyrsalan ákaflega miklu máli, þar sem hún eykur mjólkursöluna um leið.

Hér í Rvík, Hafnarfirði og öllum hinum mörgu kauptúnum við Faxaflóa var einmitt nú alveg sérstaklega gott og einstætt tækifæri til þess að auka og margfalda skyrmarkaðinn vegna innflutningshaftanna. Þegar sumpart er bannaður og sumpart takmarkaður innflutningur á efni í ýmiskonar ávaxtasúpur og grauta, sem svo mjög hafa tíðkazt í kaupstöðum, þá er alveg einstætt tækifæri til að auka markaðinn fyrir þessa höllu og ágætu innlendu vöru og þar með sjálfu mjólkina, ef rétt hefði verið að farið.

En með því að þverbrjóta tilgang laganna í þessum skipulagsatriðum, og með því að beita einn æfðasta framleiðandanna ofbeldi, hefir meiri hluta mjólkursölunefndar, með aðstoð ráðh., tekizt að minnka markaðinn, í stað þess að hægt var að auka hann stórlega.

Þannig hafa öll þrjú höfuðatriðin í tilgangi mjólkurlaganna mistekizt hörmulega í framkvæmd, enn sem komið er.

Þessi hörmulegu mistök eiga rót sína í því, að bændur sjálfir, eða þeirra fulltrúar, hafa ekki getað haft næg áhrif á framkvæmd laganna. Á þetta benti Bændafl., bæði í blaði sínu og á þingi, áður en lögin voru samþ. Þess vegna flutti og Bændafl. brtt. við mjólkurlagafrv. á þingi, í þá átt að tryggja fulltrúum bænda völdin í mjólkursölunefndinni. En við það var ekki komandi hjá stjórnarflokknum.

Af því að núv. stj. vildi ekki gefa fulltrúum bænda yfirráðin í mjólkursölunefnd, heldur hafa úrslitavaldið í höndum sinna pólitísku fulltrúa, þá hefir framkvæmd laganna ekki verið hagað með hagsmuni bændanna fyrir augum, heldur með hina þröngsýnustu hagsmuni stj. sjálfrar fyrir augum.

Af pólitískum ástæðum var mjólkurverðið lækkað og bændur þar með sviptir a. m. k. 100 þús. kr. á árssölunni hér í bænum.

Af pólitískum ástæðum var sölu- og dreifingarkostnaðurinn hér hækkaður, í stað þess að hægt var og hægt er að hækka hann stórlega.

Af pólitískum ástæðum voru teknir viðvaningar á hálaunum til að stjórna samsölunni hér. Af pólitískum ástæðum var hæst launaða viðvaningnum þar borguð rífleg ráðherralaun, þótt hann væri svo mikill viðvaningur, að bráðlega þyrfti að setja annan mann, líka á ríflegum ráðherralaunum, honum til leiðbeiningar, þar til hinn gafst upp á starfinu.

Af pólitískum ástæðum hefir skrifstofukostn. einn komizt upp um 50 þús., eða 1 eyri á hvern lítra, þótt tilboð liggi fyrir um að taka hann að sér fyrir tæpar 17 þús., eða 1/3 eyris á lítrann.

Af pólitískum ástæðum hafa bændur hingað til verið sviptir 150 þús. kr. ársgróða á lækkun sölu og dreifingar- og skrifstofukostnaðinum.

Af pólitískum ástæðum hefir verið gefið tilefni til óánægju milli búanna innbyrðis út af meðferð og skiptingu verðjöfnunargjaldsins.

Af pólitískum ástæðum hefir skipulagning á verkaskiptingu mjólkurbúanna verið keyrð aftur á bak, en ekki áfram, svo að gott skyrgerðarmjólkurbú er pínt til að auka hús sín og selja sumt af skyrinu súrt, en skyrmarkaðurinn þverr að sama skapi, þegar tækifærið var einstætt til að auka hann.

Og af allri þessari pólitísku stjórn á mjólkurmálunum og af öllu einræðisbrölti ríkisstj. í því að bola fulltrúum bændanna sjálfra frá úrslitavaldi í mjólkursölunefnd og stjórn samsölunnar hefir auðvitað leitt illt eitt.

Vér gerðum oss allir góðar vonir um árangur mjólkurlaganna. Og þar væri áreiðanlega mikill árangur fyrir löngu í ljós kominn með viturlegri framkvæmd.

En vegna þess, hve stj. hafa verið algerlega mislagðar hendur um framkvæmd laganna, hefir árangurinn brugðizt svo hörmulega sem raun er á orðin. Bændur hafa þvert á móti verið sviptir þeim kvartmillj. arði, sem augljóslega mátti þegar á fyrsta árinu hafa upp úr mjólkurlögunum.

