20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Klauflaxinn er nú kominn hingað aftur, og hefir ekki rýrnað við það, að vera hengdur upp í Nd., því að nú er hann víst 1/3 gildari heldur en þegar hann fór héðan. Hér er boðið upp á aukinn tekjuskatt, aukna tolla og loks stórfelldan benzínskatt í ofanálag. - Ég vil nú í nokkrum orðum gera grein fyrir því, hvernig ég lit á þetta mál.

Um tekjuskattinn voru sett ný lög á síðasta þingi. Þá var hann hækkaður mjög mikið, enda var þá almennt álitið, að hann væri kominn í hámark, og við stjórnarandstæðingar töldum með góðum rökum, að hann væri kominn þar yfir. En alstaðar kom það fram, og ekki sízt hjá fjmrh., að nú væri búið að spenna bogann svo hátt sem hægt væri. Jafnvel sósíalistar, sem annars vilja alstaðar hafa tekjuskattinn sem hæstan, hafa ekki gengið svo langt þar, sem þeir eru við völd, t. d. í Danmörku og Svíþjóð. Þess er að gæta hjá okkur, að hér er ekki aðeins um þann tekjuskatt að ræða, sem fer í ríkissjóð, heldur er lagður á jafnhár eða hærri tekjuskattur, sem rennur í bæjar- og sveitarsjóði. Útsvörin, sem eru hér hin eina tekjulind bæjar- og sveitarsjóða, eru eingöngu tekju- og eignarskattur. Og þegar þetta hvorttveggja er tekið saman, verður reynslan sú, að tekjuskatturinn verður hærri hér en nokkursstaðar í öðrum löndum.

Þrátt fyrir þetta höfum við verri ástæður en nokkur þjóð önnur til þess að leggja á háan tekjuskatt. Hár tekjuskattur er hreint og beint hættulegur vegna fátæktar þjóðarinnar. Hið auðuga England hefir ekki treyst sér til að ganga eins langt og við í þessum efnum, þótt það ráði yfir svo miklum auðæfum, að það er í vandræðum með að ávaxta þau. Háir skattar vinna á móti myndun íslenzks kapítals, sem okkar fátæku þjóð er lífsnauðsyn, en ýta hinsvegar undir eyðslu, þegar allt, sem afgangs verður, er tekið í skatta.

Stjórnarflokkarnir álitu í fyrra, að þeir hefðu spennt bogann eins hátt og hægt var. Hefir þá hagur atvinnuveganna batnað síðan í fyrra? Ekki held ég, að neinn haldi því fram. Atvinnuvegunum hefir hrörnað síðan og erfiðleikarnir vaxið, einkum þó hjá stærsta atvinnuveginum, sjávarútveginum, og fara enn vaxandi. Nú er að vísu sagt, að þessi skattaukning komi ekki niður á aðalatvinnuvegunum, þar sem þeir séu reknir með tapi. En öllum má þó vera ljóst, að nýjar álögur á einstaklinga koma óbeint niður á atvinnuvegunum og minnka möguleika manna til þess að leggja fé í þá, og verða á þann hátt til að draga úr atvinnurekstri og atvinnu í landinu.

Ég fæ ekki sets, að neitt það hafi gerzt síðan í fyrra, sem réttlæti svo gífurlega hækkun á tekjuskattinum sem hér er áformað. Stjórnarflokkarnir hafa hér það vígorð, að með þessu sé verið að taka af þeim ríku handa þeim fátæku. Það getur verið þægilegt að slá þessu fram, - en hvað mun þeim fátæku finnast um þetta? Reynslan hefir sýnt, að tekizt hefir að gera efnamennina fátæka, án þess að kjör fátæklinganna hafi batnað. Afleiðingin hefir orðið sú, að atvinnuvegirnir hafa komizt í kreppu, atvinnulífið dregizt saman, atvinnuleysið aukizt, - og á hverjum skyldi það bitna tilfinnanlegar en fátæklingunum?

