31.10.1935
Neðri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (3579)

148. mál, útflutningsgjald

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Það hefir smátt og smátt færzt í þá átt hjá okkur sjómönnum og útgerðarmönnum, að hagnýta meira og meira af þeim fiskafla, sem komið hefir um borð, þ. á. m. voru um skeið verkaðir hausar og hryggir, sem áður fóru forgörðum, einkum eftir að útgerðin stækkaði og niður lagðist að hagnýta hausana til manneldis. M. ö. o., hér var farið að hagnýta þann hluta aflans, sem um langt skeið hafði verið verðlaus, en nú er svo komið, að gefur töluvert verðmæti til útflutnings og miklar vonir um, að gefi allmiklar tekjur og gjaldeyri til landsmanna.

Á Akranesi, þar sem ég er kunnugastur, eru hausar og hryggir töluvert mikill liður af aflanum. En þessari tilraun manna til þess að hagnýta þessi efni hefir verið svarað svo af Alþ., að leggja á vöruna hærri skatt en á aðrar sjávarafurðir. Í stað 11/2% útflutningsgjalds, sem er á sjávarafurðum yfirleitt, voru lögð 10% á þessa vöru. Síðan hækkar síðasta þing þetta úr 10 í 30%. Ástæðan fyrir því, að þetta varð ofan á, þó ýmsir mótmæltu, var sú, að í landinu er til vísir til iðnaðar, sem vinnur úr þessum efnum. En þó að það sé náttúrlega mikilsvert að fá slíkan iðnað rekinn í landinu vegna þeirrar vinnu, sem hann skapar, þurfa þær innlendu verksmiðjur að vera nokkurnveginn samkeppnisfærar við þá, sem kaupa vöruna óunna og flytja hana út. En nú hefir reynslan sýnt það, a. m. k. á þessu ári, að þrátt fyrir þessa tollhækkun hafa innlendu verksmiðjurnar ekki verið samkeppnisfærar við hina útlendu menn, sem hingað koma til að kaupa þessa vöru. Þrátt fyrir þennan 30 kr. verndartoll á smálest af þessari vöru, þá hafa ýmsir, sem seldu vöru þessa óunna til útlanda, borið úr býtum 10-20 kr. hærra verð fyrir smálest heldur en verksmiðjurnar hér við Faxaflóa treystu sér til að borga fyrir þessa vöru. Þar sem nú svo er komið, að hæstv. Alþ. hefir misst marks með þessari tilraun til að tryggja atvinnuveg í sambandi við þessar innlendu verksmiðjur, þá skilst mér, að sá grundvöllur sé gersamlega horfinn, sem þeir menn byggðu á, sem komu á þessum tolli sem verndartolli, þeir menn, sem vegna hagsmuna innlendu verksmiðjanna gerðust svo harðleiknir við útgerðina að leggja þessa háu tolla á þessar afurðir. Og þess vegna er það, að mínum dómi, blátt áfram ekki forsvaranlegt að leggja slíkar hömlur á menn og rýra á þennan hátt möguleika þeirra til að bera úr býtum sæmilegt verð fyrir sínar afurðir, eins og gert er með jafnháum tolli sem þessum. Útgerðarmenn verða að fórna miklu meira vegna þessara háu tolla heldur en nemur vöxtum af þeim höfuðstól, sem liggur í verksmiðjunum, og þeirri aukinni vinnu í landinu, sem skapast með því að unnið er úr beinunum hér. Af þessum ástæðum er það, að ég hefi hér í þessu frv., eftir mjög ákveðinni áskorun frá mönnum hér við Faxaflóa og víðar, borið fram till. um, að ekki sé gerður greinarmunur á tolli af þessari vörutegund og öðrum vörutegundum, sem sjávarútvegurinn framleiðir, þannig að sami tollur verði látinn ganga yfir þessa vöru og aðrar sjávarafurðir.

Ég vil vænta þess, að hæstv. Alþ. sjái sanngirni í því að gera hér ekki upp á milli og leiðrétti því nú á þessu þingi það ósamræmi og óréttlæti, sem það hefir hér framið gagnvart sjávarútveginum, með hækkun tolls á þessari sérstöku vörutegund.

Skal ég svo ekki fylgja þessu frv. úr hlaði með fleiri orðum, en vil aðeins óska, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.