27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (3584)

148. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Páll Þorbjörnsson):

Hv. form. sjútvn. hefir nú gert grein fyrir því, hvernig þessu máli gekk í sjútvn., og er það alveg rétt, sem hann sagði, að nm. voru sammála um, að n. gæti ekki mælt með að frv. væri samþ. óbreytt. Hinsvegar gat ekki orðið samkomulag um brtt., og urðum við hv. þm. Vestm. í minni hl. Við höfum lagt til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að tollurinn verði færður niður í það, sem hann var áður en þessi óheillalög voru sett á síðasta þingi. Hv. form. sjútvn. gat um það áðan, að leitað hefði verið umsagnar ýmissa stofnana um þetta frv. Það var skrifað Fiskifél. og stjórn ísl. fiskmjölsframleiðenda. Það verður að líta svo á, að Fiskifél. sé fyrst og fremst sá aðili, sem ætti að gæta hagsmuna þeirra, sem láta þetta hráefni af hendi og greiða tollinn, en stjórn fiskmjölsframleiðenda fulltrúi þeirra, sem vilja hafa þennan háa verndartoll á vörunni, enda kom það í ljós, að Fiskifél. lagði til, að frv. væri samþ., en eigendur fiskmjölverksmiðjanna lögðu til, að frv. yrði fellt. En meiri hl. sjútvn. tók meira tillit til málflutnings verksmiðjaeigendanna en þess málstaðar, sem Fiskifél. hélt fram.

Ég vil leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem virtist byggður á bréfi frá Fiskifél., þar sem því er haldið fram, að beinin hafi fyrst hækkað í verði þegar fiskmjölsverksmiðjurnar komust hér upp og fóru að keppa við Norðmennina um kaup á þessu hráefni. En þetta er misskilningur. Norðmenn höfðu fyrst menn í verstöðvunum til þess að safna þessum beinum saman og greiddu þá ekkert fyrir þau. En svo var fljótlega farið að greiða 1/2 eyri fyrir hvern þorskhaus, en eftir nokkurn tíma komst verðið upp í 11/2 eyri. Síðan ísl. fiskmjölsverksmiðjurnar tóku til starfa hefir verðið komizt hæst upp í 1,7 aura fyrir hvern haus. Má því kannske segja, að það megi þakka ísl. verksmiðjunum, að verðið hafi hækkað um 0,2 aura pr. haus. Annars verð ég að segja það, að ég tel ekki rétt að taka eina iðngrein út úr og vernda hana með háum verndartolli, eins og nú er orðinn á þessum beinavörum, þar sem hann er orðinn um 30%. Þegar nú þess er gætt, að ýmislegur kostnaður leggst á beinin óunnin til viðbótar tollinum, þá virðist svo, að ísl. verksmiðjurnar ættu að geta keypt beinin hærra verði en Norðmenn, en það er bara síður en svo, að þær geri það.