05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að fara örfáum orðum um þær brtt., sem hér liggja fyrir. Ég hefi þegar mælt fyrir brtt. á þskj. 674. Þá er brtt. á þskj. 687, frá hv. 2. þm. Rang. Um fyrri till. vil ég segja það, að ég sé ekki ástæðu til þess, að hún sé samþ., og legg á móti því, af þeirri ástæðu, að eins og gengið er frá frv. nú, er það ljóst tekið fram, að bæjar- og sveitarsjóðir fái aðeins helming af þeim viðauka, sem næst með frv. þessu. En með brtt. er gengið inn á þá braut, að bæjar- og sveitarsjóðir skuli fá vissan hluta af öllum tekjuskattinum, og af því ég vil ekki ganga inn á það, að bæjar- og sveitarsjóðir fái einn eða neinn hluta af þeim tekjuskatti, sem áður var, þá legg er á móti þessari brtt. hv. 2. þm. Rang. Brtt. á þskj. 674 á að verða til þess að gera miklu auðveldari framkvæmd skiptingarinnar heldur en hún var eins og frv. er í fyrstu. Við höfum athugað þetta hér í skattstofu Rvíkur, og ég held, að ekki verði mikil aukavinna við útreikning þessa nýja skatts og skiptingar hans.

Að a-lið 2. brtt. kem ég síðar, en b-liður þeirrar till. legg ég til, að verði samþ.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 693. frá hv. 5. landsk., sem er um að ýmsar vörur verði felldar undan gjaldinu, og færði hv. þm. ýms rök fyrir þessum brtt. Ég veit ekki, hvort ég endist til að fara yfir alla liðina, en mun þó minnast nokkuð á flesta þeirra.

Um fyrstu tvo liðina er það að segja, að þeir eru hafðir í þessum 5% flokki vegna þess, að þó ýmsar vörur, sem þar eru taldar, séu nauðsynlegar, þá er innkaupum þeirra þannig háttað, að tiltölulega lítið er keypt árlega og kemur létt niður, þótt lítið gjald komi á þær. Um hreinlætisvörurnar er það að segja, að ýmsar þeirra eru framleiddar í landinu sjálfu, og virðast góðar. Um kaffið og sykurinn vil ég vísa til þeirra röksemda, sem komu frá hv. 4. landsk., þegar málið var til 1. umr. Það verður að teljast, í þeim gjaldeyrisvandræðum, sem nú eru hér, að eðlilegt sé, að innlendar vörur komi að einhverju leyti í staðinn fyrir þessa vöru og þess vegna sé ekki eins slæmt, þó innflutningsgjald sé sett á hana. Núv. stjórnarflokkar lækkuðu kaffitollinn í fyrra, svo að hann verður nú með þessari viðbót lægri en hann var áður. Ég man ekki, hvort hv. 5. landsk. var með því í fyrra að fella þetta gjald niður, en yfirleitt voru stjórnarandstæðingar á móti því. Ég er meðmæltur því að olíulampar séu felldir niður, og mun stafa af vangá, að það hefir ekki verið gert. — Um þvottaefni og annað tilheyrandi þvottinum vil ég segja svipað og ég sagði um a- og b-liðina; sumpart kaupir almenningur lítið af þessari vöru og sumpart eru þær innlend framleiðsla.

Um 2. tölul., þar sem talað er um fatnað, band, garn o. fl., get ég ekki verið sammála því, að þetta sé fellt niður, m. a. vegna þess, að ef á að leggja á aðflutningsgjald, þá er ekki ósanngjarnt, að það komi á þennan varning, vegna þess að nú er hægt hér í landi að framleiða mikið af þeim fatnaði, sem nauðsynlega þarf. Þó menn vilji kaupa sér tízkuföt úr útlendu efni, þá er hægt að mestu að komast hjá slíku, ef menn vilja. — Sama er að segja um band og garn.

Um tvinnann er það að segja, að þar get ég mælt með því, að hann sé felldur undan. Það er rétt, að þó menn saumi úr innlendu efni, þá verður að næla því saman með tvinna. — Um d-liðinn er sama að segja; ég get fallizt á, að þær smávörur, sem þar um ræðir, falli niður, með tilliti til þess, að þær þarf að nota þótt saumað sé úr innlendu efni. Kakaó, krydd og sagó tel ég hliðstætt við kaffi og sykur.

