05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

40. mál, iðnaðarnám

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mig furðar stórlega á þessum umr. Ég væri ekkert undrandi, þótt menn, sem ekki eru þingvanir, hreyfðu andmælum gegn málinu á þessum grundvelli, en þegar hæstv. forseti þessarar deildar rýkur úr forsetastóli til þess að hallmæla flm. málsins og þeirri n., sem hefir það til meðferðar, með þeim rökum, sem hann beitti, þá get ég ekki annað sagt en að það sé að verða sér til athlægis. Þetta mál er búið að liggja fyrir þingi eftir þing. Sá maður, sem hefir hugsað þetta mál og er hvatamaður þess, hefir barizt fyrir því með óvenjulegum dugnaði. Hann hefir hvað eftir annað komið til viðtals við þm. og setið um hvert tækifæri til þess að skýra málið fyrir þeim. Hann hefir flutt útvarpsfyrirlestur um málið milli þinga, og þeim fyrirlestri hefir nú verið útbýtt meðal allra þm. Ég get því ekki skilið, að á þingi sitji nokkur maður, sem á annað borð fylgist með þingmálum, sem ekki hefir fengið allar upplýsingar um þetta mál, sem hægt er að afla því til framdráttar. Þegar hæstv. forseti þessarar deildar gengur úr forsetastóli til þess að ámæla flm. fyrir það, að þeir hafi ekki prentað sérstaklega, langa grg. til ýtarlegrar skýringar á grundvallarhugsjón þessa máls og alla sögu þess frá öndverðu og allt til þessa dags, þó segi ég fyrir mitt leyti, að mig skortir orð til þess að lýsa slíku athæfi. Það ætti að vera hlutverk forseta að haga þannig þingstörfum, að málskraf yrði sem minnst. Þennan skilning lögðu hv. flm. málsins til grundvallar flutningi sínum, og það situr sízt á hæstv. forseta að ámæla þeim fyrir það. Það er jafnbroslegt, þegar hv. þm. V.-Húnv. rís hér upp og er með sömu andmæli í garð flm., því að hann er einnig maður, sem á langa þingsetu að baki sér, og veit hann því jafnvel og hæstv. forseti, hver er þingvenja í þessu efni. En þingvenja er náttúrlega bæði það, að leyfilegt er að flytja frv. greinagerðalítið, sérstaklega ef það hefir legið fyrir þinginu ár eftir ár, og eins hitt, að einstakir flm. og n. mælir með frv., hefir óskoraðan rétt um einstök ákvæði frv. Það hefir komið fyrir báða þessa þm., að þeir hafa áskilið sér fullan rétt til að bera fram brtt. Ég hefi setið með hv. þm. V.-Húnv. í fjh.n., og þar skrifaði hann undir slíkt mál. Ég get leitað að þessu, ef hv. þm. vill, en ég býst ekki við, að hann reyni að halla þar réttu máli. Og þetta er því broslegra, sérstaklega um hæstv. forseta, sem hefir átt því að venjast þing eftir þing, að borin hafa verið og barin fram mörg mál algerlega rökstuðningslaust, og sem þjóðarsmán er að samþ., án þess að hin minnstu mótmæli hafi komið frá honum. Sem dæmi get ég nefnt frv. um einkasölu á rafmagnsveitum og bifreiðum, sem knúið var fram á síðasta þingi og framborið án þess að sýna fram á, hverra tekna mætti vænta ríkissjóði til handa, ef samþ. yrði, eða hitt, hver áhrif l. hefðu á hagsmuni þess fjölda manna í landinu, sem höfðu lífsframfæri sitt af sölu þessara vara. Og þetta var því verra fyrir það, að hér var ekki um skylduframkvæmd að ræða, heldur heimildarlög, þar sem það var háð geðþótta einstaks manns, hvort þau yrðu framkvæmd að miklu eða litlu leyti. Þessum eina manni var lagt það í sjálfsvald að svifta hundruð og þúsundir manna sinni atvinnu, ef honum svo sýndist. Slíkt órökstutt lagafrv. sem rétta sætti engum mótmælum hjá hæstv. forseta og að því er mig minnir, ekki heldur frá jafnnýtum stjórnarandstæðingi sem hv. þm. V.