25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

131. mál, alþýðutryggingar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

[óyfirl.]: Ég skal ekki verða langorður um málið á þessu stigi. Það eru aðeins eitt eða tvo atriði, sem ég vildi vekja athygli á, áður en málið fer til n. Ég minntist á það í gær í sambandi við frv. til framfærslulaga, að æskilegt væri, að þau l., sem gera ráð fyrir stórum útgjöldum fyrir ríkissjóð, kvæðu á um, hve mikilla útgjalda væri að vænta. Og nú, þegar þetta frv., sem er mikill lagabálkur og gerir ráð fyrir allmiklu framlagi frá ríkissjóði. er til umr., vildi ég beina því til hv. þm. að hafa það sjónarmið, að haga því svo til, að hægt sé að sjá, hver útgjöld ríkissjóðs verða. Ellistyrktarsjóðirnir ættu sennilega að bera sig sjálfir eftir nokkur ár. En til sjúkratrygginganna er ekki sjáanlegt, hver útgjöld ríkissjóðs muni verða. Ég vildi því beina því til n. að setja inn í frv. ákvæði um hámark þeirra iðgjalda, sem ríkissjóður þyrfti að leggja á móti. Mætti þá reikna út eftir mannfjölda, hverra útgjalda væri að vænta. Að það væri t. d. ákveðin krónutala á mann, en ef menn vildu kaupa hærri tryggingu, yrðu þeir að greiða af henni sjálfir. Það er svo um þetta frv. um alþýðutryggingar, sem er mikill bálkur, að í því eru mörg nýmæli, og skiljanlega ekki að fullu samið um einstök atriði þess milli stj.flokkanna. Ég vil þó minnast á eitt atriði, ákvæðin um ellitryggingu og ellilaun. Eins og hv. frsm. skýrði glögglega, eru þær tryggingar í þremur flokkum: kaupstaðir, kauptún og sveitir. Hjá hverjum þessum flokki er svo tekjunum skipt milli þeirra gamalmenna, sem þar hafa verið búsettir. Eftir þessu verður mikill munur á ellistyrknum, eftir því hvort styrkþegi er í kaupstað eða sveit. Þar sem gert er ráð fyrir að afla tekna með 1% gjaldi af tekjuskatti, verða þær langmestar í Reykjavík. En ég vil taka það fram, að ég álít ekki rétt að haga þessu svona. Ég tel, að of mikill munur sé hér á Reykjavík og úti um land.

Það er ekki réttlátt, að gamalmenni hér njóti að öllu leyti þeirra tekna, sem hér fást á þennan hátt, því hér starfa margir menn, sem vinna fyrir alla þjóðina. Ef einhver munur er gerður, verður að miða við framfærslukostnað.