17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Sigfús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. og hv. 7. landsk. hafa nokkuð vikið að því, að þessari brtt. skuli hafa verið hnýtt aftan við frv. á síðustu stund, og töldu það dæmalaust. Hæstv. fjmrh. hefir nú sent fram á að þetta er ekki einsdæmi, heldur hafi það oft verið praktiserað hér á þingi, og það í talsvert mikilvægum málum.

Hv. 7. landsk. sagðist vera á móti þessu frv., og hann sagði, sem ég býst við, að hafi verið mismæli hjá honum, að benzínkostnaðurinn mundi vaxa um helming. Þetta getur ekki staðizt; hækkunin getur orðið 10-12% í mesta lagi.

Hv. þm. Vestm. vildi láta benzínskattinn koma til góða þar, sem hann væri greiddur. Ef ætti að búta hann þannig niður, þá mundi hann verða að minna gagni en ella. Ef t. d. Skagafjörður fengi ekki meira til vega en þennan viðauka, 4 aura á lítra, þá yrðu menn þar ekki ánægðir með viðhald og nýbyggingar á vegum. Það er sýnilegt, að ef á að vera hægt að halda við og bæta við vegi í jafnvíðlendu og strjálbyggðu landi og hér, þá verðum við að hafa yfir miklu fé að ráða, miklu meiru en við getum staðið undir, ef ekki verður létt undir með þessum benzínskatti, því að það eru einmitt bílarnir, sem skemma vegina mest, og þess vegna er kostnaður við vegina miklu dýrari en ella. En eftir því sem vegirnir verða betri, verður benzínkostnaður bílanna minni, svo að ég hygg, að sá kostnaður muni ekki, þegar frá líður, stórum vaxa þrátt fyrir þessa hækkun á skattinum.

Skýrslan frá vegamálastjóra sýnir, að benzínskatturinn t. d. í Ítalíu er 50 aurar. Hvers vegna er hann svo hár? Vegna þess að það er lagt kapp á að bæta bar vegina sem mest, og ég efast um, að rekstrarkostnaður bílanna hafi vaxið að sama skapi og hann sé ef til vill ekkert meiri en áður en vegirnir bötnuðu og þegar benzínskatturinn var lítill eða enginn. Býst ég við, að svo muni fara einnig hér.

Ég sé, að hv. þm. G.-K. er kominn í d. Hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykv. hafa nú reyndar svarað honum, en það var þó eitt, sem ég skildi ekki vel, en það var samanburðurinn á benzínskattinum nú eða eins og hann átti að vera samkv. þessu svonefnda „litla og ljóta“ frv., og hvað hann væri margfalt meiri nú. Hann gerði ráð fyrir, að hann væri 20-25-falt hærri nú en þá. En þegar farið er að bera þetta saman, þá verður að taka tillit til þess, hvað margir bílar voru þá og eru nú og hve mikil benzíneyðsla, því að það er það, sem kemur málinu við Þó að t. d. heildarupphæð benzíntollsins tífaldist, þá er skatturinn ekkert hærri, ef benzínsalan hefir tífaldast. Þetta vildi ég benda á, því að allt veldur á því, hvernig hlutfallið er að þessu leyti.

Hv. þm. Vestm. er ekki viðstaddur, og þykir mér það slæmt, því að ég vildi svara þeirri spurningu, sem hann lagði fyrir mig, hvort ég teldi mig dómbærari en lækna um hollustu ávaxta og grænmetis. Það er síður en svo, að ég telji mig dómbærari en lækna í þeim sérstöku læknavísindum. En ég vil þó segja það, að þessi fæða er ekki eins nauðsynleg og margir halda, og það byggi ég á reynslunni. Til sveita er mjög lítils neytt af þessari vöru, og ég held, að fólkið í sveitum sé þar engu síður heilsuhraust. Það er reynsla, sem ég byggi eins mikið á og því, sem læknisfróðir menn segja um þetta.

Þá er það um þessi vítamín. Það má vera, að það sé fávizku minni að kenna, en mér er kunnugt, að þessar vitamínkenningar eru hálfgert „humbug“ að miklu leyti. Ég get ekkert fullyrt um það, en ég býst við, að reynslan leiði það í ljós.

Þá spurði hv. þm. mig um það, hvort ég teldi ekki rétt, að benzínskatturinn tilfelli þeim stöðum, þar sem hann væri greiddur. Ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á það og mun því ekki greiða því atkv. Ég get ekki fallizt á, að hver fari þar að toga í sinn skækil hvað þetta snertir. Ég býst við, að þá sæist lítið eftir af því gagni, sem af þessu átti að hafa. Ef t. d. Ísafjörður, Akureyri og öll kauptún vildu fá sinn hluta af skattinum, þá efast ég um, að mikil stórvirki sæust. Það er heppilegra að láta þetta fé fara til færri staða, og þá sérstaklega þeirra, þar sem þörfin er mest, en hinsvegar sé hægt að veita af öðrum tekjum ríkissjós fé til þess að halda við vegum úti um land, því að ef þessi benzínskattur ætti á falla niður, þá er ég hræddur um, að lítið yrði um viðhald á vegum úti um land. (JJós: Þið eruð ekki á þeirri leið að fella benzínskattinn niður). Eftir því sem vegirnir vaxa, þá er meira viðhald, og sá kostnaður vex ár frá ári. Ég hugsa, að t. d. vegamálastjóri haldi því fram, að viðhaldskostnaðurinn fari hraðvaxandi og meiri þörf sé á fé til viðhalds nú en nokkru sinni áður.

Hv. þm. Vestm. álítur ávexti nauðsynjavöru, en ég tel þá mest lúxusvöru og get því ekki lagt til að ívilna henni meira en öðrum vörum. Þess vegna er ég andvígur þessari brtt. hans.