13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Út af fáum meinlausum orðum, sem ég beindi til hv. þm. V.-Húnv., hefir hann haldið eina af sínum fullyrðingaræðum, sem mér dettur ekki í hug að svara. Ég vil aðeins benda á, að hann fullyrti, að ég væri á móti öllum lánum í sambandi við nýbýlin, og ég væri á móti málinu í heild, sem ég hefi þó athugað kostgæfilega í landbn. og hefi skrifað undir ágreinings- og fyrirvaralaust. Ég get látið þetta svar nægja.

Þá sagði hv. þm., að hann vissi ekki hvort þessi og þessi maður myndi verða okkur í landbn. þakklátur fyrir afgreiðslu málsins. En ég vil segja honum, að mig varðar ekkert um það, hvort þessi og þessi maður er mér þakklátur. Ég lít á hag þjóðarheildarinnar, og það gerir landbn. Ég vil benda á í þessu sambandi, að byggingar- og landnámssjóður hefir þegar orðið að gefa afföll af sínum hagkvæmu lánum, því að þau voru allt of há.

Að lokum vil ég láta þá skoðun í ljós, að ég hafi eins mikið vit á landbúnaði eins og hv. þm. V.-Húnv. (HannJ: Það er vafamál). Og ég vil frábiðja mér allar leiðbeiningar hans í þeim efnum.