07.12.1935
Neðri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Hannes Jónsson [frh.]:

Ég átti aðeins lítið eftir af ræðu minni í gær; get ég því verið fáorður nú. Það, sem ég vildi vekja athygli á, er það, að mér virðist sá styrkur, sem til nýbýla er ætlaður eftir till. hv. n., vart vera svo ríflegur, að hann geti orðið til verulegrar hjálpar þeim, sem hans er ætlað að njóta. Þessi ákvæði í frv. okkar Bændaflm. voru mun ríflegri, og þau voru beinlínis sniðin við það, að þeir menn, sem hefðu áhuga og löngun til þess að reisa heimili í sveit, gætu það án þess að þeir hefðu yfir miklum fjármunum að ráða. Mér virðist því, að upphæð sú, 8500 kr., sem nefnd er, sé allt of lítil. af þeim 3500 kr. styrk, sem ríkið leggur fram á hvert býli, má ekki verja nema 1000 kr. til ræktunar. Það hljóta allir að sjá, hve sárlítið munar um þetta, ef um lítt ræktað land er að ræða, þar sem nýbýlið er reist.

Til þess að koma upp bæjarhúsum, peningshúsum, hlóðum og rækta land, svo hægt sé að lifa á býlinu, þarf óneitanlega töluvert fé, svo mikið fé, að ég hygg ómögulegt að komast af með þá upphæð, sem hv. n. gerir ráð fyrir. Hin allra minnsta upphæð til þess að koma upp nýbýli fyrir eina fjölskyldu mun hafa reynzt hjá byggingar- og landnámssjóði 6000 kr. Af þessu er það bert, að upphæð sú, sem hv. n. gerir ráð fyrir, að koma megi upp nýbýli fyrir handa einni fjölskyldu, hlýtur að verða allt of lítil. Það er beinlínis fyrirsjáanlegt, að megin hluti þeirrar upphæðar mun fara til þess að koma upp bæjarhúsunum, en þá eru eftir öll peningshús og hlöður. Ég segi hlöður, því að ég tel, að byggja þurfi hlöður með peningshúsunum, svo sæmileg aðstaða sé til búrekstrar á þessum býlum, því að ég tel það ekki rétt að setja býli þessi skör lægra en ætlazt er til í jarðræktarlögunum, að sveitabýli séu yfirleitt.

Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni, en mun við 3. umr. koma fram með brtt., sem ganga munu í þá átt að bæta úr þeim ágöllum, sem ég tel, að séu á frv. og brtt. hv landbn., því að það er sannarlega ekki nóg að gefa mönnum kost á að búa í sveit, en gera kjörin svo óaðgengileg, að ekki sé í það leggjandi nema fyrir menn, sem hafa yfir töluverðum fjármunum að ráða.