16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

133. mál, framfærslulög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Mér finnst æskilegt, að hv. þd. vildi snúa sér með alvöru að lausn þessa máls. Ég hygg, að hér sé mál, sem ekki á nokkurn hátt er flokksmál og því megi telja líklegt, að umr. um það geti haft einhver áhrif á afgreiðslu þess. Mig undrar það, hve fundurinn í dag, þegar þetta stóra mál er rætt, hefir verið losaralegur, alveg eins og hv. þdm. láti sig málið engu skipta. Ég vil þá snúa mér lítið eitt að hv. 6. landsk. þm. út af því, sem hann vék að brtt. minni við 72. gr. frv. Hann hélt því fram, að ég teldi skiptinguna í þessa tvo flokka réttláta, um það hefi ég ekkert sagt. Ég hefi að vísu haldið því fram, að rétt mundi vera að aðgreina framfærslukostnað kaupstaða og sveitarfélaga. Aftur á móti hygg ég, að sú skipting, sem höfð er í frv., muni fyrr eða síðar sýna, að kauptúnin og jafnvel smærri kaupstaðirnir verði óeðlilega hart úti.

Hv. 6. landsk. heldur því fram, að Rvík hafi þá sérstöðu gagnvart öllum öðrum kaupstöðum, sem réttlæti það, að hún sé sett í sérstakan flokk, þegar úthlutað er endurgreiðslu á framfærslukostnaði. En hann gætir þess ekki, að við útreikning á meðaltalsframfærslukostnaðinum sjálfum er beinlínis byggt á og reiknað eftir þeim mismunandi ástæðum og aðstöðu, sem sveitar- og bæjarfélögin hafa til þess að standa undir þeim kostnaði. Núgildandi grundvöllur á mati á skattþoli sveitarfélaga með tilliti til endurgreiðslu framfærslukostnaðar úr ríkissjóði, er aðallega fjórþáttur, þar sem 1/3 skattþols miðast við tölu verkfærra manna, 1/3 við skattskyldar tekjur íbúanna, 1/6 við skuldlausar eignir og 1/6 við fasteignamatsverð í sveitarfélaginu. En þegar búið er að finna einskonar vísitölu um skattþol sveitarfélaganna, miðað við þessa fjóra aðalþætti skattþolsins, þá er í raun og veru aðallausnin fundin í þessu efni. Það getur verið, að hlutfallið milli þessara fjögra höfuðþátta sé ekki sanngjarnt, en við þessu hlutfalli er ekkert hreyft með frv., heldur eru ákvæði um þetta tekin óbreytt inn í frv. úr gildandi lögum. En þegar búið er að fá þennan sameiginlega mælikvarða á skattþoli allra sveitar- og bæjarfélaga, sýnist ekki vera ástæða til að gera upp á milli þeirra með því að skipta þeim í flokka. Ég neita því náttúrlega ekki, að Rvík hefir ýmsa séraðstöðu með tilliti til skattþols fyrir utan þá fjóra höfuðflokka, sem miðað er við, t. d. leggur Rvík ekkert til sjúkrahúsa og lítið til skólamála. En aðalhlunnindin gagnvart skólamálunum eru þó í því fólgin, að einstaklingarnir eiga þar léttara með að láta börn sín fara í skólana, heldur en einstaklingar í öðrum sveitarfélögum. Aftur á móti er á það að líta gagnvart þessum sérstöku hlunnindum, að skattskyldar tekjur í Rvík eru yfirleitt hærri en annarsstaðar, og verður það til þess að jafna upp á móti þessum hlunnindum.