30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það eru þegar komnar fram allmargar brtt. við frv. þetta, og kynni því að vera ástæða til þess að fá umr. frestað, svo n. gæfist kostur á að athuga þær. En þar sem ein þýðingarmesta brtt. er komin frá einum nm., og þannig kominn fram ágreiningur í n., mun ég ekki gera kröfu um það, að n. fái frv. til athugunar á ný. Af því, sem ég nú hefi sagt, leiðir það af sjálfu sér, að það, sem ég segi um brtt., er á mína eigin ábyrgt, en ekki landbúnaðarnefndar.

Fyrsta brtt. er á þskj. 599, og er þess efnis, að verðlaun verði veitt fyrir aukna ársframleiðslu á kartöflum, sem nema 3 tunnum og yfir. Ég get alls ekki fallizt á að lækka þetta lágmark svona mikið, fyrst og fremst sökum þess, að þó framleitt sé til heimilisnota, þá tel ég ekki rétt að verðlauna það, og í öðru lagi yrðu verðlaunin svo lítil, að það munaði ekkert um þau. Þannig yrðu þau fyrsta árið 9 kr. fyrir 3 tunnur, 6 kr. annað árið, og 3 kr. síðasta árið. Þetta myndi engan draga neitt.

Þá hefir hv. fjvn. borið fram brtt., svo sem vænta mátti, þar sem einn nm. bað um, að þessu máli yrði vísað til hennar. Skal ég ekki beinlínis mæla á móti þeim, en ekki tel ég það viðeigandi að ætla fjvn. vald á milli þinga, eins og lagt er til í þessum till., og efasamt, að nokkur fjvn. sé þá til. Annars hefir landbn. enga afstöðu tekið til þessara tillagna, og mun ég því ekki fara fleiri orðum um þær.

Þá kem ég að þeirri brtt., sem virkilegur ágreiningur er um, en það er brtt. hv. 4. landsk. í henni felst það ágreiningsatriði, sem varð þess valdandi, að 2 frv. komu fram um þetta mál í vetur, og sem kunnugt er þótti það mjög einkennilegt. Í blöðunum var skýrt frá því, að það, sem á milli bæri í frv., væri það, að í öðru frv. væri svo til orða tekið, að heimilt væri að taka einkasölu á kartöflum, en í hinu væri sagt að það skyldi gert. Það lítur nú helzt út fyrir, að þeir, sem skýrðu þetta þannig í blöðunum, hafi aldrei lesið frv., því að ágreiningurinn er allt annar. En hann var eins og hann kemur nú fram í brtt. á þskj. 602, sem hv. 4. landsk. flytur, sem sé sá, hvort taka skuli einkasölu á öllum kartöflum, jafnt útlendum sem innlendum. Í frv. eins og það liggur fyrir nú er einkasala aðeins heimiluð á útlendum kartöflum. Einkasalan nær því aðeins til þeirra vara, sem inn eru fluttar, en verzlun með innlenda framleiðslu er alveg frjáls. Nú vill hv. 4. landsk. ekki heimila beina sölu á innlendri framleiðslu nema til neytendanna, en þessu er ég mótfallinn. Ein af röksemdum hv. 4. landsk. með brtt. hans var sú, að það myndi valda glundroða í verzluninni með þessa hluti að hafa hana eins og ætlazt er til í frv., og jafnframt gera verzlunina áhættusamari. Þetta held ég, að sé mesti misskilningur. Ef einkasala er á öllum kartöflum, jafnt útlendum sem innlendum, sé ég ekki annað en að verzlunin yrði þá að hafa útibú á flestum höfnum landsins, og vitanlega yrði það mjög kostnaðarsamt og mjög þungt í vöfum. En hitt held ég yrði miklu einfaldara, að menn geti selt þessa vöru sína til þeirra, sem þeir eru vanir að selja afurðir sínar, t. d. að bændur geti lagt kartöflur inn í sitt kaupfélag eða inn hjá þeim kaupmanni, sem þeir eru vanir að verzla við, og kaupfélagið eða kaupmaðurinn sjái svo um söluna út til neytendanna. það kann að vísu að vera rétt, að með þessu fyrirkomulagi verti kannske frekar áhætta fyrir grænmetisverzlun ríkisins, en þar sem hún hefir innflutning til landsins í hendi sér og getur ráðið honum alveg, þá geri ég ekki mikið úr því.