16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

133. mál, framfærslulög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Í ræðu hv. 6. landsk. voru tvö atriði, sem ég vil taka mjög stuttlega til athugunar. Hann viðurkenndi, að það væri rétt hjá mér, að búið væri með sjálfum grundvallarreglunum að taka tillit til versnandi ástæðna bæjar- og sveitarfélaga. En hann sagði svo, að ekki hefði verið tekið tillit til þess, hve mikið þjóðfélagið væri búið að leggja til ýmiskonar starfrækslu í Reykjavík um fram það, sem lagt hefði verið af mörkum til annara staða á landinu. Nú er það svo, að fjögur höfuðatriði eru lögð til grundvallar fyrir útreikningi meðaltalsframfærslukostnaðar landsins. Tala vinnufærra karla og kvenna að 1/3 hluta, skattskyldar tekjur að 1/3, skuldlausar eignir að 1/6 og fasteignamat að 1/6. En ef taka ætti tillit til alls, sem til greina gæti komið, þá eru enn eftir ótalmörg atriði. Sum þeirra gætu ef til vill orðið einu sveitarfélagi til hagsbóta, en jafnframt til að íþyngja öðru. Og um það mætti lengi deila, hvort þessi fjögur atriði væru þau þýðingarmestu eða ekki.

Það má líka ef til vill deila um, hvort þessi atriði, sem lögð eru til grundvallar fyrir útreikningnum, verða þess valdandi eða ekki. En ég hygg torvelt að finna leiðir, sem mönnum fyndust algerlega réttlátar. En það eru þessi atriði, sem mönnum hafa fundizt mest áberandi, hvernig sveitarfélögin eigi að standa undir gjöldunum. Það má að vísu halda áfram að telja upp mörg fleiri atriði, en ég hygg, að þau séu ekki eins stórfelld. Og sé gengið út frá, að þessi regla gildi, og hv. þm. viðurkenna, að í þeim felist leiðrétting á mismunandi aðstöðu sveitarfélaganna, þá er tilganginum náð. Hv. þm. vildi halda því fram, að ákvæðin, sem felast í brtt. á þskj. 828, nái ekki eins langt og 72. gr. l. Þetta er rétt, eins og ég held, að ég hafi tekið fram, svo framarlega sem ekki þurfi samkvæmt reglunni á brtt. 828 að hækka um 10% eða meira, en sé hækkunin 5% nær það því ekki alveg með lama útreikningi. En ég vil halda því fram að brtt. stefni bátar að sama marki.

Að lokum vildi ég aðeins segja, að með l. frá 1932 var ekki tilætlunin að setja af stað allsherjarhjálp til sveitarfélagana, heldur að greiða úr fyrir þeim, sem verst voru komin. Þó svo færi, sem ég tel ólíklegt, að fjárgreiðsla samkvæmt till. minni ekki nægi 230 þús., tel ég ekki illa farið, þó ekki þyrfti þær til fulls, enda ekki nauðsynlegt að veita hámark, ef ekki þyrfti svo mikið til þess að brýna úr verstu skörðin. Þessi ákvæði l. eiga aldrei að skoðast sem allsherjarhjálp, heldur þarf hér að vera aðhald um sparnað, svo útgjöldin gangi ekki úr hófi fram. Eigi að veita allsherjarstuðning á þennan hátt, verður annaðhvort að fá aukna tekjustofna eða draga úr öðrum útgjöldum. En sú úrlausn er alls ekki á valdi sveitarstj., þó það fari nokkuð eftir hagsýni, hvað hver kemst af með mikið. Ég tel, að það sé áhald fyrir sveitarstj. í meðferð fjár, að þessi aðferð sé notuð, og að áfram haldist ákvæðið um að brýna aðeins í verstu skörðin. Skal ég svo láta útrætt um þetta atriði frá minni hendi, en vona að hv. þm. muni eftir því, að þetta er ekki hugsað sem allsherjarstuðningur, heldur hjálp til verst stæðu félaganna, til þess að koma þeim á sæmilega starfhæfan grundvöll, sem þeim væri annars um megn.