17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var ætlunin að gera að umtalsefni ýms atriði úr ræðu hv. þm. Hafnf., en bar sem að nú er komið langt fram á nótt, mun ég mjög takmarka mál mitt. Það er eitt atriði, sem ég vil benda á, áður en málið fer til n., og það er, hvort ekki sé óráðlegt að knýja fram á þessu þingi slíkt mál sem þetta. Málið er í raun og veru ekki mikilsvert. Það er skammt til næsta þings, og ég sé ekki, að það ætti að stafa neinn háski af því, þó á það dragist um fáa mánuði að afgreiða þetta frv. Mér dettur það næstum því í hug, og meira en næstum, enda mun fleirum hafa komið það til hugar, að það sé einhver önnur frekari nauðsyn heldur en almennir þjóðarhagsmunir, sem liggja til grundvallar fyrir því mikla kappi, sem á það er lagt að ljúka þessu máli. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að það er ákaflega algengt, að mál, sem eru mikilsvarðandi fyrir þjóðfélagið, þurfi langan tíma til að mótast, áður en þau verða að l. Og ég hygg, að það sé almennt álitið nauðsynlegt um þau, sem mikla þýðingu hafa, að þau séu lengi á leiðinni. Hinsvegar skiptir það sjálfsagt minna um ómerkileg dægurmál.

Í þeirri löngu og daufu grg., sem fylgir frv., er sagt, að á síðasta þingi hafi þetta mál ekki verið flutt á réttum grundvelli og ekki stefnt að réttu marki. Þetta mál hefir sáralítið verið gert að umtalsefni, og ég veit ekki betur en að það hafi algerlega verið gengið fram hjá þeim mönnum við undirbúning þessa frv., sem hafa unnið að þeim málum af nokkrum krafti og sett sig inn í þau. En að undirbúningi málsins hafa unnið menn, sem hafa enga praktíska þekkingu á því. Ég verð því að telja mjög misráðið, að ýta aftur fyrir þetta mál miklum nauðsynjamálum, sem varða þjóðina mikils, en þetta frv. er keyrt fram hálfkarað, sem engin nauðsyn er á, að verði afgr., og skiptir engu, hvort það verður að lögum nú eða á næsta ári. Samt sem áður er verið að knýja það hér fram á næturfundum með ofstopa og svigurmælum þeirra þdm., er að því standa, en stórmál, sem varða atvinnuvegi landsins, sitja á hakanum.

Af því að nú er næturfundur, og þetta mál kemur væntanlega hér aftur til umr., þá ætla ég að ganga framhjá ýmsum atriðum, sem ég hefi skrifað hjá mer. En þó er það eitt atriði, sem ég vil drepa á, en það er viðvíkjandi því, hvernig á að afla skrifstofunni fjár. Ég held, að það geti ekki orðið neinn ágreiningur um það, að þeir, sem eiga að njóta þeirra þæginda, sem ferðamannaskrifstofan kemur til með að velta, verð jafnframt að borga fullkomlega fyrir þat. Það er næsta einkennilegt, ef ferðamannastraumur útlendinga á að verða einhverskonar plága á Íslendingum, þegar það er alstaðar annarsstaðar talinn fjárhagslegur fengur að ferðalögum útlendinga. En hér virðist eiga að refsa saklausum almenningi í landinu, með því að leggja á hann skatta til þess að standa straum af ferðamannaskrifstofunni, sem eingöngu verður rekin fyrir útlenda ferðamenn. Vitanlega er það eðlilegast, að skrifstofunni sé aflað fjár á þann hátt, að þeir, sem eiga að njóta þægindanna, borgi fyllilega fyrir þau. Annars get ég nú þegar lýst því yfir, að mér finnst það mjög eðlilegt, að ríkið ætli að því á einhvern hátt að laða erlenda ferðamenn til landsins, t. d. með því að kynna það erlendis. Af því hefir þjóðin bæti beinan og óbeinan hag. En ég er sannfærður um, að atstoð ríkisins kemur að beztum notum þannig, að einstakir menn, sem gera það að atvinnu sinni að leiðbeina ferðamönnum, séu styrktir til þess. Vitanlega ætti ríkið jafnframt að hafa eftirlit með starfsemi þeirra manna, sem hafa atvinnu af því að taka á móti ferðamönnum. Það er áreiðanlegt, að ágreiningurinn í þessu máli, er ekki um það, sem hv. þm. Hafnf. vildi láta á sér skilja, að annars vegar séu þeir menn, sem vilja útiloka erlenda ferðamenn frá landinu, en hinsvegar framsýnir sósíalistar, sem vilja laða þá hingað. Mér hefir fundizt, að menn vildu yfirleitt, þeir sem á málið hafa minnzt, utan þings og innan, að ferðamannastraumurinn ykist; bæði vegna þess að þá mundi meira fé streyma inn í landið, og eins vegna hins, að það er heppilegasta aðferðin til að kynna landið út á við. Ég hefi sem sagt ekki orðið var við ágreining um þetta. En ágreiningurinn er um allt annað. Sá ágreiningur er á milli allra frjálslyndra manna í landinu annars vegar og hins vegar kommúnistanna, það er að segja íslenzkra sósíalista, sem eru róttækustu kommúnistar í heimi. Þeir vilja þröngva öllu undir ríkisvaldið, drepa niður alla frjálsa þróun og kyrkja framtak einstaklingsins, en keyra allt í greipar ríkisins. — Frjálslyndu mennirnir trúa því aftur á móti og vita það raunar, að Ísland verður því aðeins ferðamannaland, að héðan berist þær fréttir út um löndin, að hér sé farið með útlendu gestina á frjálsan máta. Það er þetta, sem skilur, en ekki hitt, að aðrir vilji útiloka ferðamannastrauminn frá landinu, en hinir greiða fyrir honum. Ég hefi skrifað hjá mér margar aths., en af því nú er langt liðið á nótt, þá mun ég geyma til 2. umr. að minnast á það. Ég endurtek það, að þetta mál á engan rétt til þess á því stigi, sem það nú er, að vera rekið í gegnum þingið með ofsahraða. Og verð það gert, þá verður frágangurinn hið mesta flaustursverk. Þess eru að vísu ekki fá dæmi um afgreiðslu mála á Alþingi, en venjulega hefir það gefizt illa, svo að þeim hefir verið breytt eftir lítinn tíma. Ég vænti því, að hv. þdm. sporni við því á sæmilegan hátt, að þetta mál verði hér útkljáð með ofsahraða.