06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að drepa á nokkur atriði, sem til mín hefir verið beint frá einstökum hv. þm. út af því, sem ég sagði hér í dag og í gær í þessu máli. Út af því, sem hv. 8. landsk. beindi síðast til mín, vil ég taka það fram, að ég hygg, að hv. þm. hafi ekki verið staddur hér í hv. d., þegar ég talaði um þetta mál í gær. (GÞ: Jú). Jæja, þá hefir hann ekki tekið vel eftir, því að hann deildi á mig fyrir það, að ég hefði sagt, að afstaða sjálfstæðismanna í þessu máli væri ekki í samræmi við stefnuskrá flokksins. Ég sagði ekkert um þetta, svo að í raun og veru var sá hluti ræðu hv. þm., sem fjallaði um þetta atriði, óviðkomandi því, sem ég sagði í gærkvöldi. Út af því, sem hv. þm. sagði viðvíkjandi einstökum atriðum frv., þá vil ég taka það fram, að ég hefi ekki tíma til þess að svara því að neinu leyti og láta í ljós álit mitt á því.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Sk. Hann sagði ýmislegt skrítið hér áðan, sem ekki er tími til að dvelja lengi við. Hann sagði m. a., að stjfl. hefðu gert leynisamning. Mér er ókunnugt um það, að nokkur leynd hafi verið yfir þeim samningi. Hann var birtur í blöðunum og það var rætt um hann í opinberum útvarpsumr. Ég veit satt að segja ekki, hvaðan hv. þm. kemur þessi vizka. Þá talaði hv. þm. um það, að þetta mál væri ekki nógu vel undirbúið, vegna þess, að það hefði ekki verið borið undir þjóðina. Það hefir verið undirbúið á sama hátt og flest önnur þingmál; það er ekki venja að leggja þingmál undir þjóðina eftir að þau eru komin í frv.-form, heldur eru þau afgr. af þinginu, en það má segja, að þetta mál - eins og önnur stórmál - hafi verið lagt undir þjóðina við síðustu kosningar, og um leið og þjóðin gekk að kjörborðinu hafði hún aðstöðu til þess að taka afstöðu til málanna, með eða móti þeim. Þá vil ég taka það fram út af því, sem fram kom hjá þessum hv. þm. og fleirum, að það er ekki svo, að þessar tryggingar, sem hér um ræðir, séu allar lögboðnar. Það eru aðeins elli- og örorkutryggingar, sem eru lögboðnar, en atvinnuleysistryggingar eru hvergi lögboðnar. Það er misskilningur og röng málsmeðferð, að ganga út frá því, að hér sé verið að lögbjóða allar þessar tryggingar. Það er t. d. á valdi fólksins í hverjum hreppi, hvort það vill taka á sig þær fjárhagslegu byrðar, sem af þessum tryggingum leiðir. Sama er að segja um atvinnuleysistryggingarnar; hverju verklýðsfélagi eða hóp einstakra manna í hverri atvinnugrein er heimilt að segja til um það, hvort hann vill taka á sig þær byrðar, sem af þessum tryggingum hljótast. Þá var hv. þm. að tala um óánægju með tryggingarlöggjöf annara landa. Það eru vafalaust einhverjir óánægðir með þá löggjöf eins og aðrar löggjafir. Hann nefndi sérstaklega eina stétt, læknana. Það er hreint ekkert ólíklegt, að þeir séu óánægðir með sjúkratrygginguna, enda er hún ekki sett fyrir þá stétt fyrst og fremst.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði hér áðan og undirstrikaði rækilega, mér til ánægju, það, sem ég hafði um hann sagt, að hann væri manna grandvarastur í Sjálfstfl., þar sem hann sagðist ekki hafa orðið mikið var við, að sjálfstæðismenn segðu sitt á hverri stundu og sitt á hverjum stað. Þetta sýnir, að hv. þm. hefir gert sér far um að fara rétt með, því að það liggur í orðunum, að hann hefir orðið eitthvað dálítið var við þetta. Þetta er í samræmi við málflutning þessa hv. þm., sem stendur framar flestum sínum flokksbræðrum að þessu leyti.

Hv. þm. Vestm. talaði hér um hitt og þetta; m. a. hélt hann því fram, eins og hann gaf í skyn í dag, að ef framsóknarmenn greiddu atkv. með þessu frv., þá hlytu þeir að greiða atkv. með till., sem sósíalistar kynnu að bera fram síðar um viðauka við þessi lög og ýmislegt róttækara í þessu máli. Ég veit ekki, með hvaða rétti hv. þm. segir þetta; með sama rétti get ég sagt, að ef hv. þm. greiðir atkv. með tryggingunum, þá muni hann fikra sig upp á skaftið og greiða atkv. með öllum till. í þessu máli. - Skal ég svo láta staðar numið að þessu sinni, þar sem tími minn er á enda.