05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 4. landsk. fór hér með þær blekkingar, að tollarnir yrðu ekki hærri eftir en áður, þótt frv. yrði samþ. Þetta rökstuddi hann með því, að tollarnir næmu ekki hærri hundraðshluta af ríkistekjunum heldur en áður. En auðvitað er það öllum heilvita mönnum ljóst, að auknir tollar hækka vöruverðið, og ekki aðeins sem svarar því, er tollinum nemur, heldur kemur einnig álagning á tollinn, vegna áhættu við að lána tollskyldar vörur, innheimtu o. s. frv. Ég hefi sýnt, að ef þetta nær fram að ganga, kemur 20% tollur á allar innfluttar vörur, og þegar þar við bætist 50% álagning, nemur þetta 30% á öllum innfluttum vörum.

Og svo er bætt gráu ofan á svart með þeirri ósvífni í grg., að halda því fram, að þessu fé eigi að verja til atvinnuveganna, þótt fjvn. hafi þegar tekið upp í fjárlfrv. öll áætluð útgjöld til þeirra. Ég vek nokkuð að þessum ósvífnu blekkingartilraunum í gær, og mun það koma fyrir almenningssjónir. Hæstv. fjmrh. og hv. 4. landsk. fundu, að þeir gátu ekki svarað rökum mínum og flúðu því inn í Nd. Ég hefi því viljað endurtaka þetta í fám orðum nú, af því að ég sé, að þessir herrar eru nú hér í deildinni.