05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla Að svara hv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum. - Hann fór ekkert út í það, sem ég sagði hér áðan, að þetta fyrirkomulag væri hvergi viðhaft annarsstaðar. Og það er eftirtektarvert, að við skulum skera okkur úr og ætla að vera eina þjóðin í heiminum með svona rígbundið einokunarskipulag, jafnvel bundnara en í Rússlandi. Er það met í þessu efni, að við skulum fara lengra en kommúnistarnir þar austur frá. Það er og eftirtektarvert, að t. d. í Danmörku voru gerðar ráðstafanir viðvíkjandi þessum ferðamannamálum í sumar, og jafnaðarmannastjórninni þar datt ekki í hug að orða það, að ríkið ætti að taka þau mál í sínar hendur. Það er þannig með jafnaðarmenn í Danmörku, að þeir vilja ekki ríkisrekstur, en hér þykir ekkert gott og gilt nema það sé rekið af ríkinu.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sem hefði komið á óvart, að ég gerði aths. við orðalag frv. Ég gerði aths. við eina grein og vakti athygli á því í n., svo að ég skil ekki, hvernig það getur komið hv. frsm. meiri hl. á óvart, þó ég segi það sama hér í hv. d. og í n. Þessi grein er ekki orðuð eins og ætti að vera, því að samkv. henni lítur út fyrir, að það eigi alltaf að afhenda farmiða, þegar farþegar eru fluttir í bílum gegn greiðslu. Þetta var ekki meiningin, enda tilgangslaust nema þegar á að stimpla farseðlana, og það á einungis að gera í áætlunarferðum.

Þá fullyrti hv. frsm. meiri hl., að teknar hefðu verið 105 kr. fyrir bíl héðan og til Þingvalla. En ég hefi síðan fengið að sjá samning um þetta, og þar er sagt, að greiða skuli 105 kr. fyrir bifreið til Þingvalla og Grýlu. Það er því ekki nema hálfsögð sagan, að segja, að þessar 105 kr. hafi aðeins verið teknar fyrir ferð til Þingvalla, og það er það, sem villir. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri algengt, að hægt væri að fá bíl allan daginn fyrir 70 kr. Ég efast um, að það sé hægt að fá t. d. 7 manna bíl fyrir það verð, en þó að það væri hægt, sannar það ekkert í þessu máli. Ég segi fyrir mig, að ég sé ekkert eftir þessum útlendu mönnum, sem eru kannske ekki hér á landi nema 12 tíma, þó að þeir borgi dálítið meira heldur en innlendir menn. Svo er það, að þessir ferðamenn, sem koma í stórum lystiskipum, eyða ekki í neitt annað hér en bifreiðar, og þeir heimta að hafa varabifreið með, ef eitthvað skyldi koma fyrir. Þess vegna er ekki hægt að bera þetta saman við þegar ég eða hv. frsm. erum að ferðast, því að við heimtum ekki neinn varabíl.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að ekki væri óeðlilegt, þó að innlendir menn væru reknir úr herbergjum fyrir útlendinga. Mér finnst það óviðkunnanlegt. Ef innlendur maður er búinn að leigja sér herbergi á hóteli, á hann eins mikinn rétt til þess herbergis eins og einhver og einhver útlendingur. Annað eins lagaákvæði og þetta hygg ég, að hvergi sé þekkt.

Þá áleit hv. frsm. meiri hl., að það gæti e. t. v. átt sér stað, að eitthvað af þessari borgun fyrir bifreiðarnar rynni til umboðsmanna. En hv. frsm. meiri hl. getur ekkert fullyrt um það, þó að hann hafi heyrt einhvern orðróm í þá átt, og þessu hefir verið neitað af umboðsmanni ferðaskrifstofunnar Heklu. En þó að svo væri, að einhver prósenta færi til þessara aðila, hvað gerði það þá til? Er nokkuð glæpsamlegt við það? Ég sé ekki neitt við það að athuga. Hví mega umboðsmenn ekki fá borgun fyrir störf sín?

En hvað því viðvíkur, að það sé ein bifreiðastöð, sem sitji fyrir viðskiptum, þá veit ég ekkert um það. En ef svo er, skil ég ekki, að það geti verið af neinu öðru en því, að bezt sé að skipta við hana. Það er enginn lögverndaður réttur fyrir neina bifreiðastöð.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væru nálega engin gistihús úti um land. Það er satt, og fyrst og fremst mun það vera af því, að það eru líklega ekki margir, sem vilja leggja peninga í það, og ekki er fýsilegt að leggja fé í það hér eftir, þar sem þeir, sem það gerðu, eiga í hættu að vera reknir frá því starfi, því að samkv. frv. er ferðaskrifstofunni gefin heimild til þess að loka þeim gistihúsum, sem henni líka ekki.

Svo er það viðvíkjandi taxtahækkuninni, sem svarar stimpilgjaldinu. Hv. frsm. meiri hl. heldur því fram, að fyrir þá sök verði gjaldið ekki hækkað. Það sé af því, að svo mikil eftirspurn sé eftir því að fá að aka á þessum leiðum, sem leyfi þarf til. Ég vil benda á, ef svo er, að þá er ekkert hægara en að setja fargjöldin niður um það, sem stimpilgjaldinu svarar.

Ég skal ekki tala langt mál um starfsmannahaldið. Það eru komin svo mörg dæmi um það. Ég skal benda á, að við eina heildverzlun ríkisins eru 38 starfsmenn á föstum launum. Þó hefir þessi verzlun ekki viðskipti við nema fáar verzlanir, og það heildverzlanir. Ég held, að þetta sé gott dæmi um hversu hlaðið er starfsmönnum í stofnanir hins opinbera, og það er sízt að undra, þó að menn stingi við fótum, þegar farið er fram á ótakmarkaða heimild handa ríkisstj. um að ráða starfsmannafjölda.

Svo var hv. frsm. meiri hl. að tala um mikinn mun á minni ræðu og ræðu hv. 1. þm. Reykv. En ég segi eins og er, að ég fann ekki neinn mun í skoðunum okkar. Við viðurkenndum báðir, að mikið mætti upp úr ferðamönnunum hafa, en erum báðir á móti þeirri aðferð, sem hér á að viðhafa, og teljum, að hún muni leiða til minni aukningar á ferðamannastraumnum en ella mundi. Ferðamannastraumurinn hefir aukizt mikið og heldur áfram að aukast og kannske margfaldast, en ég efast um, að það verði í eins ríkum mæli, ef á að binda þetta í hendur ríkisins.

Ég óska, ef hv. frsm. meiri hl. talar aftur, að hann a. m. k. útskýri, í hverju þessi mismunur á ræðu minni og ræðu hv. 1. þm. Reykv. liggur.