25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

131. mál, alþýðutryggingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

mér þykir rétt að benda á það strax við þessa umr., þar sem frv. er samið og flutt hér að minni tilhlutun, að ef frv. til framfærslulaga verður samþ., þá er óhjákvæmilegt að afgr. einnig l. um alþýðutryggingar. Það er án efa svo, að eftir því frv. kemur meiri fátækraframfærsla á kaupstaðina en nú, þó illa hafi gengið að innheimta kröfur á önnur sveitarfélög. Ef það verður samþ., að hver eigi framfærslusveit þar, sem hann dvelur, verður alveg óhjákvæmilegt, að setja l. um almennar tryggingar.

Um frv. í heild get ég látið nægja að vísa til ummæla hv frsm., en aðeins taka fram, að ég álít, að frv. þurfi bæði að fylgjast að.

Ég vil svo bæta því við, að því er þetta frv. snertir, að það er annað að beygja sig fyrir fjárhagsörðugleikum yfirstandandi tíma, svo að frv. fáist fram á þingi, og að fá fullkomna lausn á málinu. Þannig ber að líta á frv., en ekki neina yfirlýsingu frá Alþfl. um, að hann sé ánægður með það. Vona ég, að hv. d. viðurkenni, að við séum komnir á það menningarstig, að óhjákvæmilegt sé að ganga inn á þessa braut, því óviðunandi sé að hafa hér fátækrastyrkinn einan.

Viðvíkjandi aths. hæstv. fjmrh. tel ég sjálfsagt, að n. íhugi, hvort hægt sé að ákveða, hve mikið ríkissjóður skuli greiða. Um hitt atriðið, að hafa ellistyrkinn misjafnan í sveitum og kaupstöðum, má vitanlega deila. Framlagið af tekjuskattinum telur hæstv. fjmrh. eðlilegt, að falli til skipta almennt, en tilfalli ekki einstökum héruðum. Um þetta má einnig deila.

Ég sé svo ekki ástæðu, eftir ýtarlega framsögu, að hafa um þetta fleiri orð, en vil mælast til, að hv. allshn., sem mun fá frv. í hendur, hraði sem mest afgreiðslu þess. Þeir menn, sem undirbjuggu frv., eru reiðubúnir að gefa upplýsingar, og einnig er ég reiðubúinn til viðtals.