11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég vil gera hér nokkra grein fyrir nokkrum brtt. frá meiri hl. allshn. á þskj. 747. Hin fyrsta er við 7. gr. og er á þá leið, að í stað þriggja manna í tryggingarráði verði fimm. Þykir okkur þetta fela í sér meira öryggi. 2. brtt. er orðabreyt. þess efnis, að í stað orðanna „4500 kr., eftir að persónufrádráttur hefir átt sér stað samkv. skattalögum“ í 24. gr. komi: skattskyldar tekjur um 4500 kr. - 3. og 4. brtt. ákveða greinatölu.

5. brtt., við v. kafla, kveður nánar á um það, hverskonar félög sé um að ræða, og ennfremur er þar ákveðið, að atvmrh. skuli hafa eftirlit með starfsemi sjóðanna. Ætti það að vera næg trygging fyrir því, að ekki kæmist hlutdrægni að.

6. brtt. a—b er nánari skilgreining á 69. gr. Samkv. henni skal ákveða biðtíma með hliðsjón af venjulegum atvinnutíma í starfsgreininni á staðnum, og að menn skuli ekki að jafnaði eiga rétt til styrks úr sjóðnum fyrr en þeir hafa greitt iðgjöld í 6 mánuði. Þá er einnig svo ákveðið, að einhleypir menn hafi ekki rétt til styrks í janúar og desember, nema sérstaklega standi á og ráðh. samþykki.

Þá flytjum við hv. 1. landsk. brtt. á þskj. 761. 1. brtt. er við 40. gr. og miðar að því að rétta hlut sjómanna, á þann hátt, að hinn tryggði fái fullar bætur samkv. þessum lögum, þótt þær séu hærri en útgerðarmanni ber að greiða samkv. sjómannalögunum, í því tilfelli, er útgerðarmaður semur við sjúkrasamlag um að bera þá áhættu, sem útgerðarmenn bera samkv. 27. og 28. gr. l. nr. 41 1930. Við 43. gr. berum við fram þá brtt., að sjúkrasamlög megi lengja gjaldfrest iðgjalda um allt að tveim mánuðum. - Hinar brtt. eru ekki efnisbreytingar.

Um brtt. hv. þm. Snæf. er það að segja, að þær eru í raun og veru alveg í samræmi við mótbárur þær, sem hann kom með gegn frv. við 1. umr. Að vísu væri ástæða til þess fyrir mig að svara ýmsu, er þá kom fram af hálfu andstæðinga málsins, en þar sem orðið er mjög áliðið þings, vil ég ekki tefja málið með því.