04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1936

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hefi fáu að svara hv. þm. V.-Húnv. Það er aðallega tvennt, sem ég vil minnast á. Það er vitað mál, að ekki komst á fundur í n. fyrir kosningarnar. Þetta hefir mikið verið um deilt í blöðum, og margsannað, að svo var.

Viðvíkjandi n. frá Búnaðarfél., sem átti að ákveða verðlag á kjötinu, er það það segja, að allt, sem hún hafði þar til að fara eftir, voru 10 búreikningar og milli 10 og 20 skýrslur. En andstæðingar stj. hafa ekki ætlazt til annars en að nota þetta sem ádeilu á stj. Þess vegna er þetta allt fært úr réttu samhengi.

Þá vil ég víkja að hv. 10. landsk. Ég hefi sjaldan séð hann í eins æstu skapi eins og þegar hann var að svara mér seinast. Ég hélt satt að segja, að hann ætlaði að detta um í ræðustólnum. Það virðist hafa stafað af þeirri æsingu, sem var í skapsmunum hans, að hann byrjaði ræðu sína á því að segja, að ég hefði játað allt, sem hann hefði sagt, og svo eyddi hann öllum tíma sínum í að svara þeim röksemdum, sem ég bar fram í ræðu minni. Ég held, að það sé óheppilegt að byrja ræðu á því að skrökva, og það á þann veg, að hver einasti maður, sem hlustar á okkur, veit, að hann segir ósatt. Ég held, að hlustendur hljóti að draga þar af þá ályktun, að ekki sé heldur allt með felldu, þegar þeir hinir sömu menn fara að segja frá þeim atriðum, sem hlustendur geta hinsvegar ekki dæmt um, enda var ræða hans satt að segja ein samhangandi keðja af ósannindum, og skal ég nú færa sönnur á það, þó að það sé leiðinlegt að eiga orðastað við þennan hv. þm., því að það er hans aðferð að vefja málin meira en góðu hofi gegnir.

Hann sagði, að ég hefði deilt á bakarastéttina í Reykjavík og sagt, að þeir væru vondir menn. Ég sagði ekkert um þá nema það, að þeir hefðu selt mjólk fyrir bændur og tekið 8 aura fyrir á hvern lítra, og ég sæi ekki ástæðu til þess að trúa þeim fyrir framkvæmd mjólkurmálsins, sem hefðu reynzt þannig áður, heldur vildi ég gjalda varhuga við að afhenda þeim völdin í þessu máli.

Ég sagði ennfremur, hvernig þeirra verðlag væri með þá vöru, sem þeir selja. Þess vegna var þessu beinlínis skrökvað upp. Mér finnst satt að segja fara illa á því af prestvígðum manni að fara þannig með sannleikann. En til þess að taka alveg af skarið með dreifingarkostnaðinn, þá skal ég skýra það mál með nokkrum orðum, þó að það sé leiðinlegt að þurfa að fara út í það mál enn. Ég verð að biðja hlustendur að afsaka, þó að ég verði að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um það mál, en það leiðir af rökfærslum þessa manns, að maður verður að endurtaka það sama dag eftir dag, því að hann skýtur alltaf upp höfðinu aftur, þó að búið sé að berja hann niður og hans ósannindi.

Gerilsneyingin er 3 aurar. Sölu- og flutningskostnaður í Reykjavík og Hafnarfirði og skrifstofukostnaður er 51/3 aurar, eða samtals 81/3 aurar. Meðalverð mjólkurinnnar er 371/3 aurar. Sé þar frá dreginn kostnaðurinn, 81/3 aurar, og verðjöfnunargjaldið, 3 aurar, samtals 111/3 aurar, þá koma út 26 aurar, og það fá bændur útborgað. Og svo er hv. þm. að reyna að blekkja með því, að það séu einhverjir 7 aurar, sem eigi að skila bændum. Svona er málflutningur hv. þm. Þegar hann er kominn í rökþrot vegna þess að hann hefir sagt ósatt, þá segir hann bara ósatt aftur og kemur sér þar með í önnur vandræði. Hann virðist hafa gleymt því, að það er borgað 3 aura verðjöfnunargjald, sem fer til þeirra, sem selja ekki mjólkina hér, og hafa þeir þannig fengið 10550 kr. Hann virðist hafa gleymt þeim aurum. Kannske það séu þeir, sem hann er að fálma eftir með þessum 7 aurum, sem hann er alltaf að leita að.

