29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

164. mál, skipun barnakennara

Sigurður Einarsson [Óyfirl.]:

Ég verð að sumu leyti að hafa sama formála og hæstv. atvmrh., að ég átti þess ekki kost að fylgjast með þessum umr. frá upphafi.

Ég verð að láta það í ljós, að það er ekki eina atriðið, sem fyrir kennurunum vakir með því að fá þessum l. breytt á þessa leið, þetta, sem hæstv. atvmrh. talaði um. Menn verða að gera sér það ljóst í sambandi við þetta mál, að á undanförnum árum hafa kennararnir íslenzku unnið mjög dyggilega á tvennan hátt að bæta aðstöðu sína til starfs síns. Þeir hafa barizt fyrir auknum kröfum, sem gerðar væru til kennara um starfskunnáttu, og jafnframt hafa þeir unnið að því eftir föngum að tryggja það, að menn, sem hafa öðlazt sæmilega starfskunnáttu, sitji fyrir þessum störfum öðrum fremur, og það er sem einn þáttur í þessari baráttu, að þetta frv. er borið fram, að því er mér skilst, og meðmæli menntmn. eru byggð á því, að hún leit svona á.

Að því er snertir það, sem hér hefir verið sagt um einkaskóla og skyldur þeirra, er slíka skóla reka, þá skal ég segja það, að það er engum vafa bundið, að það sem háð hefir kennurum á Íslandi, er ekki almenn fákunnátta í þeim greinum, sem þeir eiga að kenna, því að yfirleitt hafa margir þeirra, allt frá því kennaraskólinn tók til starfa, verið allvel að sér í þeim greinum. En sökum fátæktar okkar hefir skipulag skólans verið þannig, að í því, sem kallað er starfskunnátta, hefir kennslunni verið áfátt. Þetta hafa kennararnir líka fundið vel, og á undanförnum tveimur kennaraþingum hefir þetta mál verið til umr., og hafa kennararnir komið þar fram með rökstuddar till. til umbóta að þessu leyti. Og breyting sú, sem komið hefir í kennaraskólanum með fullkomnari reglugerð, sem hann starfar nú eftir, hefir orðið til þess, að æfingarnar hafa mikið verið auknar, en það var einmitt æfingaleysið í starfinu, sem kennararnir hafa fundið einna mest að.

Ég held, að þegar maður tekur að sér að reka einkaskóla og tekur borgun fyrir kennsluna af foreldrum eða öðrum aðstandendum barnanna, þá geti þjóðfélagið ekki látið það afskiptalaust, hvort þeir menn eru fyrir til starfsins.

Það er ekki alveg út í loftið sagt, að kennarar hafi mikinn áhuga fyrir því, að bætt verði sem mest úr um undirbúningsfræðslu barna innan 10 ára aldurs; á því veltur svo mikið um hvert notagildi verður af starfi kennarastéttarinnar yfirleitt. Og sá mælikvarði, sem almenningur í landinu leggur á það, hvert gagn verður að barnakennslunni, hlýtur að miðast við það, hvernig undirbúningsnámi barna fyrir neðan skólaskyldualdur er háttað.

Hæstv. atvmrh. beindi þeirri spurningu til n., hvort hún hefði kynnt sér hlutfallið á milli eftirspurnarinnar eftir barnakennurum, og þess, hver kostur væri á kennurum með kennaraprófi til að fullnægja henni, og ennfremur, hversu mikill hluti núv. barnakennara hefði fengið kennaramenntun.

Það er enginn vafi á því, að það er ábyggilega nóg til af mönnum í landinu, sem hafa tekið kennarapróf. Sumir hafa stúderað við aðra skóla en kennaraskólann, og gengið auk þess undir kennarapróf. — En hitt er alkunnugt, að launakjör farkennara eru það léleg, að þeir menn, sem nokkur töggur er í, kjósa sér önnur störf en barnakennsluna, þó þeir hafi kennarapróf. Ef ómögulegt er að fá til barnakennslu kennara með kennaraprófi, þá er það alls ekki bannað í þessu frv. að ráða aðra hæfa menn til þeirra starfa. Þess vegna er með frv. sáralítið þrengt frá því, sem nú er, að þeim mönnum, sem ekki hafa stundað kennaranám.

En svo vil ég bæta einu við: Við höfum á hverju ári útskrifað marga stúdenta sem kennara, eftir nokkurt viðbótarnám. Meðan stúdentar sóttu slælega aukanámsstundir og æfingakennslu í kennaraskólanum, leystu þeir, að fáum undanteknum, lakar sín verkefni af hendi en kennaraskólanemendur, þó að þeir hefðu meiri menntun í einstöku greinum. Þessi mismunur kom bezt í ljós í hinum skriflegu prófum barnanna í æfingabekkjunum.

Höfuðtilgangur frv. er að tryggja það, að á hverjum tíma séu í landinu nægilega margir kennarar með kennaramenntun og prófi frá kennaraskóla Íslands, alveg án tillits til þess, hversu margir af þeim, sem nú eru í föstum kennarastöðum, hafa kennarapróf. Frv. hefir engin áhrif á það og nær ekki til þeirra. En þegar breytingar verða á kennarastöðum, þá á að tryggja það, að menn með kennarmenntun taki við kennslustörfunum. Og það eru litlar líkur til, að skortur verði á þeim, svo framarlega sem kennarastéttinni eru boðin sæmileg kjör, sem við er hlítandi.

Ég hefi fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að gildistöku þessara laga verði frestað til 1. okt. næstk., en ég sé ekki betur en að auðvelt muni vera að koma þeirri breyt. á í Ed., — hún átti að geta ráðið við það spursmál.