30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál langt erindi. Ég skal játa það, að ég hefi ekki mikla trú á því, að það verði til hagsbóta fyrir alþýðu manna, að ríkisvaldið setji á fót einokun í kartöflum. Það hafa á undanförnum árum verið flutt frv., sem hafa átt að ýta undir kartöfluræktun í landinu, en flest hafa þessi frv. verið með allskonar þvingunarrástöfunum, sem sýnilega hafa stefnt að því að torvelda kartöflukaup fyrir fólki, sem þarf að kaupa kartöflur um suma þá tíma ársins, sem þessi vara hefir fengizt í sæmilegu úrvali. Um verðið skal ég ekki tala, en að undanförnu hafa mér þótt þessi frv. stefna í þá átt að þvinga menn til þess að kaupa innlendar kartöflur, þótt þær væru lakari en útlendar kartöflur, sem fáanlegar væru á sama tíma. Nú hefir það samt tekizt, að þessi meira og minna dulbúna einokun komist til framkvæmda, og hingað til hefir það verið þannig, að hv. þm. jafnaðarmanna hafa verið á móti þessum tilraunum, sem hv. þm. Mýr. hefir venjulega haft forustu fyrir, til að torvelda það, að fólk hefði aðgang að þessari vörutegund. Ég vil aðeins í því sambandi minna á, að á þinginu 1932 var flutt frv. um innflutning á kartöflum. Það frv. mun hafa verið flutt af landbn., og um það fórust einum hv. þm. jafnaðarmanna hér í hv. d. þannig orð, að hann vildi ekki athyllast þetta frv., sem þar var á ferðinni, og sagði svo meðal annars, það er hér smákafli úr ræðu, sem ég vil lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Ef ætti að koma skipulagi í þessa framleiðslu, þá yrði ég og jafnaðarmenn fyrstir manna til að verða með þessu, en þá yrði að taka málið öðrum tökum. Þá þyrfti fyrst og fremst að rannsaka, hvar á landinu væru bezt skilyrði fyrir kartöflurækt og kálmeti og hvernig henni yrði haganlegast og ódýrast fyrir komið til þess að fullnægja þörfum landsfólksins. En síðan væri að koma í fullnægjandi rækt á þessum stöðum og á þennan hátt, og má þá vænta, að fyrst og fremst yrtu teknir þeir staðir, þar sem gnægt er af jarðhita, svo sem í Reykjum í Ölfusi, og komið þar upp stórum kálmetisbúum, en ekki hlynnt að dreifðri og óskipulegri ræktun til sölu. Þá mundi og söluskipulag komast í fyrir allt landið, en því er ekki að heilsa hér í Gósenfrumvarpi einstaklingshyggjunnar. Þá yrði fylgt kenningum sósíalismans í þessari atvinnugrein sem öðrum“.

Sem sé, hv. 2. þm. Reykv. var óánægður með það frv., sem þá var lagt fram, vegna þess að það var ekki byggt í anda sósíalismans. — Ég hefi átt samleið með jafnaðarmönnum í því að leggja á móti því að torvelda innflutning á kartöflum, þar sem það er kunnugt, að í landinu hefir ekki verið framleitt nóg af þessari fæðutegund. Síðar þetta gerðist hefir kartöfluræktun aukizt í landinu, og ennfremur eigum við nú verra met, vegna peningaleysis, að kaupa útlendar kartöflur heldur en við áttum þegar þetta frv. var á ferðinni. Það er rétt að kannast við það, að nú mælir margt með því að styðja og efla innlenda framleiðslu á þessari vöru, en þess verður samt að gæta að kartöflurnar eru sú fæðutegund, sem ætti að vera á hvers manns borði í hverjum degi, og hvarvetna er talin hin mesta nauðsyn fyrir velferð alþýðu, að hægt sé að hafa aðgang af góðum jarðeplum. — Það hefir brunnið við hér, að kartöflusýki hefir eyðilagt uppskeruna, og brennur en við. Ég held, að það komi oft glöggt fram, að kartöflur eru misjafnlega góð vara og getur verið ill frambærilegur jarðarávöxtur á móts við reglulega góðar kartöflur. Það þarf að vera svo með þessa tegund, að fólk eigi alltaf aðgang að góðri vöru, og því fer fjarri, að það sé sama, hverjar kartöflurnar eru.

