10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3749)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil gera grein fyrir atkv. mínu. Ég tel þetta mál sambærilegt við frv., sem samþ. var hér um heimild fyrir bæjarstj. Vestmannaeyja. Hér er ekki um annað en heimild að ræða fyrir hreppsnefndir og héraðsstjórnir í Skagafirði að koma fyrir gjöldum fyrir þessi hreppsfélög, heimild um að skattleggja íbúana á þennan hátt, sem hér er farið fram á. Það má vera, að sýslunefnd Skagafjarðarsýslu setji þau skilyrði, að nokkur hluti þessara tekna verði tekinn til þarfa annara sveitarfélaga, sem líka eru illa stödd. Þetta er því vel sambærilegt við Vestmannaeyjafrv. Hinsvegar er ég ekki kominn til að segja, að ég ætli að samþ. slík gjöld fyrir önnur héruð, sem hafa miklar tekjur frí öðrum bæjarfélögum, t. d. eins og Ísafjarðarkaupstaður, sem fær helming af tekjum sínum úr Norður-Ísafjarðarsýslu og vesturÍsafjarðarsýslu. Þarna skilur mikið á milli um framkvæmd og innheimtu. Hér eru það héraðsbúar sjálfir, sem gjalda, en þar væru það aðrir að nokkru leyti, sem inna gjöldin af höndum. Það væri því undarlegt að leggjast á móti þessu máli, eftir að hv. þdm. hafa samþ. sömu heimild fyrir Vestmannaeyjar, sem að öllu leyti er sambærileg við þessa.