17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Maður er nú orðinn hálflúinn af setum og verður að fara hægt að öllu, til þess að ofreyna sig ekki. — Þetta mál mun hafa legið fyrir síðasta þingi, ef ég man rétt, en komst þá ekki svo langt, að það fengi fullnaðarafgreiðslu. En þá þegar komu fram gegn því ýms þau rök, sem liggja í augum uppi. Þetta frv. er „produkt“ frá þessari skipulagsn., er sett var á stofn í hitt eð fyrra og í daglegu tali er kölluð Rauðka. Það verða víst margir fallegir smiðisgripir, sem þjóðin eignast frá þeirri stofnun, og er þetta frv. ekki hvað sízt. Í 1. gr. frv. þessa er hvorki meira né minna en slegið föstu, að ríkisstj. eigi að setja á stofn skrifstofu, sem nefnist Ferðaskrifstofa ríkisins. Verkefni hennar á að vera að kynna landið út á við og hafa á hendi leiðbeiningar og fyrirgreiðslur erlendum og innlendum ferðamönnum. Svo er því bætt við, að þessi ferðaskrifstofa skuli ein hafa rétt til að starfa sem ferðaskrifstofa fyrir erlenda menn. Þó að maður geti í sjálfu sér ekki sagt, að nauðsyn beri til þess, að hið opinbera fari að kosta til skrifstofuhalds í Reykjavík til þess að kynna landið, þá er ekkert nema gott við því að segja út af fyrir sig, að ríkisvaldið stuðli að því að kynna landið, og má náttúrlega gera það með mörgu móti. En svo bráðnauðsyn er nú ekki á því, að ferðamannastraumurinn aukist fram úr því, sem verið hefir, að það eru mörg verkefni, sem mér finnst, að ríkisvaldið gæti eins vel tekið sér fyrir hendur og þetta. Annars er það einkennilegt og sérkennandi fyrir það stjórnarfar, sem nú ríkir í landinu, að annaðhvort eru hlutirnir látnir algerlega afskiptalausir og ekkert gert til að beina þeim í réttara farveg eða þá að ríkið einokar hreint og beint það, sem um ræðir. Hér er það spor stigið með þessu frv., og það tekið fram þegar í 1. gr. þess, að afskipti ríkisins af þessum málum eigi að vera því skilyrði bundin, að enginn maður megi lengur skipta sér af ferðamönnum til þess að leiðbeina þeim annar en ferðaskrifstofan ein. Ég segi, að það er dálítið einkennandi fyrir þann lítt þroskaða hugsunarhátt, sem hér ríkir í ýmsum efnum, þetta, að í stað þess að ríkið láti sér nægja að styrkja þá starfsemi, sem þegar er komin á fót, þá sé hún að öllu leyti lögð undir ríkisvaldið. En þessi nefnd og þeir, sem að flutningi þessa frv. standa, geta ekki hugsað sér nein önnur afskipti af þessu máli en þau að taka rekstur ferðamannaskrifstofanna algerlega í ríkisins hendur, m. ö. o. að þjóðnýta þessa starfsemi. Nú veit maður ekki til, að þeir menn, sem haft hafa með höndum að taka á móti ferðamönnum hér og leiðbeina þeim og fylgja þeim um landið, hafi leyst verk sitt illa af hendi. Ég hefi aldrei haft þessi störf með höndum, en ég hefi oft talað við ferðamenn, sem stundum hafa komið hingað ár eftir ár, og hefi ég þá oft orðið þess vísari, að þeir hafa tekið tryggð við leiðbeinendur sína og leitað til þeirra hvað eftir annað Þetta bendir ekki til þess, að þessir menn séu illa til starfsins fallnir eða hafi gert nokkuð fyrir sér. Það verður því að teljast hörkuleg aðferð að taka af þeim þessa starfsemi og leggja hana undir ríkið.

Í 2. gr. frv. er talað um, að ferðaskrifstofan skuli veita fræðslu um landið með fræðsluritum, útvarpserindum, fyrirlestrum, kvikmyndum, auglýsingum og öðru. Við þessu er auðvitað ekki nema gott að segja, sé þetta gert með hóflegum tilkostnaði. Hingað til hefir ríkið látið sig þessi mái engu skipta. En að það opinbera gangist fyrir fræðslustarfsemi um landið á þennan hátt er annað en að ríkið fari á einoka hvern erlendan túrista, sem til landsins kemur. Annars var í frv., þegar það var fram borið í upphafi, það einkennilega ákvæði, að innlendir ferðamenn áttu á ganga úr rúmum, ef erlenda gesti bar að garði. Þetta verður að teljast alveg einstakt ákvæði, að menn, sem fengið hafa rúm í gistihúsi, þó að innlendir séu, skuli eiga að víkja úr bólinu, ef einhver útlendingur hér að dyrum. Ég get þessa aðallega mönnum til skemmtunar, því að nú er búið að koma viti fyrir stjórnarliðið, og þessu ákvæði hefir verið kippt burt.

