07.12.1935
Efri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir vænt um, að hæstv. forsrh. hefir komið hér með brtt. við einn leiðinlegasta liðinn í þessu frv., því að þá má gera ráð fyrir, að hv. n., eða meiri hl. hennar, láti sannfærast um það atriði. Mér þykir einnig vænt um, að það hefir komið fram brtt. um að fella 8. gr. úr frv., því að hún er til hinnar mestu vanvirðu. Ofan á aðra agnúa á þessu frv., sem ég benti á við 2. umr., bætist það, að hv. meiri hl. n. hefir gleymt að leiðrétta ranga tilvísun í 8. gr. En ef þessi grein á að standa óbreytt að öðru leyti, þá stendur í henni, að jafnan skuli afhenda farþega, er fluttur er í bifreið gegn greiðslu, farseðil með áletraðri upphæð þeirri, er greiða ber; það lítur því út fyrir, eftir þessu, að það eigi alls ekki að afhenda nema stimplaða seðla; og ef þeir eru óstimplaðir, þá eigi ekki að afhenda neinn seðil. Auk þess segir svo í gr.: „enda sé farseðillinn stimplaður svo sem mælt er fyrir ... “. Ef staðið hefði í gr.: ,enda sé farseðillinn stimpilskyldur“, þá hefði mátt við það bjargast, þó að ógreinilegt sé.

Ég þykist vita, eftir þeim undirtektum, sem brtt. hæstv. forsrh. hefir fengið, að hv. meiri hl. n. hefir séð ýms missmíði á frv., þó hann hafi ekki hirt um að leiðrétta þau.

Um brtt. hv. 1. þm. Reykv. er það að segja, að ég er þeim öllum samþykkur, þær eru allar til bóta. Annars greiði ég atkv. á móti frv., enda þótt það þýði ekki neitt, því mér er sagt, að það sé ákveðið að láta það ganga fram. Og ennfremur, að það sé nú þegar búið að ráða forstjóra fyrir ferðamannaskrifstofuna, mann, sem rekið hefir „forretningu“ hér í bænum, en muni nú vera búinn að selja hana af þessum ástæðum.

Mér finnst, að þau ferðamannafélög, sem hér hafa starfað, geti tekið á móti erlendum ferðamönnum eftir sem áður, þó að þetta frv. verði að lögum, ef þau hafa bara ekki skrifstofu. Þau geta samið við skipin um að flytja ferðamenn, útvegað bíla handa þeim og annað þess háttar, er þeir þurfa á að halda. En mér skildist á ræðu hv. þm. S.-Þ., að með frv. eigi að fyrirbyggja allt þetta.

Ég held það sé gersamlega rangt hjá þeim hv. þm., að þær ferðamannaskrifstofur, sem hér hafa starfað undanfarið, hafi spillt fyrir ferðamannastraumnum til landsins. Eins og ég tók greinilega fram við 2. umr., þá sé ég ekki betur en að sókn erlendra ferðamanna til landsins sé í hröðum vexti. Hv. þm. verður að sanna, að ferðamannastraumurinn hefði vaxið meira, ef þessar ferðamannaskrifstofur hefðu ekki starfað, en það getur hann ekki sannað.

Ég benti einnig á það við 2. umr., að ferðamannaskrifstofurnar hefðu varið 20 þús. krónum til leiðbeininga fyrir erlenda ferðamenn og til þess að undirbúa og gefa út bækling, sem svo hefir verið dreift um ýms lönd í Evrópu og til Ameríku. Ég er ekki farinn að sjá, að hún væntanlega ferðamannaskrifstofa ríkisins geri betur. - Hv. þm. S.-Þ. viðurkenndi, að það væri ekki búið að stofna til ríkiseinokunar á þessum ferðamannamálum annarsstaðar á Norðurlöndum, en taldi, að það væri nauðsynlegt hér á landi, af því að þjóðin væri svo lítil og fámenn. Ég get ekki séð, að þetta séu nein rök í málinu. Ég sé ekki annað en að ferðamannaskrifstofur, sem eru einkafyrirtæki, geti þrifizt hér eins og annarsstaðar, og gefið góða raun, ef á annað borð er hægt að laða hingað erlenda ferðamenn.

Það er nú upplýst og ómótmælt, að þessi einokun á erlendum ferðamönnum er hvergi annarsstaðar en í Rússlandi. Og þó að hún að vera strangari hér á landi, því að það er beinlínis bannað í frv. að reka hér einkaskrifstofu til að greiða fyrir erlendum ferðamönnum. En samkv. símskeyti frá erlendri ferðaskrifstofu, sem lagt var fram í n., var öðrum en ríkinu einnig heimilt að reka ferðamannaskrifstofur í Rússlandi.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég vona, að brtt. hv. meiri hl. n. við 8. gr. frv. verði svo skýr, að greinin upplýsi það, sem henni er ætlað, þannig að ekki verði um villzt.