-Húnv., a. m. k. stóð hann þar ekki framarlega meðal þeirra, er á móti frv. mæltu. Hæstv. forseti gætti þess eins gagnvart þessu frv. að telja samvizkusamlega sitt atkv. með frv. við hverja atkvgr. Ég get ekki litið öðruvísi á en að hæstv. forseti sé hér að reyna að gera þessum þjóðkunna sæmdarmanni, sem er upphafsmaður þessa frv., hneisu með sínum andmælum gegn því. Það á hann sannarlega ekki skilið. Fyrir honum vakir ekki annað en göfug hugsjón, sem hann hefir mikið barizt fyrir af áhuga og óeigingirni. Og ef allir gerðu sér jafnmikið far um það og hann að skýra fyrir Alþingi þau mál, sem þeir vilja fá það til að fjalla um, þá vil ég fullyrða, að þm. hefðu betri kunnugleika á þeim málum, sem fyrir þinginu liggja, heldur en nú gerist. Ég hefði ekki átalið það, þó frv. þetta hefði sætt málefnalegum andmælum hér í hv. d. vegna galla, sem á því hefðu þótt vera, en þegar sjálfur hæstv. forseti hefur slíka árás á málið sem hann hefir nú gert, þá verður hún ekki til þess að kasta skugga á hv. flm. þess eða hv. menntmn., heldur á hæstv. forseta sjálfan. Það þarf ekki fleiri rök fyrir því, að framkoma hæstv. forseta er óskemmtilega lík því að vera tilraun til þess að kasta rýrð á höfund frv., tilraun, sem þó mun hvergi komast nærri marki. Það er enginn maður hér á þingi svo óþingvanur að vita ekki, að það er algeng venja, að frv. fylgja oft stuttar grg., sem enda þannig: Nánar í framsögu. Ef hæstv. forseti er einn allra hv. þdm. svo minnislaus, að hann minnist ekki þess, þá vil ég benda honum á eitt frv., sem lagt er fram í þessari hv. d. í dag, ég ætla nú ekki að fara lengra aftur í söguna, og flm. þessa frv. eru Bjarni Bjarnason og Jörundur Brynjólfsson, sem mun vera hinn sami Jörundur Brynjólfsson og skipar forseti hér í hv. d. Þetta frv. er um breyt. á l. um skipun barnakennara. Það er ekki langt að lesmáli, en þó er það svo, að það kostar mig nokkra fyrirhöfn að afla mér þeirra upplýsinga, sem vel hefðu getað falizt í grg. frv., en grg. er aðeins þrjár línur, og hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Frumv. þetta er flutt í samræmi við ályktanir síðasta fulltrúaþings Samb. ísl. barnakennara og flutt í samráði við stjórn S. Í. B.“- Ég veit nú ekki einu sinni hvað það er. - „Frumvarpið sker úr og ákveður nánar um ýms atriði viðvíkjandi skipun barnakennara. Nánar í framsögu“. - Þetta litla frv. og grg. þess er nánari sönnun fyrir þeim skrípaleik, sem hæstv. forseti leikur gegn því frv., sem hér er til umr. Frv., sem er með eindæmum vel undirbúið af hugsjónamanni, sem fyllilega á skilið, að mál hans fengi kurteisar viðtökur og málefnalega meðferð. Sá hugsjónamaður á að fá það viðurkennt, að mál hans er fram borið af óeigingjörnum áhuga, en það er annað og meira en hægt er að segja um mörg þau mál, sem verið er að smeygja inn í þingið. Í staðinn fyrir það, að unna þessum heiðursmanni þessa sannmælis, fer hæstv. forseti að ómaka sig úr forsetastólnum til þess aðeins að varpa rýrð á þennan heiðursmann.