Enginn hefir enn haft neinn hagnað af lögunum nema þeir, sem laun taka samkv. þeim. En það eitt var vissulega ekki tilgangurinn.

Borgfirðingar og austanmenn hafa enn ekki hagnazt á lögunum, jafnvel þótt þeir fái allt verðjöfnunargjaldið greitt. Og þeir, sem hér fá að selja mjólk sína, hafa allir tapað, en ekki grætt á lögunum, þegar dregið er frá það, sem tapast á vinnslumjólk.

Sumir hafa tapað litlu að vísu, eða ekki nema broti úr eyri. En allra næstu framleiðendurnir, svo sem bændurnir á bæjarlandinu, hafa líka tapað 11 aurum á lítra, og sumir jafnvel enn meiru.

Og það er lítill ávinningur, að sumir tapi, ef enginn annar fær unnið neitt við það, nema þá bitlingahítirnar, sem margar hafa grætt og græða mikið á ýmsum lagaframkvæmdum núv. stjórnar.

Höfuðkrafan fyrir hönd bænda verður að vera sú, að bændur fái a. m. k. framleiðsluverð fyrir afurðir sínar. Þessi sjálfsagða krafa bænda hefir mætt hinu mesta skopi frá stjórnarflokkunum. Formaður Tímaflokksins sagði á þingi í fyrra, að hvergi í heiminum væri talað um framleiðsluverð. Hafði hann þó, á meðan hann var ungur í anda, skrifað um það tímaritsgrein, að framleiðsluverðið væri það eina rétta verðlag.

En nú virðist sem loks sé einhver ljósskíma að renna upp fyrir sumum stjórnarmönnum í þessu efni. því að í einu frv. sem nú liggur fyrir þinginu, um grænmetisverzlun ríkisins, stendur þó, að tryggja eigi framleiðendum framleiðsluverð.

Þetta hefir Bændafl. þá unnið á, að stjórnarliðar, sem að þessu skopuðust í fyrra, eru nú loks að ranka við sér og loksins að skilja það, sumir þeirra a. m. k., að það er ómögulegt að framleiða neitt til lengdar með tapi, og framleiðslan verður því að geta borið sig. Bændafl. vildi reyna að tryggja þetta með afurðasölulögunum, en stj. drap það allt saman.

Bændafl. vildi jafnframt vinna að því, að framleiðslukostnaðurinn gæti lækkað.

Hann vildi vinna að því að auka ræktunina í landinu með því að styðja hana betur, svo sem með þriðjungi hærri styrk til framræslu og garðræktar.

Hann vildi hjálpa bændum til að spara áburðarkaup, með því að styðja þá með þriðjungi hærra framlagi til betri áburðarhirðingar.

Hann vildi tryggja betur nýting og efnavarðveizlu heyjanna, með fjórföldum styrk til votheysgerðar og tvöföldum styrk til hlöðubygginga.

Hann vildi styðja kornyrkju, vélakaup o. s. frv. Þessu frv. tók stj. með hinum mesta fjandskap. En samhliða töluðu sósíalistar um að lækka jarðræktarstyrkinn, bæði í efri deild í fyrra og nú í fjvn.

En nú fyrir skömmu, þegar stj. veit, hve miklu fylgi jarðræktarlagafrv. Bændafl. hefir náð með þjóðinni, Þá þorir hún þó ekki að drepa frv. formlega og er því vísað til stjórnarinnar.

Bændafl. hefir borið fram mörg fleiri frv. til hagsbóta fyrir bændur, og hafa þau öll beint og óbeint miðað að því að lækka framleiðslukostnaðinn.

En þrátt fyrir stórhækkaða skatta og tolla, sem nema hátt á aðra millj., og þrátt fyrir 11/2 millj. kr. gróða á áfenginu, þá er svarið alltaf: „Engir peningar til í svoleiðis“.

Nú á enn að hækka tolla og skatta um milljón, og næstu daga mun von á enn nýju skattafrv. upp á 250—300 þús.

Samt er enn sama svarið: Engir peningar til í svoleiðis.

Jú, ofurlítið hefir stj. látið sér segjast. Hún hefir í öðru formi gengið inn á að styrkja kartöflurækt. Og hafi hún þökk fyrir hvert spor, sem hún gengur í þá átt, sem Bændafl. hefir gengið á undan!

Er þetta eitt dæmi þess, eins og kjötuppbótin í fyrra, að Bændafl. getur hrint áhugamálum sínum í áttina, þó að hann hafi enn fáa þingmenn.

Eitt stærsta atriðið til þess að bændur fái framleiðsluverð fyrir afurðir sínar, er rétt skráning krónunnar.