Það eru litlar líkur til þess, að marga fýsi að leggja fé sitt í fyrirtæki, þegar um það tvennt er að velja, að féð tapist, ef illa gengur, en að ágóðinn verði allur tekinn í skatta, ef vel gengur. Menn eru nú einu sinni svo gerðir, að þeir vilja ógjarnan hætta fé sínu án vonar um einhvern vinning. Fæstir munn vilja leggja það í hættu með það eitt fyrir augum að afla ríkissjóði tekna, einkum þar sem það er álit margra, að fé ríkissjóðs sé illa varið. Sumir munu kannske segja, að útfærsla atvinnuveganna sé þýðingarlaus á þessum tímum, einkum vegna þess, hve markaðir hafa þrengzt og brugðizt. Þetta er að sumu leyti rétt, a. m. k. virðist vorkunnarvert, að auka saltfisksframleiðsluna eins og stendur. En þó eru til enn ýms fyrirtæki, sem gætu blómgast, ef sæmilega væri við þau búið af ríkinu. Einkum á þetta við iðnaðinn, sem enn stendur að vísu lágt, en er þó í framför. Þann atvinnurekstur væri möguleiki til að auka, jafnvel í stórum stíl, - en hver vill hætta fé sínu án þess að eiga nokkurs vinnings von?

Ég álít því hækkun tekjuskattsins hið mesta óráð og hefi sýnt fram á, að hann stofnar jafnvel þeim atvinnuvegum og einstaklingum í hættu, sem hann kemur ekki beinlínis niður á. Atvinnuvegirnir dragast saman og atvinnuleysið eykst, en því megum við sízt við á þessum tímum. En svo sorglega hefir tekizt um ráðstafanir stjórnarflokkanna, að þær virðast allar miða að því að auka atvinnuleysið. Enda hefir það komið í ljós, að atvinnuleysið hefir síaukizt, þrátt fyrir vaxandi skattaálögur í þeirri góðu meiningu að minnka það.

Næsti liður eru háir tollar á flestar eða allar nauðsynjavörur, sem þorri manna verður að nota í smærri eða stærri stíl. Afleiðingin getur ekki orðið annað en almenn verðhækkun. En af almennri verðhækkun hlýtur það að leiða, að kaup verður að hækka, eða möguleikar til þess að það lækki minnka. En nú er það á allra vitorði, að atvinnuvegirnir þola ekki það kaup, sem nú er greitt, hvað þá meira. Það má því vera öllum ljóst, að hér er stefnt til eyðileggingar, bæði fyrir atvinnurekendur og atvinnuþiggjendur. Atvinnuvegirnir leggjast í rústir, - og hvar á þá að taka kaupið?

Nú þegar eru horfurnar þannig að ef engar utanaðkomandi breytingar verða, er ekki annað sýnna en algert hrun vofi yfir. Og þótt ekki nema ein grein atvinnuveganna, togaraútgerðin, hrynji í rústir, yrðu afleiðingarnar ægilegri en svo, að ég vilji um það tala. En allar ráðstafanir sem þessar eru nýir steinar í götu hinna hrörnandi atvinnuvega. Og þessir steinar eru lagðir í götu þeirra vitandi vits hjá sumum, þótt skilningsleysi kunni að ráða um hjá öðrum.

Þá kem ég að benzínskattinum. Hæstv. fjmrh. var að leitast við að sýna fram á það, að þetta væri réttlátur skattur og ekki tilfinnanlegur, enda væri hann þrefalt hærri víða annarsstaðar. En þetta er sú mesta rökvilla, sem hugsazt getur, og aðeins vísvitandi blekking. Alstaðar annarsstaðar er benzínskatturinn verðtollur til að vernda járnbrautirnar, sem víðast hvar eru reknar eða studdar af ríkinu. Hér er ekki um önnur flutningatæki en bíla að ræða þar, sem skipaferðum verður ekki komið við. Og jafnvel þótt bílar einir væru notaðir til flutninga erlendis, væri þessi röksemdafærsla ráðh. alveg fráleit. Útlendingar, sem hingað koma, eru alveg hissa á því, hvaða vegleysur bílarnir hérna komast, og að líkindum eru hér einhverjir lökustu bílvegir í heimi. Benzíneyðslan verður því meiri hér en nokkursstaðar erlendis.

Hæstv. ráðh. sagði, að erfiðleikar atvinnuveganna réttlættu þennan skattauka. Ráðið til þess að útvega fólki atvinnu væri að auka opinberar framkvæmdir, og til þess ætti að verja þessum skatti. En hvar kemur þessi skattur niður, nema á atvinnuvegunum? Að vísu kemur hann að einhverju leyti niður á skemmtiferðafólki, en langmestur hluti hans lendir auðvitað á landbúnaði og sjávarútvegi. Þetta er því næsta einkennileg lækning við atvinnuleysinu, og ef hún dugir, þá er ekki eins mikill vandi að stjórna fjármálum ríkisins og margir halda.

