20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

133. mál, framfærslulög

Frsm. (Páll Hermannsson) [óyfirl.]:

Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. líti svo á, að þetta lagafrv. megi telja eitt af merkustu málum, sem liggja fyrir Alþingi. En af því að engar umr. fóru fram hér við 1. umr. þykir mér rétt að segja fáein orð um frv. almennt. Skal ég taka það fram, að það geri ég fyrir eigin reikning, en ekki n. Eins og sest á nál. á þskj. 903, er lítið verk, sem allshn. hefir lagt í þetta mál, af eðlilegum ástæðum.

Það er svo um framfærslu þeirra manna, sem ekki geta framfært sig sjálfir, að þeir munu lengstum koma öðru fólki við á einn eður annan hátt. Það þarf varla að búast við því fyrst um sinn, að ekki þrjóti einhverja um að sjá sér farborða og að aðrir þurfi að taka við, svo hefir verið löngum og verður sennilega lengi enn.

Það má vekja athygli á því þegar í byrjun, að þetta frv. hefir annað nafn en var í eldri löggjöf um þetta efni. Og er það tákn þess, að í frv. er reynt að komast svo að orði, að það særi sem minnst þá, er þurfa að njóta. Það er vitanlegt, að þrot manna stafa miklu oftar af óviðráðanlegum ástæðum, slysum, veikindum o. fl., og þá er sjálfsagt að særa sem minnst tilfinningar þeirra, þó hitt komi vitanlega einnig fyrir, að menn lenda í bjargarþroti vegna drykkjuskapar eða annarar ómennsku, en þá er ekki heldur til bóta að nota orð, sem við þekkjum öll, að er viðkvæmt fyrir tilfinningar þessa fólks, ómenningin verður ekki bætt með særingum.

