22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3466)

185. mál, hluti af landi Ennis í Engihlíðarhreppi

Flm. (Hannes Jónsson):

Ég þarf ekki heldur að standa í löngum umr. um þetta við hv. þm. A.-Húnv. Ég vil aðeins benda hv. þm. í það, að það er fyllsta öfugmæli í því, sem hann sagði í sinni ræðu, að hitt málið hefði fengið afgreiðslu í allshn., því að þangað fór það ekki, heldur til landbn. (Raddir af þingbekkjum: Það var afgr. í allshn.). Ég skal þá viðurkenna, að ég hefi farið með rangt mál, þegar mér er bent á það, en ég áleit, að það hefði farið til landbn., þar sem hv. þm. Ak. var frsm. að því. En það er þó a. m. k. öfugmæli hjá hv. þm., að þetta frv. sé fram komið til þess að spilla fyrir hinu málinu, því að það veit hv. þm., að ein aðalástæðan, sem færð var fram fyrir þessu máli í héraði, a. m. k. á þeim fundum, sem haldnir voru um það milli kauptúnshlutanna, var sú, að það væri svo nauðsynlegt að fá þetta land til ræktunar fyrir þorpsbúa norðan árinnar. Sú var ein ástæðan, sem notuð var til þess að vinna hug þeirra, sem búa norðan árinnar, til samvinnu, að þeir gætu ekki náð í þetta land með öðrum hætti en að sameina kauptúnið. Með sameiningunni væri gefin greið leið til þess að ná þessu landi, hvað sem eigandinn segði. En til þess að ekki þurfi að ganga þá krókaleið að sameina kauptúnshlutana, er þetta frv. fram komið. Ef svo skyldi fara, að hinu frv. hlekktist á í Ed., sem ég hefi fyllstu ástæðu til að ætla, þá er það a. m. k. ekki nein fórn fyrir stuðningsmenn þess máls, þó að þetta frv. fái afgreiðslu í þessari hv. d., og það er ekkert, sem þeir verða að taka aftur af því, sem þeir hafa áður sagt. Þeir hafa á engan hátt lagt stein í götu síns málstaðar, þó að þeir fylgi þessu máli. Þeir eru sjálfum sér samkvæmir í þessum þætti af röksemdafærslu sinni fyrir sameiningarmálinu, og hann er viðurkenndur af þeim, sem ekki hafa viljað fylgjast með sameiningu kauptúnshlutanna. Að þetta frv. er flutt hér á þingi, er því ekki annað en bein viðurkenning á því, að þessi þáttur í röksemdafærslu sameiningarmannanna hefir við rök að styðjast, en hinsvegar er það álit okkar, að það væri eðlilegra að leysa það spursmál á árum vettvangi heldur en með sameiningu þessara tveggja kauptúnshluta.

Ég vil því leggja áherzlu á, að fyrir stuðningsmenn sameiningarmálsins getur enginn afsláttur legið í því, þó að þetta mál verði afgr. til Ed. Úrslitavaldið er hjá Ed. um það, hvora leiðina eigi að fara, að sameina kauptúnshlutana eða tryggja íbúum kauptúnsins norðan árinnar sæmilegt land til ræktunar.