16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Enda þótt þetta mál sé orðið miklu fjölþættara en það var í upphafi, ætla ég samt ekki að verða langorður um það. Ég er samþykkur ýmsum af þessum till., en öðrum er ég ósamþykkur. Ég vil taka það fram, að ég get ekki verið samþ. 10. till. á þskj. 755. Ég tel tvímælalaust rangt að svipta sýsluvegasjóði því tillagi, sem til þeirra hefir gengið undanfarið, og tel ég þessa ráðstöfun mjög varhugaverða, ekki sízt með tilliti til þess, að með henni er þeim sýslum, sem vilja leggja hart að sér til þess að gera vegi, gert mjög örðugt með að koma því í framkvæmd. Ég hefði viljað halda l. frá 1933 óbreyttum. Þar sem fjárframlag til sýsluvegasjóða er aukið um talsverða upphæð, en hér liggur hinsvegar fyrir till. um að lækka framlag til sýsluvegasjóða, þá virðist mér þetta tvennt stangast einkennilega á og er ég ákveðið mótfallinn því, að 10. till. á þskj. 755 nái fram að ganga.

Þá vil ég geta þess, að ég er mótfallinn 7. till. í þskj. 794, m. a. af þeirri ástæðu, að hér er um bráðabirgðabreyt. l. að ræða, en mér virðist till. um breyt. í kvennaskólalögunum alls ekki geta átt heima þar. Um efni þessarar till. hefir verið deilt áður og virðist mér fleiri rök hníga undir það, að þessi till. eigi ekki að ná fram að ganga.

Um 1. lið brtt. á þskj. 779, frá hæstv. fjmrh., verð ég að segja það, að ég er henni fullkomlega samþykkur. Það hefir verið rætt um það tvisvar til þrisvar sinnum á Alþingi, að fella niður prentun á umræðuparti þingtíðindanna, en það hefir aldrei náð fram að ganga. En þótt þessu máli hafi hingað til verið eytt, þá er það engin ástæða til þess að drepa það núna, því að viðhorfið hefir óhrekjanlega breytzt mikið í þessu efni upp á síðkastið, með útvarpi og auknum blaðakosti. Yrði umr. frá Alþingi útvarpað meira en gert hefir verið, gæti það orðið til þess að spara dagskrá útvarpsins sjálfs, og auk þess myndi mörgum þykja skemmtilegt að heyra ræður þm. um þau mál, sem kjósendunum liggja mest á hjarta. Þar sem viðhorfið í þessum efnum er allt annað nú en það var 1909 og 1924, þá get ég alls ekki láð neinum, þótt hann hafi breytt afstöðu sinni til þessara mála. Auk þess kemur annað atriði til greina, sem er allsterkur þáttur í þessu máli, og á ég við það, að undanfarið hafa fjölmargar þingræður verið prentaðar óyfirlesnar, og eru því lítil sönnunargögn.

Hv. 4. landsk. hélt því fram, að fyrr meir hefts aldrei komið fram till. um að hætta að prenta umræðupart þingtíðindanna, hversu hart sem árferðið var. En ég verð að segja, að fyrir aldamót var viðhorf þessara mála allt annað en nú. Þá var þingið aðeins háð annaðhvort ár, og öll þingtíðindin voru þá ekki meira en af umræðupartinum eins og hann er núna árlega. Þá var umræðuparturinn aðalfréttirnar af þinginu, og var hann lesinn á mörgum sveitaheimilum á kvöldvökunum fyrir allt heimilisfólkið. Nú les varla nokkur maður þingtíðindin, enda koma þau ekki fyrr en ári eftir að ræðurnar eru fluttar og áhugi almennings fjaraður út fyrir þeim málum, en ný áhugamál komin í staðinn. Og svo ber þess að gæta, að þar sem svo hefir verið ástatt hér á landi upp á síðkastið, að landsmenn hafa orðið að þola það, að á þá væri dembt hverjum skattinum á fætur öðrum á grundvelli bágborins fjárhags ríkissjóðs og örðugra tíma, þá finnst mér sjálfsagt að athuga gaumgæfilega, hvort ekki er hægt að spara þann útgjaldalið, sem undanfarið hefir gengið til prentunar á umræðuparti þingtíðindanna.