Í öðru lagi get ég bent á, að í frv. þessu er gert tilraun að raða skipulegar niður efni en gert hefir verið áður. Í fátækralögunum var því raðað í 4 kafla, einn var um framfærsluskyldu, annar um framfærslusveit, þriðji um hvernig haga skyldi styrkveitingu og fjórði um vald sveitarstjórna. Þessu frv. er skipt í 5 kafla, þannig að þægilegra verði að finna í lögunum það, sem menn þurfa að svipast eftir. - Fyrsti kafli er um framfærsluskyldu, annar er um framfærslurétt, báðir tilsvarandi 2 fyrstu köflum fátækralaganna. - Þriðji kafli er um styrk með börnum ekkna, og er algert nýmæli. Það hefir verið svo undanfarið, að ef kona hefir misst mann sinn og átt fyrir börnum að sjá, hefir hún ekki átt annars úrkosta en segja sig til sveitar, hafi hún sjálf verið í fátækt eða fjárþroti. Aftur hafa önnur ákvæði gilt um konur, sem átt hafa börn utan hjónabands, þar hefir verið svo, að faðirinn hefir verið skyldaður að sjá um þau með úrskurði, og hefir þá sveitin séð um framfærslu að hans hluta, ef hann hefir ekki greitt, án þess að móðurinni væri reiknað til skuldar. Í þessum þriðja kafla er gerð tilraun til þess að láta þær mæður, sem átt hafa börn í hjónabandi, ekki verða réttlægri en hinar, sem hafa átt þau utan hjónabands. - Fjórði kaflinn er um stjórn framfærslumálanna, og er því breytt frá því, sem var. Var sú breyt. meiri í fyrstu, eins og við gengum frá frv., en var breytt aftur í hv. Nd. Breyt. er aðallega innifalin í því, að ætlazt er til, að í kaupstöðum sé sérstök nefnd manna, sem starfi að fátækramálum á ábyrgð bæjarstjórnanna. - Fimmti kaflinn er um tilhögun styrkveitinga og sjötti kafli er um vald sveitarstjórna yfir styrkþegum. - Sjöundi kafli er um viðskipti sveitarstjórna og endurgreiðslur framfærslustyrks. - Áttundi kafli er um jöfnuð framfærslukostnaðar, og er þar gert ráð fyrir, að ríkið hlaupi undir bagga með þeim sveitarfélögum, sem bera hann of þungann. - Níundi kafli er niðurlagsákvæði. Þykir mér rétt að geta þess, að eins og frv. var frá hendi okkar, sem sömdum það, var einum kafla fleira, sem sé um það, hvernig fara skyldi með skuldir sveitarfélaganna innbyrðis, þegar lög þessi öðluðust gildi. Nú er svo komið, að fjöldi sveitarfélaga í landinu skuldar öðrum sveitarfélögum og bæjarfélögum stórar upphæðir vegna framfærslu þurfamanna, sem hafa dvalið annarsstaðar en í sinni eigin framfærslusveit; eru lang mest brögð að þessu í kaupstöðunum, þannig að þar er fjöldi manna, sem undanfarið hafa að réttu lagi átt að vera á framfærslu í ýmsum sveitarfélögum úti um land, sem ekki hafa svo getað borgað þær fjárupphæðir, sem þurfti að leggja fram þeim til framfærslu í kaupstöðunum. Það verður ekki vitað með vissu, hversu miklar þessar fjárfúlgur eru, en þeir, sem bezt ættu að vita um þetta, telja, að það nálgist 1 millj. kr. Eins og gengið var frá frv. af hálfu þeirra, sem sömdu það, var kafli um þetta atriði, og ég verð á telja, að ekki megi skilja svo við þessa lagasetningu, að ekki séu gerðar ráðstafanir til þess að gera upp þessi viðskipti milli sveitarfélaganna. Í þessu sambandi má minna á það, að fyrir þessu þingi liggur lagafrv., sem maður vonar, að verði samþ., sem sé frv. til l. um viðauka við kreppulánalöggjöfina, þar sem gert er ráð fyrir, að komið verði á heilbrigðari grundvöll fjármálaviðskiptum bæjar- og sveitarfélaga, sérstaklega að því, er snertir þeirra lausu og óveðtryggðu viðskipti, en undir það heyra þessar framfærsluskuldir, sem myndast hafa milli sveitarfélaganna.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það þyki rétt að eyða löngu máli í að tala um þetta frv. almennt; þó þykir mér rétt að drepa dálítið á vissar gr. í frv., en ég mun ekki gera það nema að litlu leyti, sérstaklega vegna þess, að það liggur ekki fyrir nein brtt. við frv. Ég vil þá byrja með því að minnast á 12. gr. frv., 1. gr. í 2. kafla, því að hún fjallar í rauninni um þá höfuðbreytingu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá því fyrirkomulagi, sem gilt hefir áður. Í þessari gr. er sagt, að sérhver íslenzkur ríkisborgari, eldri en 16 ára, skuli eiga framfærslurétt í heimasveit sinni, en það er þar, sem maðurinn á lögheimili. Þetta er algerð breyting frá þeim reglum, sem gilt hafa að undanförnu í þessu efni. Ég hirði ekki um að fara að rekja, hver sú regla hefir verið, en það nægir að benda á það, að það hefir verið algengt, að þó maður hafði dvalið lengi í einu eða öðru sveitar- eða bæjarfélagi og orðið þar þurfandi, þá hefir oft að því rekið að orðið hefir að krefjazt þess framfærslueyris ýmist hjá því sveitarfélagi, sem talið er, að viðkomandi maður hafi unnið sér sveit í, eða hjá því sveitarfélagi, sem hann hefir fæðzt í. Þetta ákvæði hverfur, og framvegis er ætlazt til þess, að hvert sveitarfélag sé skylt til þess að framfæra þá, sem þar eiga heimili og verða þurfandi fyrir framfærslu, en enga aðra. - Ég hef áður minnzt á 3. kafla, sem er nýr og fjallar um styrk með börnum ekkna, og sé ég ekki ástæðu til þess að tala neitt frekar um það. - Í 27. gr. er svo ákveðið, að ráðh. skuli hafa yfirstjórn allra framfærslumála. Mér þykir rétt að geta þess, að í þessari grein var upphaflega af hálfu þeirra, sem sömdu frv., ákvæði um það, að ráðh. skyldi vera heimilt á setja á stofn sérstakt embætti, svokallað framfærslustjóraembætti. Þeir, sem sömdu frv., voru sjálfir þeirrar skoðunar, að það kynni að verða hentugra í framtíðinni, að ákveðinn yrði sérstakur maður til þess að hafa þetta starf á hendi, en þó var þessari hugmynd kastað fram eins vel til íhugunar fyrir menn eins og að það væri talið sjálfsagt, en þetta atriði hefir Nd. fellt burt úr frv. - Það er rétt að taka það fram, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að halda framfærsluskyldu foreldra gagnvart börnunum og barna gagnvart foreldrum, eins og verið hefir. Það hafa heyrzt raddir um það, að ósanngjarnt væri, að foreldrar væru skyldugir til þess að framfæra börn sín, eftir að þau eru farin að geta bjargað sér sjálf, og eins hitt, að börn væru skyld til að framfæra foreldra sína, en þeir, sem sömdu frv., álitu, að enda þótt þetta kynni að orka tvímælis, þá væri samt viss „móralskur“ ávinningur í því að halda þessu ákvæði og að það væri hæpinn ávinningur fyrir þá, sem græða á því peningalega að losna við þessar skyldur, miðað við það „móralska“ tap, sem af því leiðir að vera laus við þessa borgaralegu og siðferðislegu gagnkvæmu skyldu milli foreldra og barna.