Allt kostar nokkuð í þessum heimi. Það hefir líka Rauðku verið ljóst, á þetta myndi ekki verða tilkostnaðarlaust, því að í 8. gr. er þess getið, hvernig Ferðaskrifstofa ríkisins skuli afla sér tekna. Það á nú að taka með nýjum skatti. Það má segja, að ekki muni um einn blóðmörskeppinn enn í sláturtíðinni, að ekki muni miklu, eftir allt annað, þó að settur sé á 5 aura skattur af hverri krónu, sem menn greiða fyrir flutninga með bifreiðum. Þjóðina munar ef til vill ekki svo mikið um þetta, samanborið við ýmislegt annað. Eins og nú er, eru bílar svo á segja einu farartækin, sem menn kaupa farseðla með (áætlunarferðir). Ég hefi ekki tölur um það, hve mikið fé fer á ári hverju hjá þjóðinni í þessi fargjöld, en það hlýtur að vera orðin allstór upphæð, og 5% af þeirri upphæð er sjálfsagt sæmilega rífleg fúlga til að uppihalda ferðaskrifstofu þessari, og eru allar líkur til, að stj. gæti komið þar að jötunni þó nokkuð mörgum mönnum.

Ég ætla þó, að enda þótt bílafargjöldin séu hér ódýr, þá muni fáir óska eftir að þurfa að greiða aura af hverri krónu í viðbót, jafnvel þó að þessi viðbót eigi að ganga til skrifstofu þeirrar, sem hér um ræðir. Ég skal játa, að ég hefi frá upphafi litið á þetta sem hégómamál, en á hinn bóginn er undarlega mikið kapp lagt á að keyra málið í gegn, sbr. kast það, sem hv. 2. þm. Reykv. fékk hér í gær, er ég og einhverjir fleiri kvöddu sér hljóðs til að tala um málið Og það getur orðið skiljanlegt af ákvæðum 4. gr., þar sem ætla má, á hann og ef til vill fleiri honum nákomnir ætli sér hag af þeim ákvæðum, en þar segir svo:

„Ferðaskrifstofan gerir samninga við skipafélög, bifreiðafélög eða eigendur bifreiða og umráðamenn annara farartækja um flutning á ferðamönnum og um fargjöld“.

Í þessu sambandi kemur mér í hug löggjöf, sem sett var á síðasta þingi, þar sem áætlunarferðir bíla voru skipulagðar. Það var eitt af aðaláhugamálum hv. 2. þm. Reykv. — Í 4. gr. þessa frv. er sagt, að ferðaskrifstofan eigi að gera samninga við skipafélögin o. s. frv. Nú er það vitað, að flestir ferðamannahóparnir koma hingað á erlendum skipum. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að ferðaskrifstofan hafi ástæður til að semja um fargjöld á skemmtiferðaskipunum, sem hingað koma á sumrum. Þá má segja, að henni sé ætlað að semja við áætlunarskipin, er hingað ganga, en það væru þá helzt þau íslenzku, því á skrifstofan mun varla hafa tök á að gera slíka samninga við Sameinaða eða Bergenska. Hún getur ekki boðið þeim neitt í móti, nema ef vera kynni styrk úr ríkissjóði. Aftur er það svo um Eimskipafélagið, að það er svo háð ríkinu og Alþingi, að hugsanlegt er, að ríkisstofnun eins og ferðaskrifstofan gæti haft áhrif um fargjöld með skipum þess. En ég held þó naumast, á það gæti haft stórvægilega þýðingu, því að á þeim tíma, er erlendir ferðamenn koma með þessum skipum, er sízt hörgull á farþegum. Verða þau jafnvel oft að neita mönnum um far á sumrum, ef þeir hafa þá ekki pantað farmiða löngu fyrir fram. Svo á mér virðist þetta ákvæði um samninga við skipafélögin sett í gr. meira sem punt eða öllu heldur sem réttlæting þess, að skrifstofunni sé gefinn kostur á að semja við viss bifreiðafélög hér innanlands.

Frv. felur þá í sér þetta þrennt í stuttu máli, auk heimildar fyrir ferðaskrifstofuna til á auglýsa landið: Ríkið einokar alla starfsemi við leiðbeiningu ferðamanna hér á landi, ferðaskrifstofan einokar bifreiðaferðir þessara manna um landið og allur landslýður er skattlagður til ágóða fyrir þessa starfsemi.

