27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3561)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætla að svara ræðu hv. þm. A.-Húnv. Hann taldi mig og hv. 2. þm. N.-M. brjóstumkennanlega fyrir það að hafa horfið að því ráði að taka á móti tilboði hæstv. landbrh. í þeim aðalatriðum, sem við höfum lagt til og farið fram á. Ég vil aðeins segja þessum hv. þm. það, að þegar um það er að ræða að fá annaðhvort ekkert eða mikið af því, sem ég fer fram á, þá er ég ekki sá þverhaus að segja: annaðhvort allt eða ekkert. Þegar yfirlýsing kom frá hæstv. ráðh. um það, að hann treysti sér til þess að framkvæma þetta á þeim grundvelli, sem þegar hefir verið lagður, þá tek ég heldur við því en eiga það á hættu að fá ekkert. Ég skal að vísu ekki átelja hv. þm., þó hann kunni að hafa lagt annað upp úr orðum hæstv. ráðh., en tímarnir verða að skera úr þessu.

Ég ætlaði líka að svara hv. 11. landsk., en ég sé, að hann er farinn burt úr hv. d., og mun ég því láta staðar numið að sinni.