30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Pétur Ottesen:

Ég sýndi fram á það við 2. umr., að hægt væri að ná tilgangi þeim, er frv. stefnir að, með heppilegri hætti, og að síðasta þing hefði stigið spor í þessa átt. Það táknar því enga viðurkenningu á þessu frv. né þeirri stefnu, sem mörkuð er með því, frá minni hálfu, þótt ég flytji nú brtt. við það.

1. brtt. mín er, við 9. gr. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir því, að ég teldi óheppilegt að skipa verðlagsnefndina, eins og þar er ákveðið. Mín brtt. er í samræmi við þá skoðun. Ég álít, að framleiðendur eigi að ákveða verðið, og þá er stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem er allsherjar félagsskapur bændanna, auðvitað sjálfkjörin til þess að skipa n. að fengnum tillögum búnaðarsambandanna úti um land, því að þar er náin samvinna á milli, eins og líka á að vera. Búnaðarsamböndin hafa einmitt gert mikið að því að ýta undir kartöfluræktina úti um landið, og því er rétt að þau geri till. — Þá geri ég till. um það, að þeir menn, sem að þessu starfa, fái þóknun fyrir, því að fremur hér í þessum efnum að líta á hæfileika og skilning, — heldur en það eitt, að menn séu svo vel stæðir, að þeir geti unnið kauplaust. En hinsvegar eru þær skorður reistar við þóknun til þessara manna, að þeir skuli ekki fá meira en 10 kr. fyrir hvern fund. Þær greiðslur geta því aldrei orðið þungur baggi á grænmetisverzlun ríkisins. — Þá flyt ég brtt. um orðalagsbreytingu í 1. málslið 10. gr. Ég vil láta orða þann lið upp án þess að hugsunin breytist þó nokkuð. Einnig legg ég til, að breytt verði orðalagi á 3. mgr., svo að það komi skýrt fram, hver á að vera aðalgrundvöllurinn undir verðskráningunni á garðávöxtum, sem sé það, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð. Þetta er tilgangur frv. samkv. yfirlýsingu hv. þm. Mýr, þótt það sé óljóst orðað, en með mínu orðalagi verður þetta ótvírætt. — Þá er síðasta brtt. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að verðlaun séu borguð fyrir minna en 5 tunnur. En af því að ég álít, að sú uppörvun, sem í verðlaununum felst. þurfi að ná til sem flestra, legg ég til að færa þetta niður í 3 tunnur. Auk þess legg ég til, að felld sé niður 3. málsgr., sem mér finnst vera í ósamræmi við bráðabirgðaákvæðin að öðru leyti. Mér finnst ekki ástæða til að gera upp á milli einstaklinga og bæjar-, sveitar- og samvinnufélaga hvað hámark snertir. Síðari málsliðurinn verður óþarfur, ef brtt. mín er samþ., og legg ég því til, að hann falli niður. — Eins og ég gat um við 2. umr., er ég því mótfallinn, að með mál þetta skuli hafa verið farið inn á þessa einokunarbraut, en hér eru svo sterk öfl að verki, að þess mun enginn kostur að víkja málinu af þeirri braut, og því hefi ég ekki borið fram breytingar í þá átt, en í þess stað reynt að bæta augsýnilega galla á einstökum atriðum frv.