Frv. fylgir grg. talsvert löng og ýtarleg. Ýmislegt af því, sem þar er tekið fram, getur vel staðizt. Það er ekki allt fjarstæða. Þar er meðal annars áferðarfallega sagt frá nauðsyninni á því á koma upp ferðaskrifstofu. Það er t.d. satt, sem stendur hér í grg. (með leyfi hæstv. forseta)

„Nú er það á almanna vitorði, að naumast er nokkur þjóð til, sem á allt sitt eins afdráttarlaust undir því komið, að hin erlendu viðskipti gangi sem greiðlegast. Hitt er og ekki síður kunnugt, að aldrei hefir verið bráðari þörf á því að neyta allrar orku í þessu sambandi en nú“.

Þetta er, almennt skoðað, mikið rétt. En ég hefði haldið, að þessar athuganir ættu að leiða til annars en þess að koma á fót ríkiseinokun á þeim erlendu ferðamönnum, er hingað vilja koma.

Þá er minnzt á það í grg., að með nágrannaþjóðunum tíðkist það, að við utanríkisráðuneytin starfi blaðaskrifstofa, sem hér er kölluð „Udenrigsdepartementets Pressekontor“ í þessu plaggi. Mér er nú ekki ljóst, þó að vitað sé, að við utanríkisráðuneytin og sendisveitirnar starfi slíkir pressukontórar, hvað það kemur því við, að íslenzka stj. eigi að einoka ferðamannastrauminn til landsins. Að svo miklu leyti sem ég þekki til slíkra „pressuafdelinga“ í útlöndum, er það ekki fyrst og fremst tilgangur þeirra að starfa sem „reklamebureau“.

Svo er í grg. skýrt frá því, hvernig þeir hugsa sér að þessari kynningarstarfsemi eigi að vera háttað í einstökum atriðum. Er þar talið upp: 1) Útgáfa rita, 2) fyrirlestrar, 3) kvikmyndir, 4) útvarp, 5) auglýsingar um afurðir. Hér ber að sama brunni og áður. Allt getur þetta verið gott og blessað, ef það veldur ekki of miklum kostnaði. En ekkert af þeim er neitt framkvæmanlegra eða aðgengilegra eða frambærilegra, þó að þessi skrifstofa hafi einokun á útlendum ferðamönnum. Allt þetta má framkvæma án þessarar fimmliðuðu einokunar á ferðamönnum, sem hingað koma.

Um það má deila, hvað af þessu sé nauðsynlegast. Sumt af því er t. d. varlega meðfarandi. T. d. þarf mjög vel að vanda til kvikmynda, sem kynna eiga landið, því að annars geta þær haft öfug áhrif við það, sem til var ætlazt. Nokkrar kvikmyndir, sem hér hafa verið teknar og sýndar erlendis, hafa engan veginn verið heppileg auglýsing fyrir landið. Ég sá í fyrra nokkrar slíkar kvikmyndir, sem áttu að vera af vandaðra tæginu, og fannst mér þar niðurröðun efnisins ekki þann veg, að það gæfi útlendingum glögga hugmynd um Ísland og atvinnuhætti þess.

Í sjálfu sér er það leitt, að ekki skuli meira hafa verið gert að því að auglýsa landið út á við en orðið er. Ég geri t. d. ráð fyrir, að ríkissjóður gæti látið nokkuð af hendi rakna til að hafa einhverskonar auglýsingastarfsemi í helztu borgum erlendis til leiðbeiningar ferðamönnum. Mætti gera það án allrar einokunar á mönnum þessum. Svo er það að athuga, að ef halda á uppi fullkominni auglýsingastarfsemi til að auka ferðamannastrauminn, þá myndi það kosta allmikið fé. Í nokkrum borgum eru ferðamannaskrifstofur, t. d. norsk, sænsk, dönsk, hver við hliðina á annarri, og þarna er fast starfsfólk, þar liggja frammi kort, teikningar og aðlaðandi myndir, sem eiga að gefa ferðamönnum sem gleggsta hugmynd um land það, sem þeir ætla að heimsækja. En slíkt yrði okkur Íslendingum ofvaxið sakir kostnaðar, því að slík starfsemi myndi naumast geta borgað sig, enda er sá ferðamannastraumur, sem við getum tekið á móti, ekki svo mikill, að leggjandi sé út í svo kostnaðarsöm fyrirtæki. Má þar margt á milli vera, að landsins sé að engu getið og að lagt sé út í slíkan tilkostnað. Þar mætti með minni tilkostnaði auglýsa í útlendum blöðum og tímaritum, sem almennt eru mest lesin erlendis, og hafa þar myndir af þeim stoðum, sem beztir þætti, og myndi það ekki kosta líkt því að hafa skrifstofu í öllum helztu stórborgum, og hvað snertir Ísland sem ferðamannaland, er heppilegast í byrjun að hugsa sér ekki að stiga mjög stór spor í að beina ferðamannastraumnum hingað, því það mundi valda vonbrigðum og ekki svara kostnaði. Hitt er annað mál, að það er rétt að greiða fyrir því, að ferðamannastraumurinn hingað til landsins aukist, og það er skýrt, að minni hl. hv. allshn. í hv. Ed. hefir lagt fram hóflegar till. í þessu efni. T. d. hefir verið, og er ennþá gistihúsaskorturinn, sem mest stendur því í vegi, að hægt sé hér á landi að ferðast fyrir þá menn, sem vanir eru þeim nauðsynlegu þægindum, sem ferðamenn þurfa að hafa, en úr þessu hefir talsvert verið bætt á síðari árum, eins og vitað er, og vel hægt að bjóða bæði innlendum og erlendum ferðamönnum þann aðbúnað, sem þan gistihús, sem ég hefi séð, hafa að bjóða. Vitanlega eru þau ekki eins útbúin eins og dýr gistihús í stórborgum, en það ætlast heldur enginn til þess, að þau séu það, en öll þau gistihús, sem ég hefi séð hér til sveita, hafa það, sem snertir nauðsynleg tæki til þrifnaðar og hreinlætis, fyrir hendi; sæmileg rúm og þrifaleg herbergi o. s. frv. hafa þau gistihús, sem ég hefi séð hér á landi á síðari árum.