Ég geri ráð fyrir, að ýmsum kunni að verða starsýnt á 8. kaflann um jöfnun framfærslukostnaðarins. Það hefir nýlega verið gengið inn á það hér á þingi, að ríkissjóður væri látinn hlaupa undir bagga með sveitarfélögum, sem hafa mjög þungar framfærslubyrðar. Þeim atriðum um þetta efni, sem þegar eru fyrir í l., er að mestu leyti haldið í þessu frv., en þó er hér gengið dálítið lengra í því að létta undir með þeim sveitarfélögum, sem þyngstar hafa framfærslubyrðar.

Það eru ekki nema réttir tveir sólarhringar síðan þetta frv. kom hér til aðgerðar hv. Ed. fyrst. Allshn. tók þetta mál fyrir strax og það hafði borizt henni í hendur og las það lauslega yfir, og hefir n. lagt til, að frv. verði samþ., jafnvel þótt n. að sjálfsögðu verði að viðurkenna, að hún hefir ekki haft nógan tíma til þess að yfirvega þetta frv. til hlítar, eins og vert væri. Það er ekki til neins að vera að kvarta yfir því, hvernig má berast að þessari hv. d., það er komið sem komið er, en vitanlega sjá allir, að það er mjög óþægilegt, að jafn stórt, viðkvæmt og vandasamt frv-. eins og það, sem hér liggur fyrir, skuli ekki geta fengið neina rannsókn í annari þingdeildinni. Þar sem bráðum er komið að þingslitum, þá eru vitanlega litlar líkur til þess, að það takist að gera breyt. á þessu frv., ef það á að verða að l. á þessu þingi, sem ég ætla, að meiri hl. þingsins vilji.

Fyrir hönd allshn. þarf ég eiginlega ekki annað að segja en það litla, sem sagt er í áliti n. á þskj. 903. Þessi lauslegi yfirlestur, sem n. gat látið fara fram á frv., gat vitanlega ekki leitt mikið í ljós um frv. umfram það, sem nm. áður vissu. - Á þessu frv. hafa orðið tvær efnisbreytingar. Önnur er sú, að úr frv. hefir verið numið burt ákvæðið um framfærslumálastjóra, og í sambandi við þessa aðalbreytingu eru svo nokkrar smærri breytingar. Hin aðalbreytingin er sú, að bætt er inn í 73. gr. frv. hámarksákvæði um þá upphæð sem ríkissjóður kæmi til með að greiða til framfærslujöfnunar milli sveita. Ég lít svo á, að það geti verið álitamál, hvort fyrri breytingin, viðvíkjandi framfærslumálastjóranum, sé til bóta, en ég verð að telja, að síðari breytingin sé til bóta og réttmæt vegna þess, að þegar um svo háa upphæð getur verið að ræða, þá er náttúrlega rétt, að hún sé takmörkuð. Auk þess hafa orðið nokkrar smærri breytingar á þessu frv. í hv. Nd., en ég veit ekki, hvort ég tala fyrir hönd allrar n., þótt ég segi, að það geti orkað tvímælis, hvort þær breytingar eru til bóta, mér fyrir mitt leyti virðist þær sumar vera til spillis.

Þess er getið í nál., að þegar þetta mál var tekið fyrir, voru ekki nema 4 nm. á fundi allshn., og þessir 4 nm. eru sammála um það að óska þess, að frv. nái fram að ganga. Þeir voru líka í rauninni allir sammála um, að smærri lagfæringar hefði verið æskilegt að gera á frv., og út frá því sjónarmiði ætla ég, að einn af nm., hv. 10. landsk., hafi skrifað undir nál. með fyrirvara. Fimmti nm., hv. 1. þm. Skagf., sem ekki mætti á fundi n., hefir alveg óbundna afstöðu til frv., ég hef minnzt á það við hann, að hann ekki mætti á þessum fundi, og skilst mér, að hann líti svo á, að eins og á stendur núna, séu þessi nefndarstörf í sjálfu sér þýðingarlaus.

Ætla ég svo ekki að fjölyrða um þetta frv. meira. Ég hef orðið þess var, að einhverjir hv. dm. hafa kvatt sér hljóðs til þess að ræða einhver ákveðin atriði frv., og mun ég taka þau til yfirvegunar, ef ég tel þess þörf.