04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1936

Jónas Jónsson:

Þessar umr., sem hér eru báðar, eiga að sýna þjóðinni, hver sé aðstaða þeirra höfuðflokka, sem fara með stjórnmál hér á landi. Ef íhaldsmenn hefðu (með sinni undirdeild, varaliðinu) fengið meiri hl. atkvæða við síðustu kosningar, þá hefðu þeir farið nú með stjórnarvöldin í landinu, og þeir tveir flokkar, sem nú starfa saman að stjórn landsins, hefðu þá verið í stjórnarandstöðu. Það, sem því verður aðalniðurstaða þessara umr., er, að þjóðin geri sér ljóst, hvað hún vinnur við það að hafa núv. stj., og hverju hún hefði tapað við það, ef íhaldsmenn hefðu komizt að völdum við síðustu kosningar.

Af því að þessi aðstaða, að tveir umbótaflokkar fari með stjórn landsins í andstöðu við íhaldið, er ekki einstök fyrir íslendinga, heldur nær líka til frændþjóða okkar, þá ætla ég að byrja með því að segja frá viðræðu, sem núv. forsrh. Svía átti í vor sem leið við erlendan blaðamann. Blaðamaðurinn spyr ráðherrann, hvers vegna hafi tekizt að koma á í Svíþjóð þeirri samvinnu, sem nú er þar í stjórnmálum, milli bændaflokksins og verkalýðsins. Ráðh. sagði, að ómögulegt hefði verið fyrir íhaldsflokkinn að ná samkomulagi við bændaflokkinn, vegna þess, að þó að íhaldsmenn hefðu að sumu leyti getað gengið inn á kröfur bænda, þá væri samt margt í allri aðstöðu mála, sem gerði þetta samstarf ómögulegt, ekki sízt það, að íhaldsmenn hefðu ekki viljað halda uppi kaupgetu bæjarmanna, sem væri nauðsynleg til að skapa markað fyrir framleiðslu bændanna, þannig, að ekki var nema ein útgönguleið opin, sú, að verkamenn og bændur ynnu saman. Per Albin Hanson útskýrði þetta nánar og rakti orsakir þess til Ottawa-samningsins. Þá, þegar brezka heimsveldið lokaði sér til hálfs, og vel það, fyrir útlendum innflutningi, sérstak lega landbúnaðarvorum, þá urðu öll Norðurlönd, sem útflytjendur landbúnaðarafurða til Englands, en alveg sérstaklega Danmörk og Ísland, og að nokkru leyti Svíþjóð, að finna nýja sölumöguleika fyrir afurðir sveitanna. Þá vaknaði sú spurning í þessum þremur löndum: Hvernig eiga bændur að koma svo ár sinni fyrir borð, að þeir hafi markað fyrir vörur sínar? Markaðir utanlands voru stórlega þrengdir og sumstaðar, t. d. í Danmörku, varð að láta minnka framleiðsluna. Fyrsta ráðið var hið sama í öllum þessum löndum, að nota innlenda markaðinn fyrir landbúnaðarafurðir svo sem frekast var unnt. Í Svíþjóð og Noregi gerðist það sama og hér, að stærstu stéttir þjóðfél. í bæjum og sveitum sameinuðust um að mynda stj. og stóðu saman á þingi til þess að sigrast á atvinnuörðugleikunum. Þessar tvær stóru stéttir ákváðu að halda uppi kaupgetu í bæjunum, eftir því sem hægt væri, bæði fyrir bæina og sveitirnar. Ein ástæðan fyrir því, að sveitabændur í Noregi og Svíþjóð ákváðu að vinna að stjórnmálum með verkamönnum, var sú, að þeir sáu, að ef verkamönnum í bæjum liði þolanlega, þá gætu þeir keypt vörur af bændum. En að sama skapi er það lífsnauðsyn bæjanna, að sveitafólkinu líði sem bezt og að afkomumöguleikar séu það góðir í sveitinni, að ekki streymi fólkið þaðan til bæja og borga, sem eiga nógu erfitt um sína afkomu.

