05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

40. mál, iðnaðarnám

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það má þykja óviðkunnanlegt, að við sitjum hér margir úr þeirri stétt, sem upphafsmaður frv. telst til, og þegjum við þeim ákúrum, sem hér hafa flogið um frá þeim, sem nú vilja vera andstæðingar málsins, þegar það er komið í það horf, sem flestir gætu við unað.

Það er rétt, að Björgvin sýslumaður Vigfússon hefir barizt fyrir þessu máli um átta ára skeið. Það er ekki nýtt, að það kemur í þingið. Og hv. þm. V.-Húnv. hefir fyrr fengið tækifæri til þess að hella úr skálum reiði sinnar yfir þetta mál. Eins og ég hefi áður látið í ljós, hefi ég tilhneigingu til þess að fara vel með hæstv. forseta, en eftir það, sem nú hefir gerzt, verð ég að bæta því við, að ég kýs hann heldur sitjandi í sínum stól heldur en rjúkandi út í deild, þar sem hann fer svo að tala um mál eins og út úr hól, því að vissulega hefði hann haft tækifæri til þess að athuga málið og lagfæra það, ef hann hefði haft áhuga á því eða vilja til þess. Hann hefði getað reynt að koma vitinu fyrir flokksbræður sína í þessu efni, en hann hefir ekkert hirt um það. Allt í einu finnst honum þetta ekki mega svo til ganga lengur, og vill hann nú hætta sinni æru, sem hann áskilur sér sem forseti, til þess að vekja nokkra úlfúð um þetta frv., sem leit út fyrir um stund, að ná mundi fram að ganga með friðsemd.