Menn vita, að krónan er nú þegar fallin, en henni er haldið uppi með þvingunarráðstöfunum. Þar af leiðandi fær framleiðandinn lægra varð fyrir afurðir sínar en hann á rétt á. Framleiðandinn en skattlagður um þá upphæð, sem krónan er yfir réttu verðlagi. Og þetta er ef til vill hærri skattur framleiðslunni un nokkur annar skattur.

Framleiðslan í Englandi fór strax að rétta við, þegar gengið var lækkað.

Framleiðslan í Danmörku sömuleiðis.

Það eru til skýrslur, sem sýna, að afrakstur búanna hefir þar alveg farið eftir gengisskráningunni síðustu 15 árin. — Arðurinn hefir hækkað, þegar krónan var rétt skráð, en horfið aftur, þegar krónan var komin hæst upp fyrir rétt verðlag.

Og hinar dönsku skýrslur sýna og annað. Þær sýna, að atvinnuleysið hafi aukizt þegar krónan var há, en minnkað þegar hún lækkaði.

Þess vegna gat sósíalistaforinginn danski gengið inn á gengislækkunina, og það þó hann væri áður búinn að halda hinu gagnstæða fram.

En hér stendur stj. á móti réttri skráningu krónunnar.

Og hér hafa Tímamenn, eins og í fleiru beinlínis brugðið loforð sín fyrir kosningarnar.

Þá lofuðu þeir að láta rannsaka gengismálið. En sú rannsókn hefir ekki farið fram enn.

Það væri þó það minnsta, að þeir héldu loforð sín í þessu atriði, sem skiptir svo mjög afkomu framleiðslunnar í landinu, því að þjóðinni er því aðeins borgið, að framleiðslan fái borið sig, svo að þeir, sem hana stunda, fái fætt sjálfa sig, fætt ríkissjóðinn og alla þjóðina.

Ekkert skiptir eins miklu fyrir þjóðina eins og það að framleiðslan fái borið sig. Ég hefi því talað um það fyrst og fremst, hversu stj. hefir brugðizt í því að styðja framleiðsluna af því að þar reið mest á. Og henni hefði mátt fyrirgefa margt, ef hún hefði haldið vel á þeim málum.

Eldhúsumræðum hefir verið hraðað, með afbrigðum frá þingsköpum, til þess að við ættum ekki kost á að kynna okkur nægilega tillögur fjárveitingarnefndar og hinar fróðlegu skýrslur um launagreiðslur úr ríkissjóði.

Ég hefi hjá mér skýrslur um nær 30 nefndir sem stj. hefir haft á fóðrunum, ásamt þeim starfsmannagrúa, sem þær hafa safnað í kringum sig.

Ég verð að sleppa þeim svartlista alveg. Hann hefði gefið efni í heila ræðu fyrir sig.

En þetta er enn stærra mál, hvernig stj. hefir brugðizt landbúnaðinum og framleiðslunni. Hún hefir sýnt ofbeldi.

Hún hefir sýnt einræðisbrölt.

Hún hefir verið hlutdræg, bæði við einstaka menn og heil héruð, t. d. í úthlutun vegafjár. Hún hefir eytt stórfé í nefndir og bitlinga og sýnt þar mestan dugnað.

Hún hefir veitt inn áfengi, og metið það meira en þörf sjómannsins og bóndans.

Hún hefir krafið inn hærri skatta og tolla en áður hafa þekkzt. Og hún ætlar enn að heimta inn nýja viðbótarskatta og tolla, er nema á 2. millj.

En hún vildi ekki verja einum til tveim hundruðustu hlutum af þessum tekjuauka:

Til að endurbæta jarðræktarlögin.

Til að auka og bæta ræktunina.

Til að tryggja heyaflann og spara áburðakaup. Til að styðja bændur betur til vélakaupa og styrkja kornyrkju.

Hún vildi engu af því fé verja til að lækka vexti af fasteignalánum bænda niður í það, sem var í tíð fyrrv. stj.

Hún hefir spillt afurðsölulögunum.

Hún hefir stórum skert árangur þeirra, með margendurteknum mistökum og óheppilegri framkvæmd.

Hún hefir staðið á móti því, að yfirstjórn afurðasölunnar kæmist í hendur framleiðenda sjálfra, til þess að þeir gætu kippt mistökunum í lag.

Þetta er því hörmulegra sem framleiðslan hefir sjaldan verið voðalegar á vegi stödd. Og það svo, að þar hefir margur hruni spáð.

En ég vil vera bjartsýnn og vona, að til þess komi aldrei, að atvinnuvegirnir hrynji.

Hitt er ekki ástæða til að harma, þótt stj. hrynji sjálf.