12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Þar sem nú hv. 9. landsk. hefir lýst brtt. þeim, sem hann og annar þm. eiga á þskj. 502, vil ég taka það fram, til áréttingar því, sem ég sagði áðan, að þó að það væri mikilsvert að fá ókeypis vist og kennslu, þá er þó breytingin, sem í þessu felst, of mikil. Það er sitt hvað, að fá ókeypis húsavist og kennslu eða vist og kennslu, þó að þessi breyt. væri æskileg með tilliti til fátækra manna, þá er hún þó of dýru verði keypt með öðru ákvæðinu í sömu málsgr., þar sem skylduvinnutíminn er lengdur upp í 4 mánuði að sumarlagi, í stað 7 vikna að vorlagi. 4 mánuðir að sumarlagi er of langur tími fyrir heimili, sem senda ef til vill öflugasta starfsmanninn frá bænum, langt fram á slátt, til þess að ég geti léð þessari till. fylgi mitt. Ég veit, að almenningur bænda, sem vera myndi þessari hugmynd hlynntur, hlyti að snúast gegn henni, ef þetta yrði samþ. Þetta er svo mikilsvert atriði fyrir mér, að ég veit ekki, hvort ég gæti léð frv. fylgi mitt, ef þessi breyt. yrði á því gerð.

Í viðbót við það, sem ég sagði áðan, vil ég benda á það, að ég álít skynsamlegra, að ríkið greiði stofnkostnað og rekstrarkostnað en hitt, líka af því, að það mun að jafnaði vera bezt, að Alþingi skeri á hverjum tíma úr því, hvort til sé fé til þessara framkvæmda. Álít ég, að bezt fari á því, að þetta sé sem mest í höndum löggjafarvaldsins. En ef stofnkostnaður fellur að hálfu leyti á ríkissjóð, en að hálfu leyti á sýslu- eða bæjarfélög, þá er meiri hætta á ýmsum töfum um framgang málanna. Eftir öllum grundvallarreglum um meiri háttar aðgerðir sýslu- og bæjarfélaga, er það löggjafarregla, að þau sæki upp fyrir sig til löggjafarvaldsins, sem á að skera úr um það, hvort framkvæmdin er möguleg eða ekki.

Þetta er mér svo mikils virði, að ef samþ. verður þessi mikla lenging skylduvinnunnar og það, að helmingur stofnkostnaðar falli á bæjar- og sýslufélög, þá er ég óviss um, að ég geti greitt atkv. með frv.