Það er tæpt á því í þessari grg., að hér sé farið illa með erlenda ferðamenn, þ. e. a. s. að það sé okrað á þeim. Það er ekki nema tæpt á þessu í grg, en ég verð að segja, að það komi þó svo bert fram í grg„ að þeir menn, sem hana hafa samið, séu þar að bera sakir á þá menn, sem hafa haft það með höndum, að leiðbeina erlendum ferðamönnum og flytja þá, að það hefði verið sæmilegra og réttlátlegra að leiða að þessu önnur og sterkari rök heldur en þau að segja eins og hér er gert og ég vil með leyfi hæstv. fors. leyfa mér að lesa hér upp. Þar segir svo: „Orð leikur á, að ferðamenn greiði stundum yfir 100 krónur fyrir 7 manna bíl í 50 kílómetra ferð með skammri viðdvöl og þaðan af meira fyrir lengri ferðir. Þetta gjald er 3—4 sinnum meira en innlendir menn greiða. Að vísu má segja, að fyrir þær sakir óski menn eftir útlendum ferðamönnum, að eftir þá liggi eitthvert fé í landinu, en hér er um hófleysu að ræða, sem miklum skaða getur valdið“. Fyrst slær höfundur grg. því fram, að leiki orð á þessu, og svo dregur hann þá ályktun, að hér sé um hófleysu að ræða, alveg eins og hann hafi hér komið fram með einhverjar óhrekjanlegar sannanir. Þetta er illa tilfallinn málsflutningur, og ég hefi ekki orðið þess var, að við umr. í hv. Ed. hafi tekizt að leiða nokkur minnstu rök að því, að þessi gróusaga væri sönn, og þó er hún framflutt sem einskonar rök fyrir því, að nauðsyn sé á, að ríkið taki þetta í sínar hendur. Þegar einhver stétt er rekin frá atvinnu sinni, hvort sem hún er stór eða lítil, þá má sannarlega ekki minna vera en að þau rök, sem til þess liggja, séu ekki óréttmæt og ástæðurnar ekki tilbúningur einn, en mér liggur við, eftir orðalagi grg. að dæma og eftir því, að engin staðfesting á þessum ummælum kom fram í umr. í hv. Ed., að ætla, að hér sé aðeins um ósannan orðróm að ræða. Og sé svo, sem ég að öðru ósönnuðu verð að álíta, þá er hér farið með rangan málflutning til þess að taka af vissum mönnum atvinnu, sem þeir hafa nú og hafa með löglegu móti komizt yfir.