Hann segir, að ég hafi ekki minnzt á árið 1933. Þá var skipulagningin ekki komin. Þá var dreifingarkostnaðurinn samkv. skýrslu Eyjólfs Jóhannssonar, sem birt var í Morgunblaðinu, 16 aurar á lítra. En til þess að tefja ekki tímann, þar sem þessu hefir ekki verið mótmælt, sé ég ekki ástæðu til að lesa hana upp lið fyrir lið.

Það, sem hv. þm. hefir fyrir sér í því, að frekar hefði átt að taka kostnaðinn 1934, þá er þar því til að svara, að eftir að ég gaf út bráðabirgðalögin um sölu mjólkur, þá tókst mjólkursölunum, m. a. Mjólkurfélagi Reykjavíkur, að þvinga þá menn, sem höfðu söluna á hendi, úr 3 aurum niður í 4 aura. Ég vil spyrja: Hvar eru þeir peningar? Mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi komizt til skila í hendur bændanna. Þegar við ræðum um það verð, sem Mjólkurfélag Reykjavíkur borgaði, og það, sem Samsalan borgar nú, 26 aura til bænda í Mosfellssveit og 29 aura til þeirra, sem eru í nágrenni Reykjavíkur og hafa ræktað land handa búpeningi sínum, þá vil ég spyrja, og þá sérstaklega þá, sem eru í Mjólkurfélagi Reykjavíkur, ef einhverjir þeirra hlusta á mál mitt nú: Eru þeir, sem hafa fengið 20–25 aura úr Mjólkurfélaginn, vissir um, að þeir eigi ekki eftir að endurgreiða eitthvað af því til Mjólkurfélagsins aftur? Eru þeir vissir um, að þetta hafi verið það raunverulega verð? Þetta vil ég biðja þá menn, sem eru í Mjólkurfélaginu og hlusta á mig nú, að hugleiða. Ég býst við, að þeir geti svarað því sjálfir.

Þá er talað um það, að ég hafi látið mjólkina lækka í verði. Það er nú reyndar margbúið að svara þessu áður. Það má benda á, að einn sinni var mjólkin seld hér á 1 kr. lítrinn, og það voru bændurnir sjálfir, sem lækkuðu hana hvað eftir annað, því að þeir vissu eins og áður, að það er nauðsynlegt að selja vöruna eftir því kaupendamagni, sem fyrir er. Af þessu stafaði það, að þeir á Akureyri sáu sér mestan hag í því að lækka mjólkina niður í 25 aura, til þess að geta selt sem mesta mjólk sem neyzlumjólk, en minnkað vinnsluna, því að verð fyrir hana er miklu lægra. Það er af sömu ástæðu, að vitnað hefir verið í Noreg og Svíþjóð. Það er oft talað um, að bændur í Noregi ráði öllu í mjólkursölumálunum, en það ei, ekki nema hálfur sannleikur. Hvað fá bændurnir þar? Þeir fá 12–l4 aura nettó, en 26 aura í Mosfellssveitinni, meira en helmingi hærra verð. Og hvernig er það í Svíþjóð? Þar hækka þeir mjólkina til þess að losna við vinnslumjólkina, og um leið hafa þeir komið af stað stórkostlegri agitation til þess að fá menn til þess að neyta meira af nýrri mjólk.

Þá er það eitt árásarefnið, að bændur fái ekki að ráða sjálfir yfir mjólkurmálunum hér. Það er nú búið að margtaka það fram, að þetta er ekkert nema blekking af aumasta tægi, alveg eins og þegar því er haldið fram, að bændur fái engu að ráða í kjötverðlagsn., þó að þar séu Helgi Bergs, Jón Árnason og Páll Zóphóníasson. Alveg er það sama með mjólkursölun. þar eru bændur og fulltrúar bænda í stórum meiri hl. Annars þykir mér ekki þörf á að endurtaka það frekar, því að það þreytir hv. þm. og aðra hlustendur, þótt ég hinsvegar neyðist stundum til þess vegna framkomu hv. 10. landsk.

