05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það er vorkunn, þó að menn þeir, sem að frv. standa, reyni að klóra í bakkann og afsaka afslátt flm. og afgreiðslu n.

Ég ætla að fara aftan að siðunum og svara fyrst þeim, sem síðast talaði, hv. 9. landsk. Hann taldi afgreiðslu af hálfu n. ekki átöluverða. Hann hefir boðað brtt., er flutt skuli við 3. umr. Við það hefi ég ekkert að athuga. Það er heimilt. Hann hefir tekið þátt í afgreiðslu málsins í menntmn. Nú ætlar hann að bera fram brtt. við frv., svo að eitthvað hlýtur að vera í því, sem hann er ekki ánægður með. Ég býst við, að það sé eitthvað annað en það, sem hv. 2. þm. Árn. hafði við frv. að athuga, því að hans till. eru komnar. Ef hv. þm. hefði nú getið þess, hvaða atriði það eru, sem hann hefir hug á að breyta, þá hefðum við hinir átt auðveldara með að átta okkur á því, hvort málið myndi við þær breytingar taka þeim búningsbótum, að við gætum fallizt á þær. - Ég ætla, að ekki þurfi að fjölyrða frekar um hans ræðu, en það, að hann vildi mæla bót áliti menntmn., undraðist ég mjög, þar sem hann hefir lýst því yfir, að hann mundi flytja brtt. við frv. við 3. umr. Hlýtur frv. því að hafa eitthvað það í sér fólgið, sem hann telur athugunarvert og þurfi frekari breyt. en fram eru komnar í brtt. hv. 2. þm. Árn. Annars skiptir það litlu máli, en hitt er engin afsökun - og það veit ég, að hv. þm. mun samþ. með mér -, þá að hann kunni að vita einhver dæmi þess, að mál hafi fengið ennþá lélegri afgreiðslu í n. en þetta frv. hefir nú fengið hjá hv. menntmn. Ég veit, að hann er sammála um, að slíkan mælikvarða er ekki hægt að leggja á afgreiðslu mála.

Ég læt þetta svo nægja um ræðu hv. þm., en vitaskuld tek ég mér minn rétt til aðfinnslu, þegar eitthvað er vítavert.

Þá vil ég víkja að hv. 1. flm. þessa frv., hv. þm. Vestm. Vitanlega var ég alls ekki að vita, þó að frv. fylgdi ekki sú sama grg. og upphaflega, en ég benti aðeins á, að frv. þetta er nú allmjög öðruvísi í búningi en þegar það kom hér fyrst fram. Hann gat þess, að það gæti verið gott fyrir sýslufélögin að hafa þessi lög til að koma fram umbótum í héraðinu, og unglingarnir hefðu gott af að vinna fyrir námi sínu, og um það atriði get ég verið hv. þm. alveg sammála, að unglingarnir hafa ekki nema gott af því að vinna fyrir sér. En ég hefi ekki trú á því, að bæjarfélögin innleiði þessa reglu hjá sér. mér finnst sem ekkert bendi til þess. Og þá á þetta að vera fyrir sýslufélögin í landinu. Ég vil nú alls ekki ímynda mér, að ekki kunni að finnast sú sýslunefnd, er léti sér detta í bug að notfæra sér lög þessi, ef hún hefði hug á að framkvæma stórt og mannfrekt verk í héraðinu, en ég hefi miklu minni og enga trú á því, að kjósendurnir myndu vilja það. En setjum nú svo, að þetta yrði samþ. af 2/3 kjósenda, eins og frv. hefir ákvæði um, þá á 1/3 hluti kjósendanna að hlíta þeirri samþykkt. Ég held, að það sé meiri þvingun og ófrelsi en á sér nokkursstaðar dæmi í okkar löggjöf. Og mig hálfundrar á því, eftir öllu því lýðræðistali, sem á sér stað innan þingsins og utan, ef meiri hl. þm. vill leggja svo sterkar kvaðir á 1/3 hluta sýslubúa.

Viðvíkjandi námi unglinga hér yfirleitt í þessu landi, þá er það svo, að þeir vinna fyrir sér sjálfir að mestu leyti - og skal ég sízt lasta það eða finna að því, þó að þeir verði að vinna fyrir sínu brauði. Ekki sízt má segja það um þau ungmenni, er alast upp í sveit, þau eru vissulega ekki fleiri en svo, að nóg er handa þeim að starfa, og hélt ég, að þar væri frekar skortur á unglingum til vinnu heldur en hitt, að þau gengju atvinnulaus. Það gildir vissulega frekar um unglingana annarsstaðar en í sveitum landsins. Og ég hefi litla trú á, að þessi lög, þó samþ. yrðu, næðu til þeirra eða kæmu þeim að notum. T. d. þeir unglingar, sem eiga efnaða að, eru settir í skóla án þess að ákvæði þessa frv. nái til þeirra.

Þá sagði hv. þm., að brtt. hv. samþm. míns væru undan mínum rifjum runnar. Þetta er alls ekki rétt, en mér er ekki grunlaust um, að þær kunni að vera framkvæmdar svona fljótt m. a. vegna samtals, er við áttum í gærkvöldi út af afgreiðslu menntmn. á máli þessu. Er að þeim nokkur bót, en þær hreyfa þó ekki við aðalkjarna þessa frv., þeirri þvingun, sem samkv. frv. má beita og er óheyrð í okkar löggjöf.

Eftir því verðlagi, sem verið hefir á vinnu undanfarið, og þeim mælikvarða, sem er á vinnuafli nú, er fullgreitt með 7 vikna vinnu fyrir fæði og húsnæði yfir skólatímann, þar sem gert er ráð fyrir því, að öll kennsla sé ókeypis eða m. ö. o. kostuð af ríkinu. En þessar þvingunarráðstafanir koma harðast niður á þeim, sem meira en nægilegt verkefni hafa á heimilum sínum að vorinu til og oft eiga erfiðast um að sækja nám að vetrinum. Eins og sjá má af þessu frv., eiga svo þessir skólar alveg að vera á kostnað ríkisins, þar sem það á að byggja skólana, kosta kennsluna, og ef skólinn verður lagður niður, gefa sýslunum stofnunina.

Vel má vera, að mál þetta gangi nú til 3. umr., þar sem 9 manns eru nú orðnir við það riðnir, flm. og menntmn., sem nú hefir bætzt í hópinn. En ég vil beina því til hv. 9. landsk., ef hann flytur sínar brtt. og ætlast til, að málið nái hér fram að ganga, að hann geri þær rækilegar, svo rækilegar breytingar, að því sé gersamlega umturnað. - Ég vil svo gera það að till. minni, að málinu sé vísað til ríkisstj. Það er sagt, að þau mál, sem þangað komist, fái mjúka sæng, og þess ann ég frv. vel, það verðskuldar þá meðferð, og mun þá aldrei skjóta kollinum upp aftur.