Ef nánar er athugað, hvernig þessi skattur kemur niður, sest strax, að harm kemur þyngst niður á þeim, sem erfiðast eiga um aðflutninga. Þannig hefir allt Suðurlandsundirlendið enga möguleika til flutninga að og frá nema á bílum, þótt nú sé að vísu vörum skipað upp á Eyrarbakka. Vegalengdir eru miklar þarna og aðdrættir líklega dýrastir á öllu landinu. Er það þá réttlæti, að leggja fram fé til strandferða fyrir önnur héruð, en skattleggja þessi héruð, sem verða eingöngu að bjargast við landflutninga?

Nú á að rétta þessum héruðum þá dúsu, að stofna til vegagerðar á Hellisheiði, sem að vísu er lífsnauðsyn. En engin trygging er fyrir því, að fjárveitingin til Hellisheiðarvegar haldizt, þótt benzínskatturinn haldizt, sem hann gerir vafalaust, meðan núv. stjórn er við völd. Auk þess er það ekki nýtt, að skatti sé lofað til ákveðinna framkvæmda, en síðan látinn renna beint í ríkissjóð. Það hefir einmitt komið fyrir um benzínskattinn áður. Áður en farið var að gera slitlagið, var l. breytt og gjaldið látið renna í ríkissjóð. Ætli það geti ekki farið eins á næsta þingi, að það komi fram frv. um bráðabirgðabreyt. á benzínskattinum á þann hátt, að hann verði allur látinn renna óskiptur í ríkissjóð, til þess að stj. geti haft meira fé milli handanna til þess að leika sér að á ýmsan hátt? Það er ekki ólíklegt.

Ég verð því að segja það, að þó að ég hafi átt úr dálítið vöndu að ráða í þessu efni, vegna þess, að mér er það ljóst, hversu nauðsynlegt er, að byrjað sé á þessari vegagerð, þá hika ég samt ekki við að greiða atkv. á móti þessu frv. Ég álít, að íbúar Suðurlandsundirlendisins eigi fullan rétt á því, að samgöngum við Rvík sé komið í viðunandi horf án þess að vera skattlagðir sérstaklega. Og þessi réttur þeirra er vitanlega þeim mun meiri sem það er engu síður nauðsynlegt fyrir Rvík, að þessum samgöngum sé komið í sæmilegt horf.

Það var nú, sú tíð, að stjórnarflokkunum fannst ekki mikið til um svipaða löggjöf eins og þessa, sem hér liggur nú fyrir. Það kom einu sinni fram frv. um benzínskatt, sem ekki var nema 1/3 partur af því, sem nú er gert ráð fyrir, og var það þá kallað „litla ljóta frv.“ Síðar kom fram annað frv., að tilhlutun framsóknarmanna, um benzínskatt, sem ekki var nema helmingurinn af þessum skatti, sem hér er um að ræða, og ætluðu þá jafnaðarmenn hér á þingi alveg æfir að verða og fannst þetta vera einhver hin svívirðilegasta löggjöf, sem nokkru sinni hefði verið gerð tilraun til þess að setja. Hvaða breyttu viðhorf eru það, sem réttlæta setningu þessarar löggjafar nú? Það er kannske það, að síðan er búið að leggja svo marga nýja skatta og margfaldar álögur á menn. Það er þá eftir reglunni, að það muni ekki um einn kepp í sláturtíð.

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um það í lok sinnar ræðu, að það væri vitanlega mismunandi, hvað mikið mætti innheimta af tollum og sköttum, og það færi eftir því, til hvers þeir væru notaðir. Hann hafði náttúrlega hreina samvizku um það, hvernig tekjum ríkissjóðs hefir verið varið á undanförnum árum, og gat því talað djarft. Honum datt ekki í hug, að skiptar skoðanir gætu verið um það. En þar að auki er það svo, að þessi kenning hæstv. ráðh. er nokkuð vafasöm. Sannleikurinn er sá, að þegar verið er að leggja nýja skatta á þrautpínda atvinnuvegina, þá skiptir það í raun og veru ekki svo miklu máli í svipinn, til hvers skattarnir eru notaðir. Það kemur jafnsárt við þá, sem skattana eiga að greiða, hvort þeir eru notaðir til nauðsynlegra eða ónauðsynlegra hluta.

Ég þykist þá hafa leitt rök að því, að eins og hag atvinnuvega landsins er komið, þá þola þeir ekki neina nýja skatta. Þessi gífurlega skatthækkun, sem hér er um að ræða, er því hrein og bein morðtilraun við atvinnuvegi þjóðarinnar.