20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (3704)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jón Pálmason:

Það er kunnugt mál, að á undanförnum árum hefir verið allmikill ágreiningur um það, hvort sú stefna ætti að vera ríkjandi í skattamálum að taka gjöldin sem mest með beinum eða óbeinum sköttum.

Það er og kunnugt mál, að sá flokkur manna, sem nefnir sig Alþfl., hefir verið harðastur á því að taka öll gjöld, eða sem mest af þeim, með beinum sköttum.

Þegar skattalögin voru til umr. á haustþinginu 1934, muna menn væntanlega eftir því, að allmikill ágreiningur varð um það, hvort ekki ætti nokkur hluti af tekjuskattinum að falla til sveitar- og bæjarfélaga. En það var fellt. Nú skoða ég það svo, að þessar brtt., sem hér eru lagðar fram af hv. 6. landsk., séu fullkomin viðurkenning frá hans hálfu, sem ekki er óeðlileg, að hér sé komið svo langt í því að leggja á beina skatta - ekki einungis til ríkisins, heldur og til sveitar- og bæjarfélaga -, að þar sé ekki hægt að fara lengra. Þetta hefir mér og sjálfstæðismönnum yfirleitt verið ljóst, að það er svo langt komið á þessari braut, að ekki er hugsanlegt að fara lengra. En þegar um er að ræða að færa valdið til tollaálagningar frá Alþingi yfir í hendur bæjar- og sveitarfélaga, þá kemur margt til greina, sem taka ber í reikninginn. Ég verð að taka undir með hæstv. fjmrh., að það sé athugaverð leið að gera almenna breyt. í þá átt, að gefa sveitarfélögum tækifæri til tollaálagningar. Virðist eðlilegra að gefa það vald í hendur sýslufélaganna heldur en einstökum kauptúnum, því að með þeim hætti, sem hér er farið fram á, og með brtt. mundi þetta verka þannig, að kauptúnin fengju tækifæri til þess að yfirfæra sín gjöld í mörgum tilfellum yfir á sveitarfélög, sem í ýmsum héruðum landsins eru í jafnmiklum vandræðum með sína fjárhagslegu afkomu eins og kauptúnin sjálf. Í þessu sambandi vildi ég einnig geta þess, að ég vil sérstaklega leggja áherzlu á í þessu efni, að þótt inn á þessa breyt. verði gengið, mun ég samt aldrei geta léð því atkv. mitt, að slíkt gjald verði lagt á útfluttar vörur. Það er nokkru öðru máli að gegna um aðfluttar vörur, þó að þær séu að einhverju leyti skattlagðar, en með útfluttar vörur kemur það alls ekki til mála, því að gjöld, sem þannig eru lögð á framleiðsluna, jafnhliða því sem hún er í þeim vandræðum, sem hún nú er í, eru þau verstu gjöld, sem lögð eru á almenning.

Viðvíkjandi því, að þessar till. séu fram komnar til þess að verða að fótakefli því frv., sem þær eru við, þá má það vel vera, en ég skal taka það fram, af því að ég greiddi því frv. atkv., þegar það var hér síðast til umr., að ég gerði það með það fyrir augum, að það sýslufélag, sem í þessu einstaka tilfelli er um að ræða, hefði vald á því, hvort þetta gjald yrði lagt á eða ekki. Ég lít svo á, að í þessu tilfelli sé heimildin eingöngu bundin við það, að viðkomandi kauptún sé í svo miklum vandræðum, að forsvaranlegt sé að fara fram á að fá samþ. sýslunefndarinnar fyrir því, að þetta gjald verði lagt á. En ef á að útfæra þessa heimild fyrir landið allt, verður að búa betur um þá hnúta heldur en gert er í þeim brtt., sem fyrir liggja. Ég vil taka það fram, að fljótt á litið virðist mér sú leið, sem hæstv. fjmrh. benti á, vera tiltækilegri en hitt, að fá sveitarstjórnum þetta vald.