27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (3549)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. mikið, því að ég tel ekki rétt að svo vöxnu máli að blása mikið að þeim æsingi, sem um mál þetta hefir skapazt. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er borið fram til þess að reyna að sætta þá aðila, sem hér deila, og ég vil ekki gera ráð fyrir öðru en að þær sættir takist. Hæstv. forsrh. hefir nú gefið í skyn, að hann vilji vinna að því, að samkomulag náist um þetta mál, með því að taka til greina aðalkröfurnar, sem bornar hafa verið fram af framleiðendum og neytendum. En afstaða hans er eigi að síður mjög undarleg, þar sem hann, jafnhliða því að gefa þetta fyrirheit, að hann skuli vinna að samkomulagi í þessu máli, með því m. a., að frá 1. maí skuli öll yfirráð mjólkursölunnar fengin í hendur framleiðendum og tekin af mjólkursölunefnd, og jafnframt það, að leyfð verði rýmri sala á vélhreinsaðri mjólk en nú er, sem mér skilst, að séu aðalatriðin, sem um er deilt, þá skuli hann jafnframt lýsa því yfir í efri deild, að hann geri það beinlínis að fráfararatriði, ef frv. þetta verður samþ. Þó felst ekkert annað í frv. en það, sem hann hefir lýst yfir, að hann ætli að vinna að. Mér fyndist hann því hreinlega geta samþ. frv.; með. því fengi hann þó alltaf skýlausa lagaheimild fyrir því, sem hann hefir lofað að vinna að. Ég get því ekki fundið neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari framkomu ráðh. Þar af leiðir að ég hlýt að vera mjög vantrúaður á, að ráðh. ætli að vinna að því, sem hann hefir gefið vilyrði um, og vikið er að í dagskrártill. þeirra hv. þm. Hafnf. og hv. 2. þm. N.- M. Ég þykist vita, að flm. dagskrártill. hafi aflað sér upplýsinga um það hjá hæstv. ráðh, sem þeir sveigja að í till. sinni. Annars væri till. blekking ein, sem mér er þrátt fyrir allt næst skapi að halda, því að það er ekki ástæða til að halda, að hæstv. ráðh. sé alvara með þessar yfirlýsingar sínar, þar sem hann hefir þrátt fyrir þær talað af miklum móði á móti því, að nokkrar breyt. verði gerðar á mjólkursölulögunum. Áðan talaði hann t. d. á móti því, að leyfa mikla sölu á velhreinsaðri mjólk, taldi það vera á móti ráðleggingum lækna að selja hana. Hér held ég, að ráðh. fari skakkt með, því að allt, sem ég hefi heyrt frá læknum um þetta efni, er það, að þeir telja vélhreinsaða mjólk betri og hollari en gerilsneydda mjólk. Vegna þessarar dæmafáu framkomu hæstv. ráðh. í þessu máli er full ástæta til að krefja hann óskoraðrar yfirlýsingar um það, hvað hann í raun og veru ætlist fyrir í málinu, því að eins og sent hefir verið fram 4, þá eru öll orð hans í hreinni mótsögn við yfirlýsingar þær, sem hann hefir gefið um að segja af sér, ef frv. verður samþ. Hvaða ástæðu hæstv. ráðh. hefir til þess að segja af sér, þó að frv. verði samþ., ef hann á annað borð ætlar að standa við eitthvað af því, sem hann hefir sagt, fæ ég ekki skilið, því að ég get tæplega hugsað mér, að hann fari að segja af sér, þó að 5. gr. laganna verði breytt á þann veg, að verðjöfnunargjaldið hjá innanbæjarframleiðendum verði notað við 2500 lítra í stað 3000, eins og nú er í lögum.

Annars furðar mig stórkostlega, að hæstv. ráðh. skuli leggjast á móti því að fá lagaheimild fyrir því, sem hann telur sig ætla að gera, því að í raun og veru getur enginn vafi leikið á því, að samkv. gildandi l. er sala á ógerilsneyddri mjólk óheimil, nema þeirri, sem framleidd er á bæjarlandinu. Sömuleiðis tel ég líka mjög vafasamt, að heimilt sé samkv. gildandi l. að fá framleiðendum mjólkursöluna í hendur eftir 1. maí, því að mér skilst, að til þess að það sé hægt þurfi að fást fullkomið samkomulag milli umboðsmanna framleiðendanna, en ég verð að draga mjög í efa, að slíkt samkomulag fáist, þar sem svo bar til nýlega á fundi mjólkurbandalagsins, að einn aðilinn setti sig algerlega á móti þessu.

Hvernig nú stendur á því, að hæstv. ráðh. vill vinna að lagfæringu á mjólkursölunni gegn ákvæðum gildandi laga, í stað þess að fá hreina lagaheimild til þess, finnst mér harla undarlegt, og vænti því að fá skýringu á því, hvað veldur þessari undarlegu afstöðu hans.

