07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

164. mál, skipun barnakennara

Hannes Jónsson:

Ég vildi aðeins óska, að hv. n. athugi, hvort ástæða er til að ganga eins langt og hér er gert ráð fyrir, þegar verið er að auglýsa lausar kennarastöður, að ef enginn hefir sótt, þá þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að ná í menn, sem uppfylla þau skilyrði, sem frv. greinir. Það hefir verið svo, að í slíkum tilfellum hefir skólanefnd reynt að útvega þann hæfasta mann, sem hún hefir völ á, til þess að taka að sér kennsluna. Hitt finnst mér vera vafningasamt, og mjög hæpið, hvenær því ákvæði er fullnægt, að gera ráðstafanir til að útvega mann með þeim skilyrðum, sem hér eru fram tekin. Það getur orðið endalaus ágreiningur um það, hvenær búið sé að gera fullnægjandi ráðstafanir í þessu efni. Það geta verið gerðar svo lélegar tilraunir til að fá fullgildan kennara, að þær séu sama sem engar, og það geta líka verið gerðar viðunandi tilraunir, sem öðrum fyndist ekki nægilegar, og teldu því, að ráðinn væri í stöðuna maður, sem ekki ætti þar að vera. Mér finnst nægilega gert til þess að fá þessa faglærðu menn með því að auglýsa kennarastöðurnar rækilega, þó skólanefnd fari ekki að leita fyrir sér, hvað margir eru með þessu prófi, og ganga fyrir hvern þeirra til þess að vita, hvort hann vill taka að sér kennsluna eða ekki.