03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

164. mál, skipun barnakennara

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þótti það óþarft af hv. frsm. meiri hl. menntmn. að segja það, sem hann sagði um þann eina skóla, sem ég nefndi. Annars var það merkilegasta við ræðu hans, að hann fellir sig vel við brtt. hæstv. ráðh., en ég get þó ekki betur séð en að þær auki mikið möguleikana fyrir því, að það verði svipað framvegis og hingað til hefir verið. Hæstv. ráðh. hefir sýnt fram á, að það, að kennarar með kennaraskólaprófi hafi einkarétt til þess að kenna börnum, sé ekki tímabært núna, en ég vil mótmæla því, að þetta sé í sjálfu sér rétt stefna. Ég vil benda hv. frsm. meiri hl. menntmn. á, að það fer betur á því, ef það er eins mikill áhugi hjá honum og kennurum í þessu efni eins og þeir vilja vera láta, að taka þá með þökkum allri góðri hjálp, hvaðan sem hún kemur, um að vinna að aukinni menntun kennaranna. Það fer betur á því, að þeir snúist þannig við þessu máli, heldur en að krefjast einkaréttar í svona mikilsverðu máli þjóðfélagsins. Hv. frsm. meiri hl. er ekki dómbærari um að meta eða gera upp á milli skólanna heldur en foreldrar barnanna. Það má náttúrlega líta á það, hvaða álit foreldrar barnanna hafa á því, hvert senda beri börnin. Ég tel ekki rétt, að sá skóli, sem talinn er einhver bezti barnaskóli þessa bæjar, sé lagður í rústir eingöngu vegna kröfu kennarastéttarinnar á einkarétti til allrar barnafræðslu í landinu. Annars tók hv. þm. í sama streng og ég um það, að þessi skóli, sem hann annars hallmælti að öðru leyti, væri góður skóli. Þessi skóli getur tvímælalaust talizt bezti barnaskóli, sem hér er til, að því er það snertir, að hann skilar frjálsmannlegustu, prúðustu og beztu nemendunum; þessi skóli kennir siðfágun og fegurð í hugsun og framkomu. Það, sem nú var nefnt, er eitt dæmi þess, að varhugavert er að semja slíka löggjöf, sem hér um ræðir, eftir kröfum einnar stéttar í landinu, og ég er sannfærður um, að það er ekki krafa allra þeirra, sem fást við barnakennslu í þessu landi, að enginn megi við slíka kennslu fást nema því aðeins, að hann sé útskrifaður frá kennaraskólanum, og finnst mér, að sú krafa ætti ekki að ná framgangi fyrr en svo er komið, að foreldrar og aðrir landsmenn viðurkenna, að ekki sé völ á öðrum betri mönnum til þess að veita börnunum kennslu og uppeldi, að svo miklu leyti sem skólarnir eru færir um það hér á voru landi, og vil ég þó ekkert segja kennarastéttinni til hnjóðs, því að henni ann ég alls góðs og vænti þess bezta af henni, en samt verð ég að segja það, að það er ekki í fyrsta skipti, sem því er haldið fram, ekki heldur í þessari hv. deild, að ánægjan með árangur barnakennslunnar í landinu sé ekki alveg einróma. Þess vegna ber að taka með þökkum hverju því, sem getur horft til umbóta á þessu sviði, þó að takmörkuðu leyti sé.