03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

164. mál, skipun barnakennara

Eiríkur Einarsson [óyfirl.]:

Þar sem ég á sæti í menntmn. þessarar hv. deildar og þar sem ég talaði við fyrri hl. þessarar umr. út frá því sjónarmiði, að þetta frv. ætti ekki að samþ. eins og það lá fyrir, þá þykir mér eiga við, að ég láti í ljós álit mitt á till. á þskj. 683, frá hæstv. atvmrh. Ég viðurkenni fúslega, að þessi till. hæstv. ráðh. er frjálsmannlega fram borin til þess að reyna að miðla málum um það, sem hér er deilt um, og finnst mér ég geta að ýmsu leyti frekar hallazt að frv. eins og það yrði, ef þessar breyt. hæstv. ráðh. yrðu gerðar á því, heldur en frv. óbreyttu eins og það er frá fyrstu hendi. En þó er þess að geta, að till. eins og þessa er auðveldara að nota til málamynda við lagasetningu þessa hér á þingi heldur en öryggið um það, að hún reynist jafnhaldkvæm til framkvæmdar, þegar kemur til greina samþykki fræðslumálastjórnarinnar og álit og ummæli skólastjóranna í fræðsluhéruðunum í landinu, því að ef illa gengur, þá gæti orðið stundarbið á þessu máli. En þar með er ekki sagt, að svo hljóti endanlega að fara, og er náttúrlega sjálfsagt að vona alls hins bezta í því efni. Hvort ég greiði atkv. með till. eða greiði ekki atkv. — annaðhvort geri ég —, það getur alveg legið á milli hluta. En í þessu sambandi skiptir þessi undanþága, sem brtt. hæstv. atvmrh. gera ráð fyrir, mestu máli, og Játa ég fúslega, að ég met það mjög mikils, að þessi undanþáguréttur verði frjálsmannlega meðhöndlaður í framtíðinni, því að ég álít, að þeir aðilar, sem eiga fyrir menntun og uppeldi barna að sjá, eigi að nota sem mest sín foreldra og borgararéttindi til þess að ráða nokkuð með um það, hvort haldið er til hægri eða vinstri með börnin. Viðvíkjandi því, að minnzt hefir verið á einn sérstakan einkaskóla, þ. e. katólska barnaskólann hér í bæ, vil ég segja það, að ég þekki að vísu ekki mikið til kennslufyrirkomulags þessa skóla, en ég verð bara að segja það, að mér finnst það hvorki galli né kostur, að þessum skóla er stjórnað af katólskum mönnum, svo framarlega sem gengið er út frá því sjónarmiði, að í trúmálum sé ríkjandi tiltölulega mikið frjálslyndi hér á landi, svo að hér getur verið um að ræða næstum alla sértrúarflokka milli „atheisma“ og „ortodoks“ katólsku. En fyrst svona mikið frjálslyndi er leyft og lögverndað í landinu, þá er óþarft að amast við því, þótt skóli sá, sem hér um ræðir, sé katólskur, svo framarlega sem sá skóli er góður skóli. Áður en ég sezt niður vil ég svo taka það fram, að viðvíkjandi hyggilegu og frjálsmannlegu uppeldi barnanna væri á það lítandi, að í upphafi væri foreldraleg umhyggja og siðgæði látið sitja í hásæti og segja barninu til vegar upp eftir aldursskeiðinu til fermingarinnar, og sérþekkingin kæmi svo meira til greina eftir því sem lengra líði á menntunartímann. Eins og kunnugt er, taka lýðskólar og sérskólar við, þegar barnafræðslunni er lokið, og ef fram skyldi nú koma till. í frv. um það, að ekki skyldu aðrir teljast hæfir kennarar við þá skóla en þeir, sem lokið hafa háskólaprófi, þá vil ég segja hv. 2. þm. Árn. það, að ég myndi setja mig upp á móti því, og geri ég ráð fyrir, að hann nálgist a. m. k. skoðun mína í því efni.