Þá segir ennfremur hér í grg. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta: „Önnur hlið, sem snýr að ferðalögum útlendinga um landið, við kemur þeim fararstjórum og túlkum, er til þeirra veljast. Sem stendur er allt undir hælinn lagt, hvernig um þetta tekst“. Ég verð að játa, að ég þekki ekki alla þá menn hér á landi, sem hafa haft það með höndum að vera túlkar og fararstjórar fyrir útlenda ferðamenn, en ég þekki þó suma þeirra og hefi fyllilega orðið var þess, að þeir njóta vinsælda hjá viðskiptamönnum sínum, sem eru hinir erlendu ferðamenn. Það verður að teljast algerlega ósannað, að það sé að nokkru frekar undir hælinn lagt, hvernig um þetta tekst, þótt þeir útlendu ferðamenn séu sjálfráðir um, hverja þeir velja sér fyrir túlka og leiðbeinendur, heldur en þó þessi „Rauðku“-stofnun, sem hér er verið að tefla fram, eigi að taka að sér að leiðbeina ferðamönnunum. Hér hafa verið leiðbeinendur ferðamanna, sem hafa unnið starf sitt með mestu prýði. Í útlendum ferðabókum hér oft við, að ferðamennirnir minnast með sérstakri viðurkenningu á þá, sem hafa leiðbeint þeim hér á landi. Ég minnist þess að hafa oft séð nöfn íslenzkra stúdenta og annara, sem hafa verið leiðbeinendur ferðamanna og hlotið bezta orðstír frá þeim. Þessi önnur hlið, sem nefnd er í grg. frv., um fararstjórana og túlkana, er álíka vel undirbyggð eins og orðrómurinn um okrið á ferðamönnunum. Það getur vel komið fyrir, og það vita flestir, sem eitthvað hafa ferðast til útlanda, að það getur oft komið fyrir, að mönnum sé selt of dýrt það, sem þeir þurfa á kaupa, og það hefir viljað bera við t. d. í Sviss, að betra þætti að hafa gát á því, hve mikið þyrfti að borga fyrir þá hluti, sem ferðamenn þurfi að fá. Svo þó þetta kæmi fyrir hér, þá eru það engin eins dæmi. En ég vil endurtaka það, að þeir erlendir ferðamenn, sem ég hefi kynnzt, og ég hefi oft átt tal við þá, þegar þeir hafa verið á heimleið héðan, því þar sem ég bý í Vestmannaeyjum, ganga þeir oft um hlaðið, þegar þeir eru á heimleið. Það hefir þá oft borizt í tal um ferðalag þeirra hér á landi, og ég man ekki eftir einum einasta manni, sem hafa haft orð á því, að hann hafi orðið að borga hér of mikið fyrir nokkurn hlut eða á honum hafi verið okrað á einn eða annan hátt. — Það er talið hér í grg., að það séu um 200 þúsund kr., sem landinu berast árlega frá útlendum ferðamönnum fyrir allskonar viðskipti. Því er haldið fram í sambandi við þetta og flaggað með það af hálfu hv. flm. frv., að sá útlendi gjaldeyrir, sem berst hingað til landsins, hafi ekki skilað sér til bankanna, og þess vegna á að hafa hendur í hári þessa gjaldeyris með þessari einokun. Ég hefi fyrir satt, að því hafi verið hrundið í hv. Ed., og ég staðhæfi, að það hafi verið gert, og ég vil skora á hv. frsm. hér í þessari hv. d. að gera þetta meira sannanlegt heldur en gert er í grg. Þar er ekki meira en lausar fullyrðingar, eins og um okrið, og sleggjudómur, eins og um túlkana og fararstjórana, sem hvorttveggja virðist vera slúður.

Í grg. er því meðal annars haldið fram, að samskonar ríkiseinokun og hér er verið að undirbúa eigi sé stað í 5 ríkjum í álfunni, þ. e. a. s. í Ítalíu, Rússlandi, Tékkóslovakíu, Þýzkalandi og Austurríki, og er komizt svo að orði, að þau hafi komið á hjá sér einkarétti um þessi efni í mismunandi myndum, en þeir fara svo ekki lengra út í það að skýra þessar mismunandi myndir. Nú er þetta villa, og var sýnt fram á það af hv. andmælendum frv. í hv. Ed., að það er ekki í fimm ríkjum, eins og hér er sagt, og ekki heldur í einu ríki, ekki einu sinni í Rússlandi, og því til sönnunar nægir að benda á, að samkv. ákvæðum 1. gr. á ríkisstjórnin ein að hafa rétt til þess að starfrækja skrifstofu fyrir erlenda ferðamenn. Engar aðrar ferðamannaskrifstofur fá að vera til við hliðina á þessu ríkisfyrirtæki. En í því landi, sem lengst gengur í þessu efni og mun vera fyrirmynd flm. frv., bar hefir ferðaskrifstofa ríkisins, Inturist, ekki einkarétt, og aðrar ferðaskrifstofur mega starfa þar, þótt Inturist hafi viss forréttindi. Um hin löndin, sem nefnd eru í grg. er ekki komið nálægt því að sýna fram á, á hvern hátt þessi einkaréttur er framkvæmdur — í Tékkóslovakiu, Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki. Ég vil nú beina því til hv. formælenda frv., að þeir segi hv. d. frá því, hvernig hún er þessi einokun í þeim löndum, sem ég nú nefndi. Ég hygg, að það muni vefjast fyrir þeim að sýna fram á, að það sé einokun á þessu starfi í Þýzkalandi, í Ítalíu o. s. frv.