Það má vitanlega segja, að hægt sé að deila um þetta mál, og sérstaklega mætti ég taka það fram frá mínum bæjardyrum, að ég kynni ekki að öllu leyti vel við það, hvernig frv. er úr garði gert, þar sem það gerir ráð fyrir nokkurri skylduvinnu. Ég hefi sem sé frá upphafi verið andmælandi þeirrar hugmyndar, sem felur í sér ótvíræða þegnskylduvinnu á öllu landinu á vissu árareki. Ég hefi ekki breytt um skoðun síðan, og tel ég ekki heppilegt að innleiða ótvíræða þegnskyduvinnu í landinu. Hinsvegar hefi ég grun um, að ýmsir þeir, sem nú telja sig þessu frv. andvíga, hafi áður fyrr verið ákafir í því að gera sitt til í því, að hugmyndin um almenna þegnskylduvinnu kæmist í framkvæmd, og er mér næst að halda, að hv. 1. þm. Árn. hafi einhverntíma fyllt þann flokk. Hann hefir sem sé verið með því fólki í stjórnmálum, sem hefir verið ginnkeypt fyrir þessari hugmynd í öndverðu. Hann hefir bæði starfað með framsóknarmönnum, sem einu sinni tóku þetta mál að sér, og hann hefir einnig verið með sósíalistum, sem líka hafa verið þessu máli hlynntir. Það er líklegt, að hv. þm. hafi breytt um skoðun á málinu, en þá vil ég mælast til þess, að hann greini frá því og segi ennfremur til um það, hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem eiga þá menn, sem mest börðust fyrir þegnskylduvinnu áður, hafa alveg borið þetta fyrir borð, svo að það líðist ekki neinum í þeim flokkum að tala um skylduvinnu framvegis. En hér í þessu frv. er ekki um almenna þegnskylduvinnu að ræða. hér er aðeins ætlazt til þess, að innleidd verði skylduvinna til þess að menn geti fengið að borga fyrir skólavist á eftir, þótt borgunin sé ekki greidd eftir kauptaxta eða í peningum, heldur í þess gildi. Eftir að frv. er orðið að lögum, ef það verður samþ., er hverju sýslu- og bæjarfélagi gefinn kostur á að koma á því fyrirkomulagi um lengri eða skemmri tíma, að unglingar vinni fyrir sér í skólanum. því fer fjarri, að þetta sé almenn þegnskylduvinna. Þótt menn þykist hafa reist marga skóla, sem sumir eru náttúrlega þarfir, en aðrir ekki, að mínu viti, þá tel ég þetta ekki raska því fyrirkomulagi, sem skapað hefir verið á skólakerfinu í landinu. Þetta er sem sé sérstakt mál, sem nær ekki yfir allt landið, og kemur því ekki til mála, að þetta samræmist almennu skólakerfi. Frv. felur aðeins í sér heimild til þess, að einn og einn staður geti komið á hjá sér því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, og þessi heimild er frá upphafi fastskorðuð við það, að þetta geti ekki komizt á, nema því aðeins, að meiri hlutinn í hlutaðeigandi héraði vilji gefa samþykki sitt til þess. Það er ekki þvingun, heldur fyrirkomulagsatriði. Enda þótt héraðsskólar séu komnir á nokkrum stöðum, þá eru þeir ekki ennþá komnir í öllum sýslum, og verður þess vafalaust langt að bíða, virðist því ekki rangt, að einni og einni sýslu gefist kostur á að reyna aðrar aðferðir til þess að halda skóla -aðferðir, sem hafa í sér fólgið töluvert mikið af þeim hugmyndum, sem ýmsir gera sér um það að ala upp landslýðinn á siðferðilegum grundvelli með vakandi tilfinningu fyrir því, hvað sé réttmætt og hollt. Það er ekki úr vegi, að menn fái að reyna rétta í staðinn fyrir að reyna venjulega skóla dýrum dómum, sem reknir eru enn dýrari dómum fyrir fjármuni, sem útborgaðir eru úr ríkissjóði og sumpart frá einstaklingum. En það er ætlazt til þess, að þeir skólar sem þetta frv. gerir ráð fyrir, beri sig á fólkinu sjálfu, sem sumpart greiðir með sér og sumpart vinnur fyrir sér. Það er því út í hött og eins og hæstv. forseti, sem annars er vanur að fylgjast vel með málum í sínum stóli, tali út úr hól, þegar hann segir, að þetta þekkist hvergi. En sé þetta fyrirkomulag gott, þá gerir í rauninni ekkert til, þótt þetta þekkist ekki annarsstaðar. Hér er sem sé ekki verið að tala um að demba yfir fólkið einhverju, sem ekki aðeins kostar mikið fé, heldur þvingar einnig viðskipti manna að svo miklu leyti, sem um frjálsræði í þessu efni getur verið að ræða. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Hæstv. forseti getur því með sérstaklega góðri samvizku verið með þessu, því að hér er ekki um almenna skyldu að ræða, heldur aðeins það, sem á að verða tilraun, sem menn í hverju héraði eru sjálfráðir um, hvort þeir vilja koma á hjá sér eða ekki. Ég hygg því, að hæstv. forseti hafi hlaupið á sig, og hann gerði vafalaust bezt í því, ef hann tekur aftur til máls, að draga dálítið úr þessu, og bezt væri, að hann vildi aðhyllast þetta, að því undanskildu, sem hann hefir við ákvæði frv. að athuga, og fellist á að leyfa málinu að ganga fram. Þetta er aðeins tilraun, og betra væri, að hann kæmi með brtt., en reyndi ekki að koma málinu fyrir kattarnef. En hann vill heldur, að málinu sé vísað til hæstv. stj., til þess að það fái þar dauðdaga. En málið hefir verið hjá hæstv. stj., en það tókst ekki að svæfa það. Það er því ekki til neins að reka það þangað aftur. Ef til vill eykst því þróttur með hverri ferð þangað, og er þá ver farið en heima setið fyrir þá, sem vilja senda það þangað. Ég man eftir því, að ég leyfði mér að geta þess lauslega um mál, sem hæstv. forseti var við riðinn, að slíkt mál væri bezt komið hjá hæstv. stj. og í n., sem hefði það svo lengi, að það fengi þar hægan dauða. Hann átaldi þetta mjög og taldi, að slíkt gæti alls ekki komið til mála. Hann hefir nú vegið í sama knérunn, og er þó minni ástæða nú fyrir hendi. Ég vil vona, að hann skjóti geiri sínum þangað, sem þörfin fyrir meiri er, og leyfi þessu máli að ganga fram, að því leyti sem hann getur stuðlað að framgangi þess. Það eru ýms ákvæði í frv., sem vel mættu taka breytingum, og ég efast ekki um, að þeir, sem hafa kynnt sér málið, vilji styðja að því, að sú breyting kæmist á, sem menn geti fellt sig við. En það mun nokkuð hafa dregið úr hv. flm. og nm. í menntmn. að gera rask á ákvæðum frv., með því að höfundur þess hefir látið það í ljós, að hann óskaði eftir því, að hugmyndin næði fram að ganga sem mest í þeim búningi, sem hún nú hefir fengið, og er að vísu ekki alveg sá upprunalegi, en höfundur mun þó reyna að sætta sig við hann. Hvort sem menn hugsa sér að breyta frv. eða tefja fyrir því, þá má ekki raska höfuðtilgangi þess, því að annars brýtur það í bága við till. og óskir þess manns, sem er höfundur þessa máls og helzt hefir barizt fyrir því utan þings.