Þannig var ástatt í þessum málum í Svíþjóð, að bændaflokkurinn þar vildi ekki sameina sig við íhaldsflokkinn um stjórn landsins af því að íhaldsflokkurinn hvorki gat né vildi leysa á skipulegan hátt atvinnuvandamál stóru framleiðslustéttanna í landinu.

Það er eftirtektarvert, að í Noregi hafa þessir flokkar, sem nú starfa þar saman í stjórn, verið í mikilli andstöðu hvor við annan undanfarin ár, enda hefir bændaflokkurinn þar í landi verið sérstaklega íhaldssamur. En lögmál lífsins hefir einmitt vegna lokunar enska markaðsins kennt þeim hið sama og Svíum og sannfært bændafl. norska um, að hann ætti að hefja samvinnu við verkamannaflokkinn um atvinnumál beggja stéttanna, og þeir flokkar hafa starfað vel saman að margháttuðum umbótamálum, og í raun og veru alveg á samskonar grundvelli og hér er starfað saman af íslenzku stjórnmálaflokkunum.

Eitt af því, sem rétt er að benda hv. stjórnarandstæðingum á, er það, að í Noregi komu þessir flokkar sér saman um að leggja á viðskiptagjald, sem þó kemur miklu þyngra á algengar vörur heldur en þau gjöld, sem ráðgert er að leggja á vörur hér. Og þessu viðskiptagjaldi í Noregi er beinlínis skipt á milli stóru stéttanna í landinu, bænda, sjómanna og verkamanna, til hjálpar atvinnulífi þessara stétta. Það var fyrirfram ákveðið, eins og hér, hversu með skyldi fara þennan skatt. Í Noregi hafa fengizt um 30 millj. kr. í tekjur, sem varið hefir verið á þennan hátt. Og forsrh. Svía endaði þetta viðtal með því, að hann sagði, að á meðan þessir sterku flokkar bænda og verkamanna í Svíþjóð og Noregi stæðu saman, þá væri það svo öflug heild, að enginn andstöðuflokkur í landinu gæti hrundið henni. Það hefir reynzt svo, bæði í Svíþjóð og Noregi, að fylgi þessara stjórna hefir farið vaxandi með hverjum degi, sem líður, frá því er til þessa samstarfs var stofnað. Hinar stóru stéttir landsins hafa fundið, að rétt var stefnt.

Ég býst við, að þessi vitneskja geti verið lærdómsrík, sérstaklega fyrir íhaldsmenn, sem hafa vonazt eftir, að bændastéttin á Íslandi mundi ljá þeim liðsinni, en hefir ekki tekizt að ná fylgi hennar, af því að bændastéttin hér,eins og annarsstaðar, finnur, að hún verður að hafa aðstöðu til að geta lifað, og að þá aðstöðu fær hún ekki með þeim flokki, sem henni er svo gersamlega mótsnúinn.

Það er rétt, út af ræðu hv. 10. landsk., að benda þeim hv. þm. á það, að af því að hann fer öðruvísi með sitt litla fylgi en bændafulltrúar í Svíþjóð og Noregi, þá gengur allt illa fyrir honum. Hann er kominn niður úr því, sem eftir lögum Rómverja var talið þurfa til að mynda flokk; þeir töldu, að þrjá menn þyrfti til að flokkur væri löglegur. Ef ekki væru nema tveir menn saman. þá væri það enginn flokkur. Og þannig er nú komið fyrir þessu litla varaliði íhaldsins, að það uppfyllir ekki þessa frumkröfu rómverskra laga.

En af því að þessi þm. hefir verið að áfella stj. fyrir gerðir hennar í kjötsölu- og mjólkursölumálunum, vildi ég fara um það örfáum orðum, þó að árásir þm. hafi verið rækilega hraktar af öðrum.

Það er kunnugt og hefir verið sannað hér á Alþingi af hv. 2. þm. N.-M., að bændastéttin íslenzka hafi hagnazt um 600 þús. kr. á kjötsöluskipulaginu einu saman árið sem leið, ef borið er saman verðið árin 1934 og 1933. Þetta eru peningar, sem ekki var hægt að fá öðruvísi en með núv. samtökum flokka hinna vinnandi stétta, bænda og verkamanna, af því að íhaldsmenn hafa alltaf verið fjandsamlegir skipulagningu á afurðasölu bænda.