Um skófatnað er það að segja, að eins og frv. ber með sér, er færður yfir í 2% flokk allur skófatnaður úr gúmmí, sem vinnandi fólk notar mest, en um annan skófatnað vil ég segja það, að eftir því sem verzlunarálagningin er á skófatnaði, þá er ekki óeðlilegt, þó ríkisstj. sumpart vilji ná hluta af þeirri álagningu til ríkissjóðs og sá skófatnaðurinn, sem fátæka fólkið notar mest, er gúmmískófatnaður.

Þá kem ég að 4. tölul., sem er um ávexti og grænmeti. Ég er mjög eindregið á móti þeim till. öllum, sem þar eru bornar fram, því ég sé ekki, að nauðsyn sé fyrir landsmenn að kaupa eins mikið inn af ávöxtum og gert er. Þeir, sem vilja kaupa þá, verða að greiða þetta gjald. Hv. 5. landsk. talaði um þá miklu hollustu í sambandi við notkun þeirrar vöru. Ég efast ekki um, að þeir eru hollir, en það má fá marga innlenda fæðu eins holla og þessa ávexti og nota hana í staðinn, ef menn vilja koma sér hjá að greiða þetta gjald. — Ég sé ekki ástæðu til að fella niður grænmeti, eins og nú er háttað hér, því grænmeti er hægt að rækta hér á landi, og þetta gjald mundi geta orðið til þess, að menn hættu að kaupa útlent grænmeti og ykju því framleiðsluna í landinu sjálfu.

Þær vörur, sem nefndar eru á 5. tölul., get ég ekki fallizt á, að séu felldar niður. Ég get sagt það, að þó það sé að sumu leyti nauðsynlegt að flytja inn músikvörur og hljóðfæri, verður að telja, á þessum tíma, annað nauðsynlegra, og er rétt, að þeir, sem geta veitt sér slíkan innflutning, greiði um leið gjald til opinberra þarfa.

Það eru þá tveir liðir, sem ég legg til, að verði samþ.: d-liður í 1. till. og d-liður í 2. till. En nú er það eins og hv. 5. landsk. sagði, að tvinninn er í tveimur stöðum í frv., en í till. þessum aðeins tekinn burt á öðrum staðnum. Það þarf því að flytja brtt. við 3. málsgr. um það, að orðin „tvinni allskonar“ falli burt, og leyfi ég mér að flytja skrifl. brtt. um þetta, til þess að tryggja, að allur sá smávarningur náist út úr frv. Ég mun afhenda hæstv. forseta þessa till., þegar ég hefi lokið máli mínu.

Um hina skrifl. till. hv. 1. þm. Reykv. skal ég taka það fram, að ég vil leggja til, að hún verði samþ. Ég tel sjálfsagt að fella undan gjaldi þann varning, sem til Sogsvirkjunarinnar fer samkv. fyrir fram gerðum samningi.

Þá vil ég minnast á ræðu hv. þm. N.-Ísf. Hún var mjög almennt um málið eins og það liggur fyrir, og ætla ég ekki að fara út í það að rekja hana, en hann sagði, að sér virtist af þeim gögnum, sem fyrir lægju, að verulegur hluti af þessum gjöldum væri lagður á að óþörfu, því eftir afgreiðslu á fjárlagafrv. væri gert ráð fyrir 145 þús. kr. tekjuafgangi, og þá mundi ekki þurfa að fá þetta gjald. Út af þessu vil ég taka það fram, eins og tekið er fram á áliti fjvn., að það er álit mitt, að það þurfi að lækka tekjuáætlunina a. m. k. um 300 þús. kr., og hefir mikið verið um það rætt í fjvn. Þá vil ég og benda á, að ekki var búið að taka inn ný framlög, sem samþ. verða á þessu þingi, og tel ég, að þau muni verða um 855 þús. kr., og er þá 710 þús. kr. halli á frv., sem ég held, að þurfi að vega upp. Auk þess koma þær hækkanir, sem verða á frv. við 2. og 3. umr., og mun ekki of í lagt, að það verði á milli 1—2 hundr. þús. kr., og útkoman er þá sú, að það vantar tekjur fyrir þeim gjöldum, sem sett verða í frv. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara út í ræðu hv. þm. N.- Ísf.; hún var almenn ádeila á þá fjármálastefnu, sem fram kemur í frv. Því hefi ég svarað á öðrum vettvangi, og það er komið í þingtíðindin, svo ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka nokkuð af því.