Hv. þm. Mýr. hefir, eins og kunnugt er, lengi staðið í stimpingum um þetta mál og haft jafnaðarmenn á móti sér, af því að ekki hefir verið fylgt kenningum sósíalista, eins og hv. 2. þm. komst að orði, en nú er svo að sjá sem hv. þm. Mýr. og jafnaðarmenn hafi orðið á eitt sáttir með að koma af stað ríkiseinokun á kartöflum. Jafnaðarmenn hafa á undanförnum árum, eins og ég tók fram, verið á móti öllum sölu- og innflutningshöftum á kartöflum, vegna þess að þeir álitu, eins og ég og fleiri, að ekkert mætti gera til að torvelda, að fólk gæti fengið góðar kartöflur til daglegrar neyzlu, sérstaklega í sjávarþorpunum, — því að í sveit kaupa menn vitanlega ekki útiendar kartöflur. En nú yfirgefa þeir líka þennan málstað til þess að geta klúðrazt með sinn ríkisrekstur. En vitaskuld, frá sjónarmiði þeirra er það bót í máli, að þeirra eigið fyrirkomulag á þarna að komast að, en samkomulag getur ekki verið svo í augum annara manna. Mér virðist þetta frv. hafa alla þá galla, sem áður var að finna á hinum ýmsu frv., sem borin hafa verið fram um innflutningshömlur á kartöflum í því skyni að auka innlenda ræktun, allar þær gallahliðar, sem snúa að fólkinu, og þann höfuðgalla hefir þetta frv. í viðbót, að nú á að gera kartöfluverzlun að ríkiseinokun.

Ég held það hafi verið hv. þm. Mýr, sem svo sorglega oft hefir það hlutskipti að mæla fram með þeim málum, sem ætla má, að honum séu mjög ógeðfelld, sem sagði óþarft að gera þessa vöru dýrari, þó að til ríkisrekstrar væri stofnað. Við höfum nú reynsluna fyrir okkur, hvað allar þær vörur, sem komizt hafa undir ríkiseinokun, hafa hækkað í verði, og það svo að segja strax eftir að einokunarhelsinu var smellt á þar. T. d. var mjög nýlega sýnt opinberlega fram á, að vörutegundir nokkrar, sem nýlega voru settar undir einokun ríkisins, hækkuðu að mun. Ég á við raftækin. Alveg eins fer vitaskuld um kartöflurnar. Með frv. þessu dregur að því, að fólki verði ekki einasta torveldað að kaupa kartöflur á borð sitt, og að það eigi kost á að hafna og velja; hitt er ég jafnsannfærður um, að kartöflur og grænmeti verður miklu dýrara þegar ríkið fer að verzla með þær vörur heldur en nú. Ég er sannfærður um þetta af því, að þetta er reynslan um allar þar vörutegundir, sem ríkið verzlar með. Skipulagið sjálft hefir þetta í sér fólgið, eins og sjálfsagt hefir þótt að framkvæma það, það er mikið mannahald, skeytingarleysi í innkaupum og þvíumlíkt. Allt er eins og ábyrgðarlaust af þeim, sem við stofnunina starfa. Þessar orsakir hljóta að gera vöruna dýrari, og hafa jafnan gert það. — En við þetta bætist svo það, að nú virðist sá vera uppi hjá hæstv. stj., að það verði bara að pressa peninga inn í ríkissjóðinn á einhvern hátt. Saga þessa þings sýnir ljóslega, að þær leiðir eru farnar í þessu skyni, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum mundu taldar algerlega ófærar og svo að segja óframkvæmanlegar. Skattar og tollar eru nú skrúfaðir svo upp og á þeim hert, að þess munu óvíða og jafnvel hvergi dæmi. — Þegar nú þetta hugarfar er komið inn í valdhafana, þá er því alveg samstætt, að ríkisstofnanir eru látnar hækka útsöluverð hinna ýmsu vörutegunda, til þess að ríkið geti grætt meira á verzluninni en ella. Og ég tel víst, að t. d. raftækjaeinokunin og þær aðrar stofnanir, sem hafa hækkað svo gífurlega verð hjá sér, hafi gert það með fullu samþykki og jafnvel skipun sinna yfirboðara. Þegar ríkið er búið að taka þannig verzlun á vöru í sínar hendur, þá er óhætt að hækka verðið alveg rólegur, ekki þarf samkeppnina að óttast. — Hv. þm. Mýr. verður að ganga undir jarðarmen í þessu máli. Stundum hefir hann gert það áður, en þó aldrei eins greinilega og nú, er hann gerist nú frsm. að frv. um hreina og beina ríkiseinokun á annari eins vöru og gerist verkamaður í vingarði sósíalista. Hann gerist nú formælandi þess skipulags, sem hv. 2. þm. Reykv. taldi árið 1932, að væri hið eina skipulag á þessari verzlun, sem sósíalistar gætu unað við.

