21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

1. mál, fjárlög 1936

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég á fáar og heldur smáar brtt. við fjárl. Ég hefi leyft mér að flytja þrjár smátill. um fjárframlag til lendingarbóta og styrk til íþróttaskólans á Álafossi.

Fyrsta till. er á þskj. 890, XVIII. liður, um hækkun á styrk til bryggjugerðar í Kirkjuvogi í Höfnum. Hv. fjvn. hefir lagt til, í 4. lið 26. brtt. á þskj. 881, að til þessa yrðu veittar 3000 kr., en ég hefi leyft mér að leggja til, að í þess stað komi 5800 kr.

Ég bar fram till. um sama efni á haustþinginu í fyrra og skýrði frá því, að útvegsmenn þar hefðu komið sér upp bryggju af mikilli þörf og með allmiklum álögum og hefðu lagt fram 2/3 kostnaðarins, þótt þeir fengju þessa upphæð. Þessi till. styðst auk þess við gamalt loforð frá fyrrv. atvmrh., hv. I. þm. Skagf., en sú stj., sem hann átti sæti í, fór frá völdum áður en fjárlög voru afgr., og eftirmenn hennar tóku það ekki upp, en hafa lofað að vera því vinveittir. En úr því hefir ekki orðið að öðru leyti en þessu, að nú hefir verið lagt til, að veittar yrðu 3000 kr. í staðinn fyrir 5800 kr. Að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég sagði í fyrra, og hirði ekki um að endurtaka það nú.

Þá er farið fram á smáupphæð til bryggju á Stafnesi, 2 þús. kr. Ég bar fram till. á þinginu í fyrra, að veittar yrðu í þessu skyni 4 þús. kr., en nú er ég smátækari og fer aðeins fram á helminginn af þeirri upphæð, en að hinn helmingurinn verði svo veittur siðar. Um þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi, vísa ég til þeirra raka, sem ég bar fram í fyrra. En höfuðatriðið er það, að útvegsbændur eiga þarna við þröngan kost að búa og verða að bera aflann á bakinn langa og örðuga leið, þangað til þeir hafa komið upp bryggjumynd en til þess hafa þeir ekki fjárstyrk nema Alþ. veiti styrk til þess, og vil ég vona, að þessari till. minni verði vel tekið.

Þá flyt ég á sama þskj. XX. lið, till. um 5400 kr. til bryggjugerðar og lendingarbóta í Gerðavör, 1. greiðslu af 5. Ég flutti einnig till. um svipað efni á síðasta þingi og færði þá fram rök, sem að henni liggja. Nú er ég smátækari og ber nú fram till. um 1/5 þess, sem þörf er á, og ætlast til, að hitt verði svo greitt með jöfnum afborgunum á næstu 4 árum á eftir. Um þetta mál ætla ég ekki að segja annað en það, að þessi hreppur sem þarna á hlut að máli, er mjög illa stæður. og þó hafa útvegsmenn þar brotizt í að koma upp nokkrum bátum, en standa mjög illa að vígi vegna þess, hve lendingarstaðir eru slæmir. Hér er mikið nauðsynjamál á ferð með hliðsjón af ástæðum hreppsins, og vænti ég því, að hið háa Alþ. samþ. þessa till. Að öðru leyti vísa ég til grg. fyrir svipaðri till., sem ég bar fram á þingi í fyrra.

Þá er loks smávægileg till., sem ég á á þskj. 912, IV, um framlag til íþróttaskólans á Álafossi, 2000 kr. Ég flutti einnig á síðasta þingi till. um framlag til þess skóla og færði þá rök fyrir þeirri till., og leyfi ég mér að vísa til þeirra nú. En að öðru leyti vil ég leyfa mér að segja það, að þessi íþróttaskóli er búinn að gera meira gagn en nokkur annar. Hann er t. d. búinn að kenna 1400 mönnum sund, og eigandi þess skóla er auk þess að öðru leyti alls góðs maklegur fyrir íþróttir og starf sitt í þágu íþróttanna. Hann hefir lagt mikið í sölurnar fjárhagslega af áhuga fyrir íþróttastarfsemi, og árangur verka hans hefir orðið meiri en nokkurs annars, sem unnið hefir að sama starfi. Fjvn. hefir lagt til, að íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar séu veittar 3000 kr., og vænti ég þess, að þeir hv. þm., sem vilja sýna þeim skóla þá vinsemd, líti líka með sanngirni á þessa till. mína.

Ég hefi ekki flutt fleiri brtt. og ætla ekki að gera fjárlagafrv. yfirleitt að umræðuefni.

Mér hefir verið sagt, að við þessa umr. hafi hv. 1. þingkjörinn (MT) eitthvað hnippt í mig. Ég hefi spurt hv. þm., hvaða ummæli hann hafi haft, en allir hafa sagt, að þeir muni ekki neitt af því og enga reiðu sé á því að henda. Það hefir sjálfsagt verið marklaust hjal þessa gamla og ellihruma manns.