22.11.1935
Efri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það er aðallega eitt atriði í frv., sem ágreiningur er um milli mín og hv. 1. þm. Eyf., frsm. n. — Það er atriðið í 7. gr. á þskj. 440, en var 6. gr. í frv. því, sem ég flutti að þskj. 454.

Samkv. þessu ákvæði er grænmetisverzlun ríkisins að vísu ætlað að verzla með allt grænmeti, sem hún flytur inn, en það er ekki gert ráð fyrir, að hún verzli með innlenda framleiðslu nema að framleibendur óski þess. Þeim er heimilt að selja hana hverjum sem vera skal. Nú er ég hræddur um, að það verði lítið skipulag á sölu þessa innlenda grænmetis, ef salan fer ekki öll fram í gegnum grænmetisverzlun ríkisins. Þess vegna býst ég við að flytja brtt. við 3. umr., þess efnis, að í stað 7. gr. þessa frv. komi 6. gr. úr frv. því, sem ég flutti. — Þetta er nú aðalágreiningurinn, en að öðru leyti er ég sammála meðnm. mínum um þar brtt., sem n. hefir gert á frv. Þessi ágreiningur er ekki ákaflega mikill, en eins og ég þegar hefi tekið fram, þá tel ég miklu heppilegra, að grænmetisverzlunin hafi til meðferðar allt grænmeti, sem framleitt er innanlands til sölu.

Ég tel víst, að hér á Suður- og Suðvesturlandi, þar sem grænmetisframleiðslan yrði langsamlega mest, mundi það valda miklum glundroða og erfiðleikum, ef hver framleiðandi ætti að pota út af fyrir sig við sölu á framleiðslu sinni, og jafnframt yrði það stórum erfiðara fyrir grænmetisverzlunina að leysa sitt hlutverk af hendi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira.