21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 2. kafla (Bjarni Bjarnason):

Í framsöguræðu minni hér á dögunum gleymdist mér ein till. á þskj. 895, við 14. gr., um styrk til sundskólahússins á Sveinseyri, 500 kr. Þessi staður er nú orðinn einskonar miðstöð fyrir unga fólkið þarna í grenndinni. Fyrir 4 árum vær þar byggð mjög myndarleg heit laug og heimavistarhús til sundkennslu, sem tekur 32 nemendur. Hefir þetta unga fólk lagt á sig mikið erfiði og peningaútlát til þess að koma þessu húsi upp, sem hefir flest þau þægindi, sem krafizt er nú á tímum. var styrkur veittur til þess á yfirstandandi ári, 5 þús. kr., og vill n. mæla með því, að þetta myndarlega framtak fái nú 500 kr. styrk á næsta ári.

Þá er till. á þskj. 909 um kvennaskólann í Rvík. Samkv. till. er ætlazt til þess, að skólinn fái þann styrk, sem honum hefir þegar verið ákveðinn fyrir næsta ár, þ. e. a. s. að svo miklu leyti sem hann hrekkur, en framvegis greiðist styrkur til skólans eftir þeim reglum, sem segir í till., að 2/5 úr ríkissjóði gegn því að Rvíkurbær greiði 3/5. Þetta er sama fyrirkomulagið og gildir um gagnfræðaskólana.

Ég vildi þá minnast örfáum orðum á nokkur atriði, sem fram hafa komið. Og skal ég þá fyrst minnast á till. hv. 11. landsk. um hafnarbætur á Stokkseyri. Nú liggur fyrir hjá fjvn. bréf, þar sem það er viðurkennt, að ríkissjóður hafi greitt það tillag, sem honum ber, til hafnarbotn á Stokkseyri samkv. till. vitamálastjóra, en hinsvegar eigi Stokkseyringar ógreiddar um 3 þús. kr. af sínu eigin tillagi og auk þess óunnið við bryggjuna fyrir 1300 kr. Nú er það svo, að þrátt fyrir það, að þessi staður sé alls góðs verður, þá verður að miðla því litla fé, sem yfir er að ráða, og fjvn. hefir fallizt á að veita Stokkseyringum ábyrgðarheimild fyrir allt að 3500 kr. til greiðslu ógoldinna vinnulauna, og hæstv. atvmrh. hefir sagt við mig, að hann hafi lofað af atvinnubótafé til þess að fullgera þessa bryggju.

Þá flytur sami hv. þm. till. um hækkun á framlagi til símalagninga, og á sú hækkun að fara til nýrrar símalínu frá Ásum í Gnúpverjahreppi að Ásólfsstöðum. Það er rétt, að það er mesta nauðsyn á þessari símalínu. En fyrir nokkrum dögum var Páll Stefánsson á Ásólfsstöðum staddur hér í bænum, og átti hann tal við mig um það, hvort ekki mundi heppilegra að geyma þessa till. til næsta þings og leggja þá meiri kraft í þetta, og varð þetta að samkomulagi milli okkar þriggja, hans mín og landssímastjóra. Ég get því ekki stutt þessa till. hv. 11. landsk.

Þá er hér loks till. frá þm. Rang. og hv. 11. landsk. um það að verja af atvinnubótafé 150 þús. kr. til vegagerðar á Hellisheiði. Ég verð nú að segja það um þessa hv. þm., að þeir hafa haft aðstöðu til þess um alllangan tíma að gera meira fyrir þennan veg heldur en raun er á orðin. ég minnist þess ekki, að jafnkappsamlegar kröfur í þessa átt hafi komið frá þessum hv. þm. á undanförnum þingum eins og núna, þrátt fyrir það, að aldrei hafi verið gert eins mikið fyrir þennan veg eins og nú er komið á daginn. Ég get sagt hv. þm. það, að á síðastl. sumri voru lagðir 3 km. í Ölfusinu í þá átt, sem vegurinn á að liggja, og nú er búið að lögfesta, að verja skuli a. m. k. 70 þús. kr. í Hellisheiðarveg á næsta ári, og auk þess hafa bæði hæstv. atvmrh. og hæstv. fjmrh. haft velviljuð orð um að bæta við þetta af atvinnubótafé, ef auðið yrði. Ég viðurkenni fúslega, að það þyrfti miklu meira en 70 þús. kr. í þessu skyni. Þó vænti ég þess, að hv. þm. sé það ljóst, að það verður ekki tekið allt, sem maður óskar, og ég held, að kröfur þessara þm. séu ekki sanngjarnar, þegar tekið er tillit til þess, hverju þeir hafa komið í framkvæmd á undanförnum þingum þrátt fyrir góða aðstöðu.