Ég hirði ekki að ræða einstakar gr. þessa frv. Ég hefi alltaf verið mótfallinn höfuðatriðunum sjálfum í slíku máli, að reynt væri að auka kartöfluræktunina með því svo að segja að loka fyrir allan innflutning annars staðar frá. Í fyrsta lagi er langt frá því, að enn sé framleitt svo mikið af góðum kartöflum hér á landi, sem landslýður þarfnast. Í öðru lagi er það, að þegar ekki er að keppa við neina betri vörutegund, er minni hvot hjá framleiðendum að vanda þessa vöru. Og það er hættulegt atriði. En að kartöfluframleiðendur séu studdir jafnvel með opinberum ríkisstyrk, álít ég rétta leið til að auka kartöfluframleiðsluna í landinu. Það er nú vitanlegt, að sósíalistar hafa nú gleymt allri þeirri gagnrýni, sem þeir áður beittu gegn því að torvelda innflutning á kartöflum, gleymt þeirri umhyggju, sem þeir hafa látið í ljós, að þeir bæru fyrir neytendum, til þess að komast í sitt Gósenland ríkiseinokunarinnar. Það er þeim nóg. Hvernig sem fer um þá hlið, sem að neytendum snýr, þegar til kasta kemur, liggur þeim í léttu rúmi, svo blint stara þeir á sína ríkiseinokun jafnan. Ég skal að lokum segja það, að ég hefði unnað hv. þm. Mýr. annars og betra hlutskiptis heldur en þess að verða hér að ganga fram fyrir fylkingu til þess að koma á einokun á grænmeti og kartöflum í landinu. Hann hefir sjálfur allmikla framleiðslu á þessum vörum, að ég hygg. Hefði ég talið sæmra fyrir slíkan mann að halda sinni fyrri aðstöðu í þessu máli en ekki gerast formælandi ríkiseinokunar með öllum hennar göllum fyrir framleiðendur og neytendur. Nú er það að vísu svo, að það er vandi að draga smátt og smátt sem mest úr aðflutningi á kartöflum í samræmi við aukna innlenda ræktun. Ég geri ráð fyrir, að það sé svo víðar en hjá okkur Vestmannaeyingum, að framfarir í kartöflurækt hafi orðið miklar á síðustu árum. Við höfum undanfarið gert svo að segja allt, sem við höfum getað til þess að ýta undir kartöflurækt heima fyrir, þó að við höfum átt við hinn vonda vágest að stríða, sem er kartöflusýkin. Ég get gjarnan getið þess, að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefir útvegað og samið um úthlutun á landi til 80 heimila í haust, landi sem er hæfilegt handa hverju heimili fyrir kartöflugarð. En þrátt fyrir allar ráðstafanir, má maður alltaf í sjóplássum vera við því búinn að kaupa mikið af kartöflum að. Bæði vegna þess, að það koma eðlilega fram skemmdir í kartöflum, þegar líður á veturinn, og þó ekki sé beinlínis um skemmdir að ræða, missir þessi fæðutegund jafnan nokkuð af gæðum sínum við geymsluna. Og eins og ég gat um áðan, getur kartöflusýkin komið og kollvarpað öllu, stundum jafnvel fleiri ár í röð. Af þessum ástæðum verður um ófyrirsjáanlegan tíma alls ekki tryggt, að menn þurfi ekki að flytja inn kartöflur, ef ekki á að vanta, sem ekki má koma fyrir, svo nauðsynlegur liður sem þær eru í fæðu manna. Það getur nú verið, að ríkiseinkasala geti séð um það, að kartöflur ekki vanti. En ég hefi fært hinar sterkustu líkur fyrir, að fyrirkomulag það, sem hér er stungið upp á, leiði til þess, að varan verði ekki betri, og það má ganga að hinn vísu, að almenningur verður að kaupa hana dýrara en ella.

Ég mun í þessu máli hallast að brtt. hv. þm. Borgf., þó að sumt af hans till. hafi verið fellt við 2. umr., þá skilur hann og hv. þm. Mýr., sem oft hafa verið samherjar í þessu efni og báðir áhugamenn um kartöflurækt, að hv. þm. Borgf. hefir ekki viljað ganga undir það jarðarmen, sem hv. þm. Mýr. hefir nú lotið, sem sé ríkiseinkasölu sósíalista.