Það er talsvert erfitt að sjá, að með þessari einokun, sem hér er farið fram á, verði eiginlega nokkur framför í því að gera Ísland aðgengilegt sem ferðamannaland, og það er nokkurn veginn áreiðanlegt, að ferðamennirnir sjálfir verða ekki neitt himinfallnir yfir því, þótt þeim sé sagt, að íslenzka ríkið ætli að einoka allan ferðamannastraum til landsins. Ég held þvert á móti, að ef um slíkt vitnaðist, þá mundi það fæla marga ferðamenn frá að koma hingað, sem annars hefðu komið, svo megn andúð er gegn allri ríkiseinokun í nærliggjandi löndum, og það meira að segja þar, sem sósíalistar ráða lögum og lofum í ríkisstjórn.

Ég gat þess áðan, að ferðamannaskipin, sem hingað koma, flytja langsamlega stærstu og mestu ferðamannahópana, sem til Íslands koma, og þessi skip eða þau félög, sem að þeim standa, hafa í mörg ár haft sína föstu umboðsmenn, og það er ekki sérlega líklegt, að þessi félög myndu hafa sömu umboðsmennina ár eftir ár, ef þeir okruðu á viðskiptamönnunum. Ef þau væru ekki ánægð með umboðsmenn sína, þá mundu þau skipta um og fá sér aðra, en það hér ekki oft við, og ég held, að ekki séu dæmi til þessa, að erlend ferðamannaskip hafi skipt um umboðsmenn hér, og ég þori að fullyrða, að það hafi aldrei komið fyrir. Það að erlendu félögin skipta ekki um umboðsmenn sína og halda samböndunum við þá, ber vott um, að viðskiptin hafi ekki verið þeim á móti skapi, og þegar þessa er gætt í sambandi við annað, þá finnst mér það nokkuð hart af hinu háa Alþingi að gera löggjöf, sem bannar skipununi að skipta áfram við þessa viðskiptamenn sína.

Annars hafa sumir þeirra, sem talað hafa fyrir frv., haft mjög skrítna hugmynd um, hve víðtækt valdsvið þessarar stofnunar ætti að vera. T. d. sagði hv. frsm. frv. í hv. Ed., að ferðaskrifstofan ætti að regulera ferðamannastrauminn til landsins!! Hún átti að segja þessum stóru gufuskipa félögum fyrir verkum. Eftir hugmynd þessa hv. frsm. átti ferðaskrifstofa íslenzka ríkisins að segja þessum amerísku, frönsku, þýzku, hollenzku og ensku gufuskipafélögum til um það, hvenær þeir mættu senda ferðamannaskipin hingað til Íslands!! Það er ekkert óeðlilegt og sæmir vel öðru eins frv. að hafa þann frsm., sem heldur fram jafnmikilli vitleysu og það er, að ferðamannaskrifstofan geti haft áhrif á og „regulerað“ ferðir gufuskipanna frá þeim sérstöku „línum“, sem fara með skemmtiferðafólkið, ekki eingöngu til Íslands, heldur stóra hringferð, frá Íslandi til Spitsbergen og Noregs og síðan suður til Danmerkur og Mið-Evrópu.

Annars er ég ekki frá því, eins og ég sagði áðan, að það gæti verið full hætta á því, að ríkiseinokun hefði fælandi áhrif á ferðamannastrauminn hingað til landsins. Það er aðgætandi, að ekki eru allir útlendingar eins ginkeyptir fyrir þjóðnýtingu eins og hið íslenzka framsóknar- og jafnaðarmannalið. Við höfum á undanförnum árum fengið ýmsa löggjöf um þjóðnýtingu í ýmsum myndum innanlands, og náttúrlega er það á valdi þingmeirihluta að einoka ýmsar verzlunargreinar og starfsgreinar fyrir landsmenn sjálfa. Ríkið á þegnana og þeir, sem fara með valdið, geta misbeitt því á ýmsan hátt og kúgað þegnana, eins og hv. þingmeirihluti gerir nú, án þess að þegnarnir fái rönd við reist í bili. Við eigum það við sjálfa okkur, hve mikið við viljum leggja á okkur af fjötrum í þessum efnum. En þessi aðferð horfir öðruvísi við mönnum, sem búsettir eru í öðrum löndum. Þingmeirihlutinn hefir ekki eins mikil tök á að keyra þá menn í einokunardróma mótmælalaust og möglunarlaust. A. m. k. getum við ekki komizt hjá þeirri gagnrýni, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða víðsvegar um lönd hjá þeim mönnum, sem annars vita nokkuð um Ísland og taka eftir því, sem hér er að gerast. Þeir munn áreiðanlega veita því eftirtekt, þegar búið er að innleiða hér ríkiseinokun á ferðamönnum þeim, sem til landsins koma. Þess vegna er full ástæða til þess að vara við að beita einokunaraðferð gagnvart útlendum ferðamönnum, sem til landsins koma, ef við viljum græða á þeim peninga, þó ekki tjái að vara við þeirri einokunarherferð, sem þingmeirihlutinn hefir hafið á hendur landsmönnum sjálfum.