Viðvíkjandi þessari skipulagningu, þá var rökfærsla hv. þm. hagað þannig, að ýmist var það gert að ádeiluefni, að það væru alófærir menn, sem væru látnir stjórna þessum málum, en þegar valinn er allra þekktasti mjólkurfræðingur landsins til þess að koma skipulagi á söluna og viðskipti milli búanna, þá er sagt, að það sé yfirlýsing um það, að mjólkursölunefnd sé ófær til að annast það, og þá er deilt á stj. fyrir, að hún hafi valið þennan mann til starfans, en ekki mjólkursölun. Svona er nú samræmið. En þetta var gert eftir beiðni mjólkursölunefndar, og nú er þessi maður byrjaður á að skipuleggja viðskiptin á þann hátt, sem hann hafði ráðið fyrir löngu síðan. hér beitir hv. þm. alveg sömu aðferðinni og í ósannindunum um 7 aurana; hann reynir vegna skorts á rökum að vefja málið þoku til að reyna að villa mönnum sýn.

Þá var hann að hrópa upp með það, að það sýndi m. a. hina gegndarlausu ósvífni og skipulagsleysi í mjólkurmálunum, hvernig komið væri með skyrsöluna, hversu mikið hún hefði minnkað. Til þess að geta sannað lið fyrir lið þessi ósannindi — mér liggur við að segja visvítandi ósannindi —, þá tók ég hér með mér skýrslu frá mjólkursamsölunni um þetta atriði. Vil ég biðja alla hlustendur — þó sérstak lega hv. þm. — að taka vel eftir, því að hér kemur fram rétt mynd af rökfærslum og ósannindum hv. þm.

Þessi skýrsla er um skyrsöluna 1934. Þá var safnað skýrslum frá öllum búum, sem seldu nýtt skyr. Það er áætlað og er vel í lagt, að Hvanneyri hafi selt jafnmikið og Mjólkurbú Borgfirðinga. Alls er salan 1776873/4 kg. yfir árið, eða tæp 178 þús. kg. En skyrsalan í ár, frá 15. jan. til 30. nóv., eða 11/2 mán. skemur. Var 180000 kg. Og svo segir hv. þm., að skyrsalan hafi minnkað um helming! Þið heyrðuð öll, að hann sagði, að hún hefði minnkað um helming. Hugsið ykkur svona rökfærslu! Hugsið ykkur slíkan prest!

Hann segir, að skyrsalan frá Mjólkurbúi Borgfirðinga hafi algerlega lagzt niður. Það er ósatt líka. En er það þá mögulegt, að nokkur þm., og það prestvígður maður, geti skrökvað svona? Ég skal láta tölurnar tala. Samkv. eigin uppgjöri seldi Mjólkurbú Borgfirðinga árið 1934 8382 kg., en frá 15. jan. til 31. okt. seldi Samsalan fyrir þetta bú 26338 kg. M. ö. o. sannleikanum er svo nákvæmlega snúið við. Hér er þó svo vel í lagt, að gert er ráð fyrir, að Hvanneyri hafi selt eins mikið og búið. Þarna hefir því skýrsalan tvöfaldazt, í staðinn fyrir það, að hv. þm. sagði, að hún hefði lagzt niður. Það er satt að segja þreytandi að verða að standa í því ár eftir ár að reka ósannindi ofan í þennan hv. þm. — Gerið svo vel, hv. þm., hér eru skýrslurnar. —

Alveg það sama er að segja með kjötsöluna. Ég hefi lítinn tíma, en vil þó verja nokkru af honum til að minnast á það. Það hefir mest verið deilt á kjötsöluna 1934. Ég hefi áður bent á, og vil nú endurtaka það, að sá maður, sem ég valdi til þess að standa fyrir henni þá, Jón Ívarsson, var áreiðanlega sá bezti maður, sem hægt var að fá til þess að annast kjötsöluna. og því var haldið fram af þessum hv. þm. Í þessari framkvæmdastjórn voru ennfremur menn eins og Helgi Bergs og Jón Árnason. Svo ræðst hv. þm. á mig fyrir það, að ég hafi valið mennina sérstak lega illa. Hvað finnst ykkur um svona rökfærslur?