Þá finnst mér ástæða til þess að víkja nokkuð að afstöðu þeirra manna, sem fengið hafa heimild til þess að selja beint til neytendanna. Því hefir verið haldið fram, að það væri óeðlilegt, að þeir væru undanþegnir verðjöfnunargjaldinu, þar sem þeir væru með mjólkursölulögunum verndaðir gegn samkeppni frá þeim mjólkurframleiðendum, er fjær búa. En þetta á bara ekki við þá, sem selja beint til neytendanna; þeir eru alls ekki verndaðir gegn samkeppni, því að samsalan getur flutt mjólk ótakmarkað til bæjarins og keppt við þessa framleiðendur. Það væri því miklu nær að snúa þessu við og láta gjaldið ná til þeirra einna, sem framleiða mjólk innan bæjarlandsins og selja hana til samsölunnar, því að það eru þeir, sem eru verndaðir gegn samkeppni. Hér er því öllu snúið öfugt. Ég verð því að neita því, að það sé ekki fullkomlega réttmætt að halda því fram, að þeir, sem selja beint til neytendanna, eigi að vera undanþegnir þessum skatti. Eða þá a. m. k., að þeir séu jafnréttháir þeim, sem láta mjólkina beint til samsölunnar.

Hv. 2. þm. N.-M. gerði að umtalsefni það atriði í brtt. okkar þm. Reykv., að bæjar- eða sveitarstjórnin í hlutateigandi kaupstöðum eða kauptúnum, þar sem mjólkurlögin koma til framkvæmda, skuli semja reglugerð um það, hvaða heilbrigðiskröfur skuli gera til þeirra manna, sem selja framleiðslu sína beint til neytendanna. Hann sagði, að hann t. d. treysti bæjarlækninum hér betur til þess að semja slíka reglugerð en bæjarstj. Rvíkur. Hvað þetta snertir, þá ber nú allt að sama brunni, hvort svo er tiltekið, að bæjarlæknirinn eða bæjarstj. skuli semja reglugerð þessa hér, því að bæjarstj. myndi eðlilega fá bæjarlækninn sér til aðstoðar við samningu slíkrar reglugerðar, en það er bara eðlilegra að kveða svo á, að bæjarstj. skuli semja þessar reglugerðir fyrir bæjarbúa, eins og aðrar reglugerðir, sem þá snerta. Að fara að undanþiggja þessa einu reglugerð og afhenda hana í hendur mönnum, sem enga þekkingu hafa á þessum hlutum, nær vitanlega engri átt. En eins og kunnugt er, þá er mjólkursölunefnd skipuð með allt annað verkefni fyrir augum. Það verður því að teljast fullkomlega rétt, að bæjarstj. og sveitarstj., hver í sínu umdæmi, séu hinn eini rétti aðili til þess að semja slíkar reglugerðir sem þessar, a. m. k. svo fremi, sem tilgangurinn með þeim á ekki að vera annar en sá, að tryggja sem mestan þrifnað og hollustuhætti gagnvart þeim, sem mjólkurinnar neyta. En eigi tilgangurinn aftur á móti að vera sá með reglugerðum þessum, eins og menn hafa jafnvel haft á tilfinningunni, að setja skilyrðin svo þröng, að ekki sé hægt að fullnægja þeim, svo að þeir hverfi með öllu, sem leyfi geta fengið til mjólkursölu beint til neytendanna, þá má vera, að heppilegra sé að fela samningu þeirra einhverjum öðrum en bæjar- eða sveitarstjórnunum.

Ein ástæðan fyrir því, að hv. þm. taldi sig verða að vantreysta bæjar- og sveitarstjórnum í þessu, var sú, að þverbrotin hefði verið reglugerð um mjólkursölu í bænum, þar sem t. d. reglugerðin hefði kveðið svo á, að aðeins skyldu vera 12 útsölustaðir mjólkur í bænum, þá hefðu þeir í stað þess verið orðnir 100. Um reglugerð þessa er það að segja, að hún var orðin gömul, og bærinn því stækkað mikið frá því að hún var sett. Mun bæjarstj. því ekki hafa talið það brot á reglugerðinni, þó að hún leyfði það, að mjólkursölustöðum væri fjölgað eftir því, sem bærinn stækkaði. Að þetta hafi ekki verið að ástæðulausu gert, sannast bezt á því, að mjólkursöunefnd hefir jafnvel ekki treyst sér til þess að hafa útsölustaðina í Reykjavík ekki nema 12, heldur hefir hún bara fjórfaldað þá tölu. Þessi ástæða er því einskis virði.

Höfuðtilgangurinn með þessum orðum mínum var sá, að reyna að ganga eftir því hjá hæstv. ráðh., hvað hann í rauninni ætlast fyrir, ef frv. þetta verður ekki samþ. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert á móti því, að frv. verði að lögum. Það heimilar aðeins það, sem hæstv. ráðh. hefir lýst yfir, að hann ætli að vinna að. Treysti hann sér aftur á móti til þess að vinna að því, sem er höfuðtilgangur frv., án sérstakrar lagaheimildar, þá er vafamál, hvort rétt er að vera að halda frv. til streitu.