Ég sá fyrir skömmu grein í Morgunblaðinu, sem rituð er af manni, sem í fleiri ár hefir staðið að því að taka á móti ferðamönnum, og er þetta mál tekið þar til gagnrýni.

Þessi maður, sem er hr. Björn Ólafsson, sýnir fram á, hve rangar þær ásakanir eru í garð ferðaskrifstofu þeirrar, sem hér hefir starfað, sem koma fram í grg. fyrir frv. því, sem hér um ræðir. Í sambandi við þessa ritgerð hr. Björns Ólafssonar vil ég taka fram áður en ég vitna þar í einstök atriði eftir honum, að hann hefir staðið með mikilli prýði fyrir móttöku erlendra ferðamanna, og hefir hún verið í alla staði ólastandi. Hefir Björn staðið fyrir ferðaskrifstofum Heklu, og hefir því langa reynslu af því að taka á móti og leiðbeina ferðamönnum. Hann segir, eins og ég hefi bent á, að fyrir þessu frv. séu færðar fjórar veigamiklar ástæður. Fyrst minnist hann á það, sem flm. frv. telja, að geri það nauðsynlegt, að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að hæna ferðamennina að. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í grg. frv. er líka leitast við að draga fram ástæður fyrir þessu, og þær eru í aðaldráttum þessar:

1. Ríkisrekstur er hið eina fyrirkomulag, sem tryggir það, „að unnt verði að einbeita sér í málinu, sem þörf er á. Þessi einkaréttur skrifstofunnar til slíks starfs er á engan hátt eins dæmi“. Er bent á, að sama skipulag sé í Rússlandi, Tjekkóslóvakiu, Austurríki, Þýzkalandi og Ítalíu.

2. Menn láta undir höfuð leggjast að skila gjaldeyrinum inn til bankanna.

3. „Orð leikur á“, að erlendum ferðamönnum sé seldur greiði og farartæki hóflausu verði. „Úr þessu verður naumast bætt, eins og háttar til hér á landi, nema með því að sérstök ríkisstofnun taki málið í sínar hendur“.

4. Ferðamannastraumurinn til landsins þarf að aukast. Til þess þarf margskonar auglýsingar- og kynningarstarfsemi, sem einstaklingar hafa ekki bolmagn til að kosta. Þess vegna þarf ríkið að taka verkefni þetta í sínar hendur.

Eins og sjá má af þessu, eru rökin fyrir nauðsyn þessa skipulags ekki eins þung á metunum og ætla mætti. Ekkert af ofangreindum atriðum bendir á nokkra höfuðnauðsyn. Og það, sem meira er um vert, sum af rökunum hafa við enga stoð að styðjast. Þau eru byggð á misskilningi og ókunnleika.

Um fyrsta atriðið er það að segja, að slíkt skipulag á ferðamannastarfsemi á hvergi sinn líka í nokkru landi í heiminum. Rússland er eina landið, sem hefir ríkisrekstur á þessari starfsemi. En þó er frjálsræðið svo mikið meira í þessum efnum í Rússlandi en það verður á Íslandi eftir að frv. er orðið að lögum, að í Sovjetríkjunum geta ferðaskrifstofur starfað í sambandi við ríkisskrifstofuna „Intourist“, en á Íslandi verður slíkt bannað. Margir hafa trúað því til þessa, að ekki væri hægt að ganga lengra í ríkisrekstri en gert er í Rússlandi. Mikil börn eru þeir, sem slíku hafa trúað. En til á þessa braut hefir jafnvel Rússland ekki þorað að leggja. Ekkert hinna landanna, sem nefnd eru til fyrirmyndar, hafa ríkisrekstur í nokkurri mynd á ferðamannastarfsemi. Sú staðhæfing í grg. er röng og stafar vafalaust af ókunnleika, eins og auðvelt er að sanna.

Um annað atriðið, þar sem mönnum er borið á brýn, að þeir hafi ekki skilað gjaldeyrinum, þarf Ég ekki að vera langorður. Hefir áður verið sent fram á og sannað, að slík aðdróttun er með öllu ómakleg og á sér ekki stoð í veruleikanum.

Um þriðja atriðið, „okrið“ á erlendu ferðamönnunum, hefir svo lengi og oft verið ritað í stjórnarblöðunum, að gengið hefir ofsóknum næst. Hafa blöð þessi verið með fullyrðingar um, að verðlag á því, sem útlendingum er selt hér, sé svo hátt, að þjóðinni væri það bæði til vansæmdar og skaða. Þeir menn, sem sakaðir hafa verið um þetta, hafa sjaldan reynt að bera hönd fyrir höfuð sér og látið sig litlu skipta gífuryrðin, róginn og svívirðingarnar. Þögn þeirra hefir verið skilin svo af mörgum, að allt sé rétt, sem á þá er borið. Þetta atriði um okrið, er ein aðaluppistaðan fyrir skipulagningunni. En einnig þetta hefir við engin rök að styðjast.