Því er einnig skrökvað hjá hv. þm., að Sláturfélag Suðurlands hafi ekki fengið nema 7 aura upp í frystikostnaðinn. Það fékk 7 aura og 8 aura, eða samtals 15 aura.

Þegar hv. þm. hætti sér út í þetta, — takið eftir því, hv. þm. og útvarpshlustendur —, þá hafði hann vit á því að fara fljótt yfir sögu, þegar hann kom að því, sem gerðist, þegar hann var atvmrh., og ætlaðist til þess, að ef kjötið væri selt á erlendum markaði fyrir 72 au., þá ætti ekki að bæta það upp. Þetta var krafan, sem hann gerði til sjálfs sín, þegar hann var atvmrh. Honum hefir orðið illa við það, að þetta er staðfest, og ég er ekki undrandi yfir því, þegar líka er tekið tillit til þess, að þeir menn, sem hann hefir unnið með, eins og hv. 7. landsk., hefir haldið því opinberlega fram, í grein, sem hann skrifaði í Morgunblaðið, að hann áliti, að það verð, sem bændur þurfi að fá fyrir kjötið, sé 40 aurar. Þetta er maðurinn, sem sá ráðh., sem ekki vildi borga uppbót á 72 aura, vildi vinna með. Þar með er það sannað, hver útkoman hefði orðið af þeirri samvinnu. Það hefði orðið meðaltalið, 36 aurar. En þannig er þessi hv. þm. Hann kemur nokkuð öðruvísi fram, þegar hann er atvmrh. en þegar hann er þm. í andstöðuflokki. Það er einnig merkilegt, og takið þið eftir því, að þegar hann var atvmrh., þá voru engar kröfur gerðar frá hans hendi um að hækka jarðræktarstyrkinn. Þá kom engin krafa um verðuppbót á kjöt, sem seldist á 72 aura, engin krafa um að greiða áframhaldandi styrk til frystihúsa. Það voru ekki einu sinni framkvæmd af þessum ráðh. ákvæði l. frá 1933 um styrk til mjólkurbúa. Hann sveikst um það, og svo urðum við að borga það, þegar við komum í stj. og ríkiskassinn var tómur. Hann gerði engar kröfur um erfðaábúð á jörðum, engar kröfur um nýbýli engar kröfur til kartöfluverðlauna, hann gerði ekkert í framfærslumálunum, sem er eitt af þeim málum, sem mestu varða. Hann gat ekkert gert í mjólkurmálinu nema að gefa út l., sem voru svo limlest í höndunum á honum, að það var ekki hægt að framkvæma þau. Þau voru svo aum, að ég fékk fyrirskipun um að framkvæma þau ekki. Þetta er margsannað með staðfestum vottorðum fra fyrrv. fulltrúa mínum Jónatan Hallvarðssyni. Þessi l. urðu mest til hagsbóta fyrir þann verksmiðjuiðnað á mjólk, sem var þá að rísa upp hér í kringum Reykjavík, sbr. 58 kúa fjósið, sem þá var byggt. Það er bautasteinninn yfir þessum fyrrv. atvmrh. Þá var verið að koma mjólkurmálunum í það horf, að það hefði fyrirsjáanlega orðið til þess að gereyðileggja mjólkurmarkaðinn fyrir þó, sem bjuggu í nágrenni Reykjavíkur, með þessari verksmiðjuframleiðslu á mjólk, sem átti að færa inn í bæinn. Það voru þessi l., sem hv. form. Sjálfstfl. kom með inn í þingið.

Kjötmálið var líka óleyst. Þannig stóðu þessi mál öll. Nú er risinn hér upp spámaður mikill og gerir kröfur um þessi mál. Þessi spámaður er á þingmáli nefndur hv. 10. landsk., en heitir öðru nafni Þorsteinn Briem. Nú er hann að gera kröfur í þeim málum, sem atvmrh. með sama nafni gleymdi að gera kröfur um til sjálfs sín. Og það er hætt við, að þessi hv. þm. mundi breytist í sama umskiptinginn, ef hann hefði tök á að ná einhverntíma völdum aftur.