10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3747)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. Hv. sessunautur minn (MG) hefir tekið fram það, sem ég þurfti að taka fram í þessu máli. En ég verð að segja það, að ég er ekki alveg viss um, að þessi hugsunarháttur hv. 1. þm. Eyf. um að bjarga sóma þingsins með því að fella þetta frv. sé eins tárhreinn eins og hann virðist vera eftir orðum hv. þm.

Það er alls ekki hægt að verjast þeirri hugsun, þegar maður heyrir á tal hv. þm., að það felist ofurlítil ögn af hefndarhug í hans mótstöðu, fyrir það, að svipað frv., sem honum var áhugamál um, var fellt. Ég vil því að hv. þm. rannsaki huga sinn og setji sig í þau spor, að það hefði verið frv. viðvíkjandi Sauðárkróki, sem hefði verið fellt í Nd., en hans áhugamál væri nú til umr. hér í þessari d. Hann ætti að rannsaka huga sinn um það, hvort hann þá hefði staðið upp og haldið þessa sömu ræðu. Ég ætla ekki að gera honum upp hvatirnar, en ákaflega er ég hæddur um, að hann hefði sparað sér þessa ræðu. Ég held, að hann hefði einmitt vitnað í því máli eins og við gerum í þessu, og sagt: Eigum við ekki a. m. k. að bjarga heiðri þessarar d. með því að láta hana vera sjálfri sér samkvæma og samþ. þetta frv., úr því að búið er að samþ. hitt?

Ég þarf litlu að svara hv. frsm. meiri hl. Hann var að efast um það, að þetta eins árs takmark, sem sett er í frv., mundi verða látið gilda, og vitnaði til ummæla okkar um það, að við hefðum litla trú á því, að tekjuaukafrv., sem hér var til meðferðar og á að gilda í eitt ár, mundi aðeins gilda það eina ár.

Ég skal játa það, að almennt talað hefi ég ekki mikla trú á því, þó að lög séu sett þannig til eins árs um þau mál, sem ekki sér fyrir endann á, hvernig eigi að leysa í framtíðinni, að þau lög verði ekki framlengd.

En ég vil benda hv. frsm. meiri hl. á, að einmitt í þáltill., sem samþ. hefir verið um að undirbúa heildarlöggjöf um þessi mái fyrir næsta þing, er verið að sjá fyrir því, hvað á að koma í staðinn fyrir þetta frv., ef að lögum verður. Það er sá mikli munur á þessu tvennu. Það er nauðsynlegt að setja heildarlöggjöf um að hjálpa bæjar- og sveitarfélögum til þess að komast yfir verstu erfiðleikana. En það er eitt hreppsfélag, sem fer fram á, að það sé styrkt til bráðabirgða, og er rétt að gera það, því að engin hætta er á því, að það fari fram á, að þessi styrkur verði framlengdur, því að þá verða gengin í gildi hin lögin sem sýna, hvernig framhaldið á að vera. Sú líking, sem hv. þm. dró milli tekjuöflunarfrv. og þessa frv., er því alls ekki til staðar.

Þá ætlaði hv. frsm. meiri hl. að slá sér upp á því að segja, að till. um að önnur kauptún nytu hins sama og farið er fram á handa Sauðárkróki hefðu fallið með atkv. sjálfstæðismanna. Ég veit ekkert um það, hvernig atkvgr. hefir fallið, en ég ætla að ganga inn á, að hún hafi fallið svona. En er nú nokkur líking þarna á milli? Annarsvegar er farið fram á af tveimur þm. þessa kjördæmis, Skagafjarðarsýslu, og þeim landsk. þm., sem komst á þing fyrir atkv. kjósenda í því kjördæmi, að fá þetta í gegn eftir eindreginni ósk íbúa Sauðárkróks. En svo eru bornar fram till. í hv. Nd. um það að færa þetta sama út yfir öll sveitar- og bæjarfélög, hvort sem þau óskuðu eftir því eða ekki. Þetta er ákaflega mikill munur. Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er rétt eins og ef skáld sækti um skáldstyrk í fjárlögum og ekki ætti að veita hann af því að öllum öðrum skáldum væri ekki veittur skáldstyrkur. Það er nú einu sinni regla hér á þingi, að það er oft veitt þeim, sem um eitthvað sækja, þó að því sé ekki troðið upp á alla aðra. Það liggur fyrir ósk um þetta frá þessu eina hreppsfélagi, en ekki hinum. En það finnst mér eðlilegt, að þegar þingið hefir hugsað sér að setja heildarlöggjöf um þessi efni, þá sé ekki verið að troða upp á alla aðra þessum bráðabirgðaákvæðum, sem aðeins eitt hreppsfélag hefir óskað eftir.

Hv. frsm. meiri hl. lagði áherzlu á, hvað fljótt þessi væntanlega löggjöf mundi koma til framkvæmda, hélt jafnvel, að hún kæmist í kring áður en mesti innflutningurinn byrjaði í maí, og þess vegna gæti þessi löggjöf komið að gagni á næsta ári að miklu leyti. (JBald: Það eru möguleikar til þess). Þá yrði hæstv. ríkisstj. að hraða undirbúningi málsins, og síðan yrði þingið að koma sér saman um það. Svo kemur þriðja atriðið, að þessu þingi er ekki lokið ennþá og ekki séð fyrir endann á, hvort það kemur saman snemma á næsta ári. Þingið, sem nú situr, hefir það á valdi sínu, og það eru sterkar raddir um það, að halda þingið heldur síðari hluta árs, og við skulum segja, að í þinglokin verði samþ. að láta þingið ekki koma saman fyrr en um haustið. Hvar er þá þetta hreppsfélag statt með þá löggjöf, sem ekki getur orðið samþ. fyrr en í árslok næsta ár? Og þá stendur það nákvæmlega heima, að það hefði einmitt átt að samþ. þetta frv. fyrir það eina ár, sem hin almenna löggjöf getur ekki náð til.

Annars skal ég ekki fjölyrða um þetta, því að þótt umr. séu ekki orðnar mjög langar, þá býst ég við, að þær séu að komast á það stig, að ekki komi mikið nýtt fram í málinu.