09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jón Pálmason:

Það voru nokkur atriði, sem fram komu við fyrri hl. þessarar umr., er gerðu það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs.

Hv. þm. Mýr., frsm. meiri hl. n., kvað ekki hafa verið hægt að fela Búnaðarfél. stjórn þessara mála, því að búnaðarmálastjóri er ekki beint undir valdi ríkisstj., heldur búnaðarþings og stj. Búnaðarfél. Ísl. En það eru engin mótmæli gegn því, að þeir menn hafi með höndum stj. þeirra mála, sem hér er um að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að fara að stofna ný embætti eða að safna í stj. þessara mála nýjum mönnum, sem þurfa að hafa sérstök laun, ef hægt er að komast af án þess. Ég held, að starfsmenn Búnaðarfél. hafi ekki svo miklum störfum að gegna allt árið, að ekki megi með betra fyrirkomulagi fela þeim stj. þessara nýbýlamála. Ég kysi því helzt, að hv. þd. gæti fallizt á mína till., að Búnaðarfél. verði falin þessi stj., þannig, að kosnir yrðu 3 af starfsmönnum félagsins í því skyni.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, að af brtt. landbn. væri auðséð, að hún ætlaði ekki hlutaðeigandi mönnum, sem til nýbýla stofnuðu, svo góð lífsskilyrði sem skyldi. Það skein út úr ræðu hans, að það yrði strax að reisa handa þeim byggingar í fullkomnasta stíl, að það væri óviðunandi, að þeir hefðu ekki hlöður yfir hey sín o. s. frv. Við vitum nú, að mikill hluti bænda hefir ekki hlöður né byggingar af fullkomnustu gerð, og er varla hægt að gera kröfur til þess, að þessum mönnum verði af ríkinu veitt betri skilyrði en bændur hafa almennt hér á landi. Höfuðsjónarmið n. hefir verið að koma í veg fyrir, að svo mikil skuldabyrði hlaðist á þessa menn, sem hér er um að ræða, að þeir gætu ekki undir henni risið. Hér verður að stilla öllum kröfum í hóf.

Ég hefi ekki haft tök á að athuga þær brtt., sem útbýtt hefir verið, svo að ég get ekkert um þær sagt að svo stöddu. En þegar hv. þm. hafa hugleitt, í hverju okkur greinir á, þá vænti ég þess, að þeir geti fallizt á, að mín till. sé sú eðlilegasta, sérstaklega þar sem gert er ráð fyrir í lögunum, að þessir búnaðarfélagsmenn leggi fram sérþekkingu þá, sem þeir hafa, til leiðbeiningar við stofnun þessara nýbýla.