Allir þeir erlendu ferðamenn, sem hingað koma með millilandaskipunum, hafa tækifæri til að ferðast hér í fjóra daga fyrir £l:15:0 eða kr. 38.75 á mann. Verð þetta er prentað í ritlingum, sem ferðamönnum eru gefnir og verður því ekki rengt. Það, sem ferðamennirnir fá fyrir nefnda fjárhæð, er þetta. Fyrsta daginn er þeim sýnt allt hið markverðasta í borginni. Annan daginn er farið með þá til Grýtu og Gullfoss og gist um nóttina að Laugarvatni. Þriðja daginn er farið til Þingvalla og komið til Rvíkur um kvöldið. Fjórða daginn er farið til Hafnarfjarðar. Annan og þriðja daginn er þeim séð fyrir fæði og gisting. Leiðsögumaður er með þeim alla dagana.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir, hvort hér er verið að féfletta ferðamennina með hóflausu verði, virtist liggja beint við að athuga, hvað slíkt ferðalag mundi kosta Íslendinga sjálfa með því að ferðast á ódýrasta hátt, en það er með áætlunarbílum. Þá verður útkoman þannig:

Geysir, 1 sæti fram og aftur ........ kr. 16.00

Þingvellir, 1 sæti fram og aftur ....... — 6.00

Laugarvatn (frá aðalveginum) ........ — 2.00

Hafnarfjörður .................................. — 1.00

Gisting og matur að Laugarvatni .. — 10.00

Matur á Þingvöllum ........................ — 3.50

Matur á leitinni ............................... — 2.00

Kr. 40.50

Þetta er útlendingum selt hér á kr. 38.75, og auk þess fá þeir leiðsugu ókeypis í fjóra daga, að ógleymdri fyrirhöfn þeirra manna, sem sjá um þessa framkvæmd. Eftir þessu, sem að ofan greinir og ekki verður hrakið, geta útlendingar ferðast á umræddri leit ódýrar en landsmenn sjálfir. Þetta er sorgleg staðreynd fyrir þá, sem heimta ríkisrekstur á ferðastarfsemi til þess að vernda útlendinga gegn okri“.

Ég hefi talið nauðsynlegt að láta þessi rök koma fram, til þess að staðfesta það, sem ég hefi áður sagt, því þar sem er Björn Ólafsson, talar maður, sem hefir fulla þekkingu á þessum málum. — Það er annars eftirtektarverð og sorgleg staðreynd, að fullyrðingar og staðleysur eins og í þessari grg. skuli vera bornar fram opinberlega aðeins sem rógur vegna öfundar til þeirra manna, sem aðallega hafa haft með höndum að taka á móti ferðamönnum undanfarandi ár.

Ég hefi nú ef til vill að sumra dómi notað nægilegan tíma í þessa fyrstu ræðu, en mér hefir þótt rétt að benda á, eins vel og unnt er, þær stóru veilur, sem eru á því að einoka ferðamannastrauminn til landsins. En ég hefi gert það fyrst og fremst vegna þess, að ég er sannfærður um, að það er komið fram af óheiðarlegum hvötum með aðdróttunum til þeirra manna, sem farið hafa með þessi mál, eins og grg. frv. öll ber vitni um, en náði þó hámarki hjá frsm. málsins í Ed.

Þó ekki sé um stóra upphæð að ræða, ca.

200 þús. kr. í erlendri mynt, sem talið er, að ferðamennirnir skilji eftir í landinu, er ekki gerandi leikur að því með heimskulegum og illgjörnum lagasetningum að fæla meiri eða minni hluta þeirra frá að koma til landsins og hafa þannig af þjóðinni þær tekjur, sem hún annars mundi hafa af útlendum ferðamönnum.

Það er ábyggilegt, að þetta mál er ekki meðal þeirra mála, sem þjóðin telur nú mestu skipta. Það kann að vera, að það sé áhugamál einhverrar klíku hér í Rvík, sem vill troða sér eða sínum nánustu inn í eitthvert starf í skjóli þess, en það er áreiðanlega þjóðinni ekkert áhugamál. Fulltrúum þjóðarinnar ber skylda til. jafnvel þó þetta sé í upphafi skoðaður hégómi, að forða þjóðinni frá því, að svona skaðræðislöggjöf sé sett, sem bæði verður til þess að skaða álit landsins út á við og bægja ferðamannastraumnum frá landinu.