Menn tala hér mikið um mjólkina, og mest þeir, sem mest skaða bændur í mjólkurmálum þeirra. Þeir segja, að mjólkurskipulagið eigi að geta gefið hærra verð til bænda. Og áreiðanlega hafa bændur þörf fyrir meiri tekjur. En lítum til mesta bændalandsins í Evrópu, Danmerkur. Hvernig er verðlag á mjólk þar í landi? Stórbóndi átti býli, sem var 20 km. utan við Kaupmannahöfn hafði 30 kýr, rak fyrirmyndarbúskap, en fékk í vor, sem leið, 11 aura fyrir hvern lítra af sinni mjólk. Í Noregi fá bændur 14 aura fyrir hvern lítra af mjólk nærri Oslo. Af hverju kemur þetta? Af hverju geta Bændur, sem búa hér í nánd við Reykjavík, komið og sagt: Ég fæ 30 aura fyrir lítrann af mjólk? Og hvers vegna fá aðrir bændur, sem eru nokkru fjær, 26 aura, og enn aðrir í mikilli fjarlægð 20 aura? Ber þetta verðlag vott um slæmt skipulag hér á landi? Nei, skipulagið á sölu mjólkurinnar er svo miklu fullkomnara hér en í hinu mikla landbúnaðarlandi, Danmörku. Og bændur í grennd við Akureyri, sem ekki njóta stórbæjarmarkaðarins, þeir fá 18 til 19 aura fyrir hvern lítra af mjólk. Þar er einnig gott skipulag á mjólkursölunni, fyrir atbeina þeirra manna, sem fyrirlíta svik þess manns, sem átti að gæta hagsmuna bænda frá 1932–34. Honum vil ég segja, að það þýðir ekkert fyrir hann að koma hér fram mannlaus og fylgislaus og umráðalaus og segja okkur framsóknarmönnum og samvinnumönnum, hvað eigi að gera í vandamálum, sem við höfum ráðið fram úr. þar sem hann gafst upp. við bendum honum á, hvað við erum búnir að gera, og að hann, þau tvö ár, sem hann var í ríkisstj., kom hvorki í framkvæmd skipulaginu á mjólkur- né kjötsölu. En undir eins og hann fór úr stj. var þessari skipulagningu komið á, til hagsbóta fyrir bændur í mjólkurhéruðum. — Hann sveikst um að framkvæma þau aumu mjólkurlog, sem íhaldið setti í gegnum þingið 1933. Menn eins og hann geta talað eins lengi og þeir vilja, haldið klukkutíma ræður, eins og hann hefir nú gert. En verk þeirra tala á móti þeim, þó að þeir vilji telja bændum trú um, að þeir séu ákaflega velviljaðir í þeirra garð. Þessi maður hafði valdið í tvo ár, en notaði það ekki til þess að bæta kjör bænda, af því að hann gat rað ekki. Hann vantaði möguleikana. Hann vantaði dug og hann hafði ekki fylgi. Hann verður að sætta sig við, að þetta sé allt gert af andstæðingum hans og að leiðin til umbótanna liggi yfir hans pólitíska lík.

Ég ætla þá að víkja stuttlega að þessum tveim málpípum, sem töluðu hér á móti núv. stj., þeim hv. 10. landsk., sem fulltrúa kreppulánasjóðs, og hv. þm. G.-K., sem fulltrúa sins flokks. ég ætla að tala fáein orð um kreppulánasjóð og fiskimálin.

Það, sem hv. 10. landsk. hældi sér sérstaklega af, er kreppulánasjóður.

