29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

164. mál, skipun barnakennara

Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Ég skal reyna að vera stuttorður og gefa ekki tilefni til nýrrar deilu.

Hv. þm. V.-Húnv. vildi ég svara því, að ég held, að það sé misskilningur, að skólar eða kennarar beiti áhrifum sínum á nokkurn hátt til þess að hafa áhrif á skoðanir manna í landsmálum, Ég tel, að kennararnir séu þar bornir rangri sök. Það eru margir menn, sem óttast, að kennarar beiti áhrifum sínum í þessa átt, en ég hygg, að það sé að langmestu leyti alveg rangt.

Þá vildi ég næst svara hv. þm. Ak. nokkrum orðum. Hann var miklu mildari í síðari ræðu sinni en þeirri fyrri. Tel ég það rétt af honum og honum líkt, að rétta sig við, ef hann hefir farið ógætilega. Það voru tvö eða þrjú atriði, sem hann gerði að umtalsefni. Honum þótti órétt að leita nánar að manni, sem hefði kennararéttindi, ef hann fengist ekki við fyrstu auglýsingu. Það verður samt varla sagt, að þetta séu „hóflausar kröfur“. Það er gott fyrir alla, að fræðslumálastjóri eigi að leita að bezta manninum, sem völ er á, ef hann fæst ekki með fullkomnum kennararéttindum.

Þá talaði hv. þm. um það, og gerði mikið úr því, að ég hefði sagt, að barnakennarastéttin hefði verið í mikilli niðurlægingu fyrir nokkrum árum. Og ég stend við það. Ég tel, að engri stétt sé stætt og ómögulegt fyrir hana að koma fram sínum áhugamálum, ef engin eða lítilfjörleg löggjöf er til að varðveita réttindi þeirra. Þannig var það, að menn, sem fundu upp á að vilja fá kennarastarf, voru þótt þeir hefðu ekkert lært til þess, settir jafnréttháir hinum, sem höfðu full kennararéttindi. Þetta getur engin stétt staðizt. Hún hlýtur að fara í niðurlægingu undir slíkri aðbúð yfirvaldanna. Þetta tek ég ekki aftur. En þau l., sem nú eru í gildi um skipun barnakennara og laun þeirra, og þessi viðbót, sem hér er á dagskrá, eiga að bæta úr þessu, svo að réttindalausir menn geti ekki traðkað á rétti kennarastéttarinnar.

Þá vil ég svara þeirri fyrirspurn hv. þm., hvort ég teldi, að kennararnir gætu ekki játað það, að þeir kynnu of lítið, og hvort þeir þyrftu að læra meira. Ég veit, að kennararnir játa, að þeir þurfi að læra meira. Skal ég þar vitna í till., sem var borin fram og hlaut einróma samþykki fulltrúaþings kennarastéttarinnar sjálfrar. Till. var um það, að stuðlað yrði að því, að kennarar gætu fengið jafnvel háskólamenntun. Í samþykkt till. liggur vitanlega fullkomin játning þess, að kennarar telji sig þurfa að læra talsvert meira en nú er krafizt. (PHalld: Voru ekki kröfur um hærri laun í sambandi við þetta?). Ég tel sjálfsagt, að samhliða stórlega auknum námskostnaði komi launabætur. Og ég vænti, að hv. 5. þm. Reykv., sem hefir komizt í þá aðstöðu, að geta lifað við há laun, annarsvegar með sínum dugnaði, og hinsvegar af því að hann hefir verið metinn af sinni samtíð, geti líka skilið það, að það eru fleiri til, sem vilja sem öruggast fjárhagslegt líf. (PHalld: Hv. þm. er ókunnugt um það). Mér er ekki ókunnugt um það, að hv. þm. hefir a. m. k. miklu hærri laun en nokkurn barnakennara hefir dreymt um að geta nokkurntíma fengið.

Annars var ræða hv. þm. hógvær og tekið á þeim atriðum, sem fyrir lágu, svo sem honum er lagið. Hann talaði um, að það væru ýmsir „tekniskir“ örðugleikar í vegi fyrir því að koma þessu máli áfram. Ég veit ekki, hverjir þessir „teknisku“ örðugleikar eru. Er það einhver sérstök „teknik“, sem hefir verið viðhöfð til þess að koma í kennarastöður þeim mönnum, sem ekki hafa haft réttindi til þeirra? Ég veit ekki, hvað gæti legið á bak við það, eða hvaða þýðingu það hefði, að láta l. ekki ganga í gildi fyrr en 1. okt. í haust, nema það sé eitthvað í þá átt að höggva í réttindi kennaranna meðan þess er kostur. En þetta eru orð hv. 5. þm. Reykv., en ekki hæstv. ráðh.

Þá var hv. þm. að gera greinarmun á stéttarmálum og þjóðmálum. Ég vil biðja hann að athuga, að þetta getur hv. þm. ekki. Hvert einasta stéttarmál er þjóðmál, svo framarlega sem í stéttinni eru málefni, sem eiga rétt á sér hjá þjóðinni. Menntun kennara er stéttarmál, en það er líka stórmerkilegt þjóðmál, svo að hv. þm. getur ekki, hversu rökvís sem hann ykist vera, aðskilið þetta tvennt. Það sama er að segja um launamálin. Þau eru stéttarmál, en þau eru líka þjóðmál, því að það kostar þjóðina mismunandi mikið að greiða launin, en þetta voru þau atriði, sem ég benti á og kallaði stéttarmál. Hann vildi kalla þetta þjóðmál. Mér stendur á sama. Stéttarmál eru þjóðmál. Öll þjóðmál snerta stéttir og starfsmenn þjóðfélagsins.

Þá hefir verið bent á, að ennþá vænti marga kennara í kennarastöður. Sé þetta rétt, sem vel má vera, þá sé ég ekki, að það út af fyrir sig ætti að vera því til fyrirstöðu, að lög þessi verði látin öðlast gildi nú þegar. Það skapar einmitt möguleika fyrir því, að þessir umræddu menn geti fengið að halda áfram kennslu. Í þessu sambandi vil ég benda á, að fyrir tveimur árum var öllum, sem fengizt höfðu við barnakennslu, gefinn kostur á að ljúka námi og fá kennararéttindi eftir eins árs nám í kennaraskólanum. Þetta notuðu sér 30 menn. Ég vil nú spyrja: Getur nokkur undrast yfir því, þó að kennarastéttin vilji ekki hafa þá menn í kennarastöðum, sem annað tveggja ekki treysta sér eða vilja ekki nota þetta tækifæri til þess að fá kennararéttindi? Mér virðist ekki nema eðlilegt, að kennarastéttin geri þær kröfur, að slíkir menn viki úr stöðum fyrir þeim, sem hæfari eru.

Um það, hvort slíkt skuli teljast smábarnaskóli, ef heimilisfaðir kennir börnum sínum sjálfur og tekur ef til vill 2—3 börn til viðbótar, má vitanlega teygja lopann í það óendanlega. Ég tel því tæplega svarandi. Það vita allir, að það mun vart hægt að finna eitt einasta mál, sem ekki má finna einhvern agnúa á, ef vel er leitað. Segi ég þó ekki þar með, að þetta atriði sé verulegur agnúi á þessu máli. Hér er aðeins að ræða um smáatriði, sem er algert framkvæmdaatriði, sem skipað verður fyrir um í reglugerð, og á því ekki heima í lögunum sjálfum.