22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (3487)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Páll Þorbjörnsson:

Hv. 6. þm. Reykv., sem hefir stundum í ræðum valið sér hið smellna nafn að kalla sig talsmann fiskeigenda, belgdi sig út með miklum vandlætingartón, vegna þess að ég hafði gagnrýnt framkomu hans og annars hv. þm., og átti ég þar við brtt., sem hann og annar hv. þm. hafa lagt fram við þetta frv. Það, sem ég vil nú segja þessum hv. þm., er það, að í næsta sinn, þegar hann fer að segja mönnum frá því, að hann sé sérstakur talsmaður fiskeigenda, kynni hann sér svo mikið afurðamál sjávarútvegsins, að hann fari ekki með aðrar eins staðleysur og hann fór með í gær. Hv. þm. var að tala um, hvað vörugjald, sem greitt er til Siglufjarðar, sé lágt í samanburði við það, sem er í Rvík, en hún væri þó ekki í hæsta flokki, eftir því, sem hann sagði. Hann var að tala um, að í Rvík væru borgaðar 4 kr. af smálest af lýsi, en á Siglufirði 2.50 kr. En samkv. till. hv. þm. vill hann leyfa Siglfirðingum að hækka gjaldið um 100%, svo að það verði 5 kr. á smálest. Nú vil ég upplýsa hv. þm. um, að það er ekki alveg sama, hvaða gjald er lagt á vörur, sem eru í mismunandi verðflokkum, en það ætti honum að vera kunnugt, ef dæma ætti eftir þeim afrekum, sem hann telur sig hafa unnið í þágu sjávarútvegsins. Það lýsi, sem flutt er frá Rvík, er nær eingöngu þorskalýsi, en það, sem flutt er frá Siglufirði, síldarlýsi. En verðmunurinn á þessum tveim tegundum lýsis er svo gífurlegur, að þorskalýsið er nálægt því að vera 5 sinnum dýrara en síldarlýsið, og mun þá láta nærri, þegar miðað er við verðmæti, að í Rvík séu aðeins greiddar 4 kr. af smálest, en á Siglufirði 25 kr. - Þá komum við að mjölinu. Í Rvík eru borgaðar 3 kr. af smálest, en í Siglufirði 1.50 kr. Hv. þm. leggur til, 0 á Siglufirði sé það hækkað upp í 3 kr., eða m. ö. o. að það sé eins hátt og í Rvík. En nú er það svo, að frá Siglufirði er aðallega flutt síldarmjöl, en frá Rvík fiskimjöl. Nú ætti hv. þm. að vera kunnugt um það, að fiskimjöl er í talsvert hærra verði en síldarmjöl. Hv. þm. talaði í miklum vandlætingartón og þannig, að það mátti á honum skilja, að mér hefði orðið það á að nudda mér upp við fiskeigendur, og að ég hefði farið með blekkingar um það, hvernig þetta vörugjald komi niður á sjávarútveginum. Hann dró það inn í umr., að ég hefði ekki viljað ganga með honum og hv. þm. Vestm. og fella niður útflutningsgjald af fiski, sem er 15/8%, og vildi hann láta skína í það, að það gjald kæmi meira niður á Siglufirði en öðrum stöðum. Í þessu kom fram flaustur hv. þm. og ókunnugleiki á þeim málum, sem hann er að reyna að telja mönnum trú um, að hann kunni bezt skil á. Nú vil ég upplýsa hann og aðra hv. þdm. um það, hvernig þetta gjald í bæjar- og hafnarsjóð á Siglufirði verður samkv. hans till.

Bátur, sem gerður er út á síldveiðar af Siglufirði, verður að greiða í hafnarsjóð 225 kr. af 1500 tunnum saltsíldar, en af 1000 tunnum kryddsíldar 250 kr. Ofan á þetta í svo að leggja 50% handa bæjarsjóði. Ef bátur leggur 4000 mál upp í bræðslu, þá verður hann að greiða til hafnarsjóðs í vörugjald, eftir útkomunni í ár, 13 aura á mál, eða 520 kr., en samkv. till. hv. tveggja þm. á gjaldið á síldarmjöli, síldarlýsi og síldarolíu að hækka um 100%, svo það nemur sem svarar 11 aurum á mál, og verður það þá 4-10 kr. Þetta verður þá á bát, sem leggur upp 4000 mál til bræðslu og 2500 tunnur af saltsíld. 1642.50 kr. samkv. till. hv. þm. En sami bátur greiðir í útflutningsgjald til ríkissjóðs 1000-1100 kr. Þá verður útkoman sú, að af sama afla þarf hann að greiða 500-600 kr. meira í hafnarsjóð og bæjarsjóð heldur en útflutningsgjaldið er. Svo er hv. þm. að belgja sig upp út af því, að ég vilji ekki fella niður útflutningsgjaldið í ríkissjóð á sama tíma og hann og annar hv. þm. bera fram brtt. við hafnarlagafrv. fyrir Siglufjarðarkaupstað um það að bæta hér um bil sama skatti í útveginn. Það á aðeins að flytja gjaldið til og láta það renna til Siglufjarðar, í staðinn fyrir að láta það renna í ríkissjóð. En það er ekki ætlun þeirra að létta gjaldinu af útveginum. Vegna þess, að hv. 6. þm. Reykv. og fleiri hafa verið að tala um það, að þetta vörugjald yrði ekki til þess að íþyngja útveginum, þá vil ég minna á eitt tilfelli, sem nýlega hefir átt sér stað. En það er, að það bæjarfélag, sem mér er óhætt að segja að hefir gengið lengst í því að taka vörugjald í bæjar- og hafnarsjóð, var ekki skammsýnna en það, að þegar farið var að salta síld þar, þá felldu menn þar niður skattinn í salti, tunnum og fleiru. Ég get upplýst það, að þetta er í Vestmannaeyjum, kjördæmi annars þm., sem vill nú tvöfalda gjaldið til Siglufjarðar af síldarmjöli, síldarlýsi og fiskimjöli.

Þá kom það fram undir umr., að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hefðu útrýmt samskonar atvinnurekstri þar. Þetta kom fram hjá hv. 8. landsk., og ég held líka hjá hv. 6. þm. Reykv. Ég færði nokkur rök að því áður í umr., að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hefðu ekki kippt burt samskonar atvinnurekstri. því var haldið fram af mér og hv. þm. Ísaf., að ein af þeim verksmiðjum, sem voru í eigu einstakra manna, var ekki starfrækt af viðkomandi eiganda árið áður en hún var keypt af ríkinu. Þessu var mótmælt af hv. 8. landsk. En ég hefi nú aflað mér frekari upplýsinga um þetta. Verksmiðjan var starfrækt 1930, en 1931 voru aðeins möluð þar bein og hausar um vorið 1932 var hún alls ekki starfrækt, en 1933 komst hún í eigu ríkisins. Íbúarnir á Siglufirði töldu, að það væri hagsmunamál fyrir þá, að verksmiðjan kæmist í hendur ríkissjóðs og reksturinn væri þannig tryggður að staðaldri.

Hv. 6. þm. Reykv. notaði stór orð og ljót, sem þm. yfirleitt eru ekki óvanir að heyra, því að þessi þm. er þekktur að því að vera orðljótur, ekki aðeins hér í þinginu, heldur um land allt. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þau ummæli, sem hann valdi mér, því það er ekki aðeins, að þau séu notuð um hann sjálfan af andstæðingum hans, heldur líka af hans eigin flokksbræðrum, enda er hann í þeim flokki notaður til hinna verstu skítverka og þykir ekki til annars hæfur.