Jón í Stóradal og Þorsteinn Briem sviku Framsfl. í tryggðum á meðan verið var að vinna að þessu máli. Þeir felldu tillögu Steingríms á Hólum og Ingólfs í Fjósatungu um að tryggja bændum reiðufé, eins og við Framsfl.menn vildum leggja sjóðnum. Lið einkafyrirtækisins vildi þá ekki fá þessa peninga, en stóð síðan félaust uppi, og Alþingi varð í fyrra að leggja frum 250 þús. og nú 500 þús. til að hjálpa bændum út úr ábyrgðarflækjunum. En ekkert af þessari augljósu nauðsyn sá hv. 10. landsk. En þessir menn vildu verzla fyrir sig. Jón í Stóradal hefir haft 14 þús. kr. laun fyrir sig og notað tímann aðallega til „agitationa“ fyrir íhald sitt. Pétur Magnússon hefir haft jafnmikið og Jón. Og nú þegar er Pétur Magnússon búinn að lána út úr sjóðnum, eins og ég mun gefa dæmi um. — Þessi sjóður er þannig rekinn af þessum tveim mönnum, að það er mál manna, að ekki þekkist meira ranglæti en útlán hans. Jón í Stóradal hefir notað sjóðinn til framdráttar þessari uppreisnarhreyfingu sinni.

Ég ætla að lesa hér dæmi upp úr skýrslu, sem liggur fyrir frá sjóðnum, um það, hvernig Pétur Magnússon lánaði út úr sjóðnum til bænda á Rangárvöllum, eins og Jón í Stóradal lánaði bændum í Húnavatnssýslu. Pétur lánaði íhaldsbónda, sem er á skrá nr. 42 (þessir menn eru númeraðir eins og fangar í myrkvastofum) upp á 4390 kr., en veðið er 1823 kr. — Fínt að vera íhaldsmaður á Rangárvöllum og láta Pétur Magnússon lána sér út á lítil veð. — Þá kem ég að öðrum, sem er Framsóknarflokksmaður. Hans upphæð er litil, 1200 kr. Fyrir láninu er tekið veð í lausafé 1248 kr. og húsaveð 2090 kr., — alls er veðið 3338 kr.

Þá kem ég að íhaldsmanni í miðri Rangárvallasýslu, kosningasmala Péturs Magnússonar. Hann er skráður nr. 5 með 10770 kr. lán, en veðið er 8485 kr., auk sjálfskuldarábyrgðar eins manns. Þannig má nefna dæmi í tugatali, af því, sem upp hefir komizt um lánastarfsemi kreppulánasjóðs, sérstaklega í Rangárvallasýslu og Austur-Húnavatnssýslu.

Nú ætla ég að minnast á tvo af vinum og aðstandendum hv. 10. landsk., sem þekktir eru úr landsmálabaráttunni, þá Ólaf í Brautarholti og Kolbein í Kollafirði. Kolbeinn er nr. 90. veðið er þriðji veðréttur í fasteign, sem er 16400 kr. að fasteignarmati og 15 kýr. En á þessu veði hvíldu fyrir 17587 kr. Og svo lánar kreppulánasjóður þessum vini ofan á toppveðsetningu 23 þús. 270 kr.

Hvernig halda menn, að Pétur Magnússon, lögfræðilegur ráðunautur bankans, fari að fóðra þessi lán til vina sinna? Hann lætur þá skuldugu gera með sér bræðrafélag og meta hver hjá öðrum. Á þann hátt hækkar jörð Kolbeins úr rúmlega 17 þús. kr. upp í rúmlega 54 þús. kr., en héraðsnefndin hefir metið endurbæturnar síðan mat for fram aðeins á 3000 kr. Hvað sýnist ykkur, góðir áheyrendur? Haldið þið, að svona sé farið að af drengskaparmönnum, sem hafa milli handa annara fé?

Þá er næsta lán, hjá Ólafi mínum í Brautarholti. Það er 52450 kr. Það er tekið með veði í fasteign, sem er eftir síðasta fasteignarmati 67600 kr., en á þessari eign hvíla fyrir 51422 kr. Í stuttu máli, á fasteign, sem er metin á 67000 kr., hvíla 51000 kr., og þar við er svo bætt 52450 kr. En til þess að réttlæta þetta, þá lætur lögráðunautur nefndarinnar, Pétur Magnússon, gera endurmat, og þá er matið hækkað úr 67000 kr. upp í 138000 kr., en þær umbætur, sem gerðar höfðu verið á jörðinni, voru metnar á 12400 kr.

Ég ætla í ofanálag á þessi dæmi frá Kolbeini í Kollafirði og vinum hans að segja frá þriðja bóndanum. Hann fær lán upp á 18000 kr., með 4. veðrétti í fasteign, sem er metin á 17700 kr., en á henni hvíla 19000 kr. En til þess að gera þetta allt saman inndælt, þá eru sömu menn fengnir til að meta þessa jörð, og þeir meta hana nú á 50000 kr. Allt er þetta gert til þess að lögráðunauturinn geti litið með ánægju yfir sitt réttláta dagsverk.

Ég vil taka það fram, að þessir sömu herrar í Mosfellsveitinni hafa upp á siðkastið hlustað með velþóknun á hinar viturlegu tillögur Jóns Í Stóradal, þar sem hann ráðleggur mönnum að borga ekki kreppuskuldir, og einn af þessum fjármálamönnum hefir heimsótt nefnd á Alþingi í vetur og tilkynnt, að búið sé að lána sér of mikið, og nú vilji hann alls ekki borga. Jón í Stóradal er að reyna að kenna mönnum pretti. Þessir menn, sem hafa brotizt til valda í sjóðum, segja nú, að ekki þurfi að borga og að ekki sé rétt að borga kreppuskuldir. Og svo koma þessir sömu menn til Alþingis og í blöðin og segja, að það sé búið að lána svo mikið út á jarðir bænda, að þeir geti ekki staðið í skilum. Svona er flokkur sá, sem var byggður upp utan um Kreppulánasjóðinn og aflað fylgis með tálvonum um afurðasöluhjálp í Kreppulánasjóði.

Svo vildi ég minnast á hinn manninn, skuldakónginn við sjóinn, hann Ólaf okkar Thors. Hann og hans lið hefir haft á hendi fisksölu, og hefir þar a meðal annazt það, að borga ítölskum fiskkaupmanni, Gismondi að nafni, 330 þús. kr. til þess að kaupa ekki fisk frá Íslandi eitt árið. Þessu var leynt eins lengi og hægt var, og það kom ekki fram fyrr en ég skrifaði fyrir nokkru um málið, en þetta snerti hv. þm. G.-K. svo illa, að hann sagði sig úr utanríkismálanefnd. Ennþá veit enginn utan að komandi, hvers vegna fiskimenn suður með sjó máttu ekki vita um þessa snilldarlegu meðferð á þeirra fé. En nú er Gismondi farinn að kenna Norðmönnum og öðrum keppinautum okkar, hvernig þeir eigi að verka fisk fyrir Ítalíu. Annað dæmi um snilld hv. þm. G.-K. og hans nánustu samherja er það, að nota síðustu mánuðina, sem íhaldið sat við stjórn, til að gera fjármálalegar ráðstafanir fyrir okkar hönd, þannig, að þess vegna þurfi að taka stórfé af landsmönnum til þess að borga þetta. Sjómenn kannast við þessa blóðtöku, fiskskattinn fræga. Þessar ráðstafanir voru gerðar bak við alla menn í núv. stjórnarflokkum, og enginn ber ábyrgð á þessu athæfi nema nánustu vinir Kveldúlfsfrænda, og einkum þó þeir sjálfir.

Loks er þriðja dæmið. Nokkrir helztu leiðtogar íhaldsins hafa á síðustu missirum álitið það helzta bjargráð fyrir landið að afhenda mikinn hluta af togaraflotanum undir útlent flagg og fá að vera leppar undir útlendu valdi. Skyldi íslenzkum sjómönnum þykja fýsilegt að vera á þann hátt annaðhvort sviptur atvinnu og útlendir menn settir í staðinn, eða að verða „þræll þrælsins“? Að vísu verður ekki úr slíkum bollaleggingum. Stærstu stéttir landsins, bændur, sjómenn og verkamenn, leika ekki áhættuspil með frelsi lands og þjóðar.

Ég verð að segja það, góðir hálsar, að eins og ég hefi ekki trúað á þá menn, sem stjórnuðu Kreppulánasjóði, ef þeir væru í meirihlutaaðstöðu, eins hefi ég ekki getað trúað mönnunum, sem gerðu samninginn við Gismondi, og ég hefi ekki heldur trúað þeim, sem sömdu með leynd á bak við utanríkisnefnd 1934, eða þeim, sem dettur í hug, að við eigum að gerast leppar útlendra þjóða og leggja atvinnulíf okkar undir þær.

Hv. þm. G.-K. talaði um það, að ég hefði verið eyðslusamur í stjórn. Hann rökstuddi það ekki, en ég býst við, að nokkrir skólar, spítalar, margir vegir og margar brýr og símarnir hafi ruglað heila hans í þessu efni. Þetta er máske eyðsla, en það er eyðsla, sem mér þykir sómi að. En hans eyðsla og Kveldúlfs er af annari tegund.

Það er vitað, að hans fyrirtæki skuldar 4–5 millj. hjá Landsbankanum, og það er vitað, að þetta fyrirtæki hefir tapað 200000 kr. sum árin, en stundum meira, svo sem þegar Jón Þorláksson hækkaði krónuna. Og það er vitað, að hann og hans nánustu eyra upp í 30 þús. krónur á mann. Sjö heimili eru í fjölskyldunni. Ættfaðirinn fær 25 þús. kr. eftirlaun frá þessu fátæka fyrirtæki. Til samans eyða þessar 7 fjölskyldur 200 þús. kr. árlega fyrir utan hlunnindi.

Við skulum nú athuga, hvað margar fjölskyldu gætu með slíkri eyðslu lifað á þeim rúml. 40 millj., sem útflutningur okkar er nú. Það eru 1400 fjölskyldur, sem gætu lifað á Íslandi eftir þeim „skala“. sem hv. þm. G.-K. lifir eftir og hans ættfólk. Hér á Alþingi hefir þessi sami hv. þm. játað, að auk hinnar persónulegu eyðslu frá fyrirtækinu, hefir hann og bræður hans fengið að láni nálega hálfa millj. kr. úr veltu Kveldúlfs, af lánum bankanna, í óhófs skrauthýsi handa þessari eyðslusömustu fjölskyldu landsins. Mér finnst, að þeir Kveldúlfsfrændur ættu aldrei að tala um fjármál opinberlega, aldrei um sparnað, aldrei um eyðsluskuldir né lán.

Á öllum Norðurlöndum vinna nú bændur og verkamenn saman að því að halda uppi lífsskilyrðum, menningu og þreki hinna vinnandi stétta. Svo er og hér á landi. Í því er fólgin gæfa þjóðarinnar. Ég hefi jafnframt bent á þá flokka, sem áður fóru með völd. Ég hefi tekið nokkur dæmi til að sýna, hvernig þessir menn fóru með vald sitt.

Kreppulánasjóður virðist vera sjúk stofnun og hafa verið það frá upphafi vega sinna.

Ég hefi bent á fiskmálin, og ég skora á hv. þm. G.-K., ef hann hefir nokkurn manndóm, að verja sig og verk sín. Ef hann getur það ekki hér, þá í blöðunum eða opinberum umræðum.

Þjóðin á nú að dæma á milli mannanna, sem gerðu kreppulánasjóð að æti fyrir sig og stjórnuðu honum eins og dæmin sanna, sjö heimilanna, sem kosta hið fátæka land 200 þús. kr. á ári í beinum peningum, og kunna svo sína mennt eins og framangreind dæmi sýna, og forustumanna hinna stóru stétta, sem nú hafa umboð þjóðarinnar til að fara með stjórn landsins.

Verkin tala um málstað beggja. Þessar umr. gefa landsfólkinu glögga hugmynd um, hvílík gæfa það var, að síðustu kosningar enduðu með ósigri